maxresdefaultNý-rasisma er afar erfitt að merkja en er þó gífurlega útbreiddur í evrópskum samfélögum í dag. Ný-rasistar tala ekki um ákveðna “kynþætti” né um yfirburði eins kynþáttar yfir öðrum, heldur tala þeir um mismunandi menningarhópa. Þeirra sannfæring er að mismunandi menningarhópar geti aldrei búið saman í einu samfélagi og við þannig aðstæður muni alltaf koma til ofbeldis og átaka. Talsmenn þessarar stefnu líta á þennan “menningarlega mismun” sem óbreytanlegan þar sem hann byggist ýmist á “mannlegu eðli” eða hafi “djúpar sögulegar rætur”. Þeir telja því átök í fjölmenningarlegum samfélögum óhjákvæmileg. Eina leiðin til að komast hjá átökum sé að hindra þróun fjölmenningarlegra samfélaga með strangri innflytjendalöggjöf og útiloka “aðkomuhópinn” frá öllum félagslegum réttindum í samfélaginu. Til dæmis eru ný-rasistar tvímælalaust andvígir því að fólki af öðru þjóðerni sé veittur ríkisborgararéttur eða að þeir hafi rétt á stuðningi frá félagslega kerfinu. Ný-rasisminn er mun hættulegra form rasisma í dag en hinn hefðbundni rasismi þar sem talsmenn hans viðurkenna yfirleitt ekki andúð sína eða fyrirlitningu á fólki af erlendum uppruna en bera mál sitt fram eins og þeir beri hag allra fyrir brjósti. Dæmi um ný-rasískan málflutning gæti litið eftirfarandi út: “Ég held alls ekki að hvítir séu eitthvað betri en svartir, þeim liði bara augljóslega miklu betur í sínu rétta menningarlega umhverfi, auk þess sem þeir yrðu ekki fyrir fordómum í sínu heimalandi.”

Textinn er úr verkefninu: Greining: Hatursorðræða í ummælakerfum íslenskra netfréttamiðla, sem unnin var af  Bjarney Friðriksdóttur fyrir Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar  og gefin út þann 12. ágúst 2014. Í heimildaskrá greiningarinnar kemur fram að textinn er fengin úr bókum Guðrúnar Pétursdóttur.

Sjá úttekt Sandkassans á hópum og félögum hér á landi sem eru andsnúin innflytjendum hér