Á Íslandi er gríðarlega erfitt að tjá sig gegn rasisma án þess að vera hótað kæru. Andstæðingar rasisma sem benda á staðreyndir um skoðanir og hugsanamunstur ákveðinna einstaklinga lenda iðulega í því að vera hótað lögsókn.

Einu sinni hefur kæra vegna gildisdóms náð alla leið til dómstóla hérlendis. Maður kallaði annan rasista og sá brást illa við og kærði. Sá sem kallaði manninn rasista hlaut sýknudóm. Reyndar er algjörlega óvíst hvort sá er kallaður var rasisti hafi raunverulega verið rasisti en í sjálfu sér er það aukaatriði. Það að vera rasisti er löglegt skv. Íslenskum lögum og flokkast sem pólitísk skoðun. Vond pólitísk skoðun að mati flestra en pólitísk skoðun engu að síður.

Skilgreiningar á skoðunum manna, pólitískum eða öðrum, eru leyfilegar í lýðræðislegu samfélagi hvort sem þær eru réttar eða rangar. Gott dæmi um ranga pólitíska skilgreiningu er þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kallaði Sjálfstæðisflokkinn “stærsta jafnaðarmannaflokk Norðurlandanna”. Með því átti hún væntanlega við að stefna flokksins og skoðanir meðlima byggðu á hugmyndum jafnaðarstefnunnar. Klárlega rangt en það hefði auðvitað verið geggjun að kæra hana fyrir þessi ummæli.

Hér á Sandkassanum hefur um nokkurt skeið verið haldinn úti listi um þá sem eru ný-rasistar. Farið er eftir nákvæmum skilgreiningum á ný-rasisma þegar kemur að flokkun fólks á listann. Vel má vera að einhverjir séu ósáttir við skilgreiningarnar sem við notum en þeim er það jafn frjálst eins og okkur að skilgreina einstaklingana. Ef einhver vill kalla það ofsafengna fólk á listanum “mannelskandi friðarsinna” er þeim það frjálst þó auðvitað væri það röng skilgreining. Engum í ritstjórninni myndi detta í hug að leggja fram kæru vegna þess.

Rasistar hafa ítrekað reynt að leggja fram kærur á hendur Sandkassanum vegna skilgreininga okkar á þeim. Í engu tilvika hafa kærurnar farið fyrir dómstóla enda eru rasistarnir með tapað mál í höndunum fyrirfram. Hinn virti fjölmiðill Stundin hefur einnig fengið sinn skerf af hótunum um lögsóknir af hálfu rasista. Útvarp Saga dróg Stundina fyrir dómstóla vegna myndbirtinga af útvarpsstjóranum Arnþrúði Karlsdóttur og vann málið. Hvergi kom fram að bannað væri að deila þessum myndum. “Þá segir dómarinn að Útvarp Saga vinni málið að forminu til en Stundin hefði ekki tapað því í öllu verulegu. Var ákveðið að málskostnaður félli niður.”. Þetta myndi í öllum heilbrigðum lýðræðissamfélögum kallast afbökun á réttlæti.

Lagaumhverfið á Íslandi er mjög hliðhollt rasistum yfir höfuð. Hatursglæpalöggjöfin er ófullkomin og nánast vonlaust að dæma fólk eftir henni. Þó hafa stjórnvöld ítrekað verið hvött til breytinga á henni til að betra sé að ná í skottið á þeim sem vinna gegn minnihlutahópum og lýðræðinu öllu. Við vitum að gefinni reynslu hversu hættuleg hatursorðræða er. Hún er undanfari ofbeldis, ofsókna og morða. Því er nauðsynlegt að stemma stigu við henni með öllum ráðum.

Þeir sem kynda undir kynþáttafordómum eiga aftur á móti mjög auðvelt með að klekkja á mannréttindasinnum. Farið er ítarlega yfir kærumál þeirra þó flestum sé vísað frá. Þegar það virkar ekki er leitað til Persónuverndar og Myndstefs sem virðast umkvartanir rasistanna hugleiknar. Ef ekkert af þessu virkar er svo farið beint yfir í níðskrif, hótanir, eignarspjöll og ofbeldi. Andstæðingar rasisma hafa svo litla björg innan dómskerfisins til að bregðast við þessum ósköpum.

Við skulum ekki gleyma því að Íslenskir rasistar eru beinir arftakar þeirra sem lögðu gjörvalla Evrópu í rúst á sínum tíma. Ekkert dómskerfi í siðmenntuðu samfélagi ætti að líta við nokkru sem frá þessu fólki kemur. Það ætti að vísa öllum kærum þeirra frá samstundis. Persónuvernd og Myndstef ættu sömuleiðis að sjá sóma sinn í því að beita sér alls ekki í þágu öfgafólks. Um er að ræða einsdæmi í gjörvallri Evrópu að rasistar geti spilað jafn mikið inn á réttarkerfið og þeir gera hérlendis.

Mikil þörf er á því að gera umhverfið fyrir andstæðinga rasisma auðveldara. Við þurfum að koma á fót sterkri hatursglæpalöggjöf og tryggja þeim sem berjast gegn rasisma algjöra friðhelgi. Við sem tjáum okkur gegn rasisma erum að hindra uppgang fasismans og sú barátta er algjörlega nauðsynleg í hverju lýðræðissamfélagi. Við vitum að rasistarnir munu beita öllum aðferðum til að klekkja á okkur en fyrir alla muni ætti þeim ekki að vera leyft að notfæra sér dómskerfið til þess.

Paradís Kæruglaðra Rasista

| Gunnar Hjartarson |
About The Author
-