Vopnaburður lögreglu á almannasamkomum er nokkuð sem ætti ekki að sjást í okkar samfélagi. Hvað Ísland varðar þá liggur nokkuð ljóst í augum uppi hvaða einstaklingar teljast til öfgamanna og ofbeldisfólks. Besta leiðin til að fyrirbyggja hryðjuverk fyrir yfirvöld er að fylgjast náið með þeim einstaklingum og grípa strax í taumana um leið og grunur leikur á að þeir hafi eitthvað vafasamt í hyggju.

Árvökul augu þeirra sem fylgjast með uppgangi öfgamanna er mikilvægur hlekkur til að tryggja að hér á landi munum við aldrei þurfa að upplifa hryðjuverk. Sandkassinn hefur gengt lykilhlutverki í því á Íslandi að fylgjast með öfgafólki og vara almenning við vafasömu fólki með upplýsandi hætti. Vilji lögreglan vita hvaða einstaklingar teljast hættulegir þá mætti hún í auknum mæli lesa það sem ritstjórar Sandkassans og pennar hans hafa að segja.

Á mótmælum Íslensku Þjóðfylkingarinnar þann 15. Ágúst í fyrra vakti stórhættulegur öfgamaður og ofbeldismaður athygli á sjálfum sér fyrir fautaskap. Hann veittist að þeim sem mótmæltu rasisma Þjóðfylkingarinnar og þá sérstaklega ungri stúlku sem hann lét ekki í friði eftir að hún hrifsaði skilti úr höndum gamals rasista. Maðurinn átti seinna eftir að verða að töluverðu umfjöllunarefni á Sandkassanum vegna annarsvegar hótana í garð Salmann Tamimi og hinsvegar ofbeldis sem hann beitti Portúgalskan mann úti á Granda.

Sandkassinn var eini fjölmiðilinn sem þorði að snerta á þessum málum enda var maðurinn orðinn þekktur fyrir hótanir sínar í garð allra þeirra sem andmæltu honum eða bentu á ódæðisverk hans. Mikið af fólki hefur lifað í ótta við þennan mann og kunningja hans allt frá mótmælum Þjóðfylkingarinnar vegna sífelldra hótana, aðallega á Facebook.

Eftir umfjöllun Sandkassans um manninn þá fóru Gunnari Waage. stofnanda vefsetursins og á þeim tíma eina ritstjórans, að berast hótanir frá manninum um að hann skyldi draga allan fréttaflutning um hann til baka ellegar hafa verra af. Hótanirnar voru ítrekaðar og óhætt að segja að Gunnar hafi legið undir ofsóknum um nokkurra mánaða skeið. Ofbeldismaðurinn hreykti sér af því á einni af verstu sóðasíðu netsins að hafa mætt heim til Gunnars, hringt í hann og reynt að fá hann út til að hitta sig. Gunnar hunsaði þá beiðni. Aðeins nokkrum mánuðum síðar fór maðurinn í slagtogi við nokkra félaga sína og heimsótti annan mann. Þeirri heimsókn lauk þegar lögreglan kom að manninum og vinum hans standandi yfir líki.

Viðvörunarbjöllurnar voru til staðar en lögreglan gerði ekkert í málinu fyrr en líf hafði glatast. Í Bandaríkjunum tekur FBI mikið mið af upplýsingum frá mannréttindasamtökunum Anti-Defamation League og Southern Poverty Law Center. Þær upplýsingar verða til þess að komið er í veg fyrir hvert hryðjuverkið á fætur öðru. Að koma í veg fyrir hryðjuverk hefur mest með greiningarferli að gera. Við vitum að hryðjuverkamenn tengjast iðulega ofbeldisfullum öfgahópum og við vitum einnig að í Bandaríkjunum og Evrópu eru hættulegustu hóparnir þeir sem ala á rasískum hugmyndum.

Hverju hefur byssuburður lögreglu hér á landi skilað? Jú einn geðsjúkur maður var drepinn sem var líklegast eingöngu hættulegur sjálfum sér. Vopnaburður yfirvalda hér á landi mun eingöngu verða til þess að hræða almenna borgara og mun ekki skila neinu góðu af sér. Greiningarferli á líklegum afbrotamönnum er besta leiðin til að koma í veg fyrir hryðjuverk. Lögreglan þarf að læra að þekkja Svenna landsins og taka þá úr umferð áður en þeir fara að ráðast gegn almenningi.

Öruggara Samfélag Án Vopnaburðar

| Gunnar Hjartarson |
About The Author
-