FridrikJonssonFriðrik Jónsson skrifar —

Stærsta ógnin við íslenskan efnahag og líklegasti verðbólguvaldurinn er sá agnarlitli möguleiki sem hugsanlega er á því að lág- og meðaltekjufólk gætu hækkað í launum þannig að það gæti lifað frá mánuði til mánaðar án aukinnar skuldsetningar, hugsanlega haft efni á örlitlu meira af lífsins gæðum og kannski lagt aukalega fyrir. Eða öðruvísi er varla hægt að skilja fulltrúa peningastefnunefndar, og ef út í það er farið, talsmenn Samtaka atvinnulífsins.

Nagandi ótti peningahyggjufólks og verndara fjármagnsins virðist vera við það að ótíndur pöpullinn hafi meira milli handanna, enda ótíndum pöpulnum ekki treystandi til að fara með fé. Hann eyðir peningunum bara í vitleysu eins og mat, húsnæði, föt, flatskjái og ferðalög – í stað þess að kaupa hluta- og ríkisskuldabréf.

Þessi pöpull, sem þykist vilja mannsæmandi líf, betri tækifæri fyrir börnin sín, aðgang að góðu mennta- og heilbrigðiskerfi og aðeins rúmlega lágmarksafkomutryggingu fyrir okkar minnstu systur og bræður – fatlaða, aldraða, öryrkja.

Þessi pöpull, sem hefur í sjálfu sér ekkert við það að athuga að sumir njóti meiri velgengni en aðrir og að lífsins gæðum sé misskipt, en vill bara aðeins meiri sanngirni, jafnræði og gagnsæi, sérstaklega þegar kemur að þeim lífsins gæðum sem við eigum í raun jafn mikið tilkall til.

Þessi pöpull, sem skilur vel að fyrirtæki þurfi að ná árangri og skila hagnaði, en að sama skapi er óneitanlega hugsi yfir ofurgróða efnislegra einokunarfyrirtækja sem t.d. veita verslunar- og bankaþjónustu – þeim hinum sömu og benda á eitthvað annað þegar spurt er hví þeirra framboð er dýrara en allt um kring í öðrum löndum.

Þessi pöpull, sem skilur að af fyrsta hundraðþúsundkallinum í kaup er kannski ekki af miklu að deila, en sýnist nokk að eftir fyrstu milljónina sé svigrúmið töluvert meira – bæði í nafntölum, rauntölum og hlutfallslega.

Þessi pöpull, án hvers landið væri ósköp lítið og líkast til nánast ekki neitt. Hvað yrði um krónuna þá? Skuldabréfin og excelskjölin? Kvótann og kauphöllina?

Þessi pöpull, sem hlýtur að vera orðin þreyttur á því að þegar hann spyr eða gerir athugsemdir við ríkjandi ástand og uppsett kerfi, mæti honum föðurleg umvöndum um ábyrgð, sem fylgt er eftir með hótunum og hortugheitum.

Það er býsna brogað það kerfi sem gengur ekki upp nema að til þess að einhverjir geti verið ríkir, þurfi helst allir hinir að vera meira og minna blankir. Alltaf.

Slíkt kerfi er ekki sjálfbært. Það þarf uppfærslu og afvillun…

Pöpullinn: Stærsta ógnin?

| Greinar |
About The Author
- Ritstjórn