Litli Svarti Sambó

logoSagan um Litla Svarta Sambó var gefin út í Október 1899. Sagan var vinsæl á meðal barna allt þar til um miðja síðustu öld þegar byrjað var að tala um að bókin hvetti til kynþáttafordóma gegn svörtu fólki, bæði í textum og mynd. Þrátt fyrir að bókin sé ein sú umdeildasta fyrr og síðar þarf samt að benda á það að kynþáttahatur gegn svörtum á þessum tíma var gríðarlegt og yfirleitt voru svartir sýndir í bókmenntum sem heimskir og villimannslegir. Litli Svarti Sambó sýndi ekki blökkumenn í nærri því jafn slæmu ljósi og fyrrnefndar bækur. Bókin kynnir nefnilega til sögunnar eina fyrstu svörtu hetjuna í sögu barnabókmennta sem er auðvitað aðalpersónan sjálf, hann Sambó. 

Þótt að bókin hafi ekki sýnt svarta í svo neikvæðu ljósi ef miðað er við bókmenntir þessa tíma þá voru sögupersónur bókarinnar einfeldingar og myndmálið það sem við köllum í dag “Racist Caricatures”, myndrænt mál sem lýsir brengluðum kynþátta staðalímyndum. Rasískt myndmál um svarta er t.d. að þeir séu gerðir heimskir og barnalegir, elski vatnsmelónur, hafi þykkar varar, kjánaleg starandi augu og húðlitur þeirra er gerður bikasvartur.

Samfélagsbreyting

Flestir vita að samfélög manna hafa breyst mikið á þeim 117 árum sem eru frá útgáfu bókarinnar. Allt þar til um miðja síðustu öld og langt fram á tíunda áratuginn í Suður -Afríku var hatur gegn svörtum almennt viðurkennt af samfélaginu en hefur síðan þá misst “samfélagslega viðurkenningu” sína þó enn finnist miklir kynþáttafordómar gegn svörtum allt  til dagsins í dag. Sú meðferð sem svartir hafa sætt í gegnum tíðina með nýlendustefnunni, þrælahaldi og aðskilnaðarstefnu situr enn mjög í svörtu fólki og nær allar tengingar sem notaðar eru í dag til að koma höggi á svarta eru með tilvísunum og tilvitnunum í þetta langa hörmungartímabil þar sem gamlar staðalímyndir eru dregnar upp til að gera lítið úr svörtum mönnum sem nú njóta loks jafnréttis í lagalegum skilningi í öllum löndum heims.

Tilraunir til að hvítþvo bókina

Bókin um Litla Svarta Sambó hefur aldrei verið almennilega lögð á öskuhauga sögunnar en fyrir um 20 árum kom út “mildari” útgáfa bókarinnar þar sem bókin hét nú “The Story of Little Babaji”. Upprunalegi Sambó var frá Indlandi og var teiknaður í rasísku myndmáli eins og áður hefur verið komið inn á. Í þessari bók hélst textinn óbreyttur en búið var að fjarlægja alla myndræna kynþáttafordóma úr bókinni og Babaji var því engin kynþátta staðalímynd en var líkt og Sambó frá Indlandi. Fleiri útgáfur hafa einnig verið gerðar til að milda upprunalegu bókina svo hagnast megi enn frekar á umdeildri arfleið hennar.

Sambó

Orðið “Sambó” er heiti yfir manneskju af Afrísku bergi brotnu og í sumum löndum bland á milli Afrískrar manneskju og upprunalegs Norður-Ameríkana. Upprunalega þýddi það manneskju sem væri blanda á milli svartra og hvítra en þó með meira af svörtum genum í sér en hvítum. Eins og sést er þessi skilgreining á orðinu mjög forneskjuleg og var snemma byrjað að nota orðið sem fordómanafn yfir svarta bandaríkjamenn, háðsnotkun orðsins er talin hafa byrjað í Bandarísku borgarastyrjöldinni sem stóð frá 1861-1865. Síðar var orðið svo notað sem heiti fyrir aðalsögupersónu bókarinnar “Litli Svarti Sambó” og jók það töluvert á fordómanotkun orðsins sem var í auknum mæli tengt við rasískt myndmál af Sambó litla. Síðan þá hefur orðið ávallt verið notað sem kynþáttaníð í garð blökkumanna.

Íslenskt fyrirtæki fetar á braut kynþáttafordóma

Fyrirtækið Kólus hefur framleitt lakkrís í um 50 ár eða u.þ.b. frá þeim tíma sem aðskilnaðarstefna hvítra og svartra leið undir lok í Bandaríkjunum árið 1964. Fyrirtækið framleiðir lakkrís undir nafninu “Sambó” en eins og áður hefur komið fram er orðanotkunin flokkuð sem kynþáttaníð. Ekki láta þeir sér þó þessa orðanotkun duga heldur pakka þeir líka lakkrísrúllunum sínum inn í pakkningar sem eru skreyttar rasísku myndmáli byggðu á bókinni um Litla Svarta Sambó. Kjartan Páll Kjartansson, framkvæmdarstjóri Kólusar neitar því að um sé að ræða kynþáttafordóma hjá fyrirtækinu.

 

Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði, tjáir sig um málið en hún segir: „Það er ekki íslensk uppfinning að teikna fólk sem er með dökkt litaraft á þennan hátt. Þetta eru bein áhrif frá rasistaímyndum sem voru sterkar víða í Evrópu í lok 19. og í byrjun 20. aldar. Í bókinni hans Muggs um negrastrákana tíu sjáum við sömu ímynd í teikningum bókarinnar. Mér þykir mjög merkilegt að þetta fyrirtæki vilji tengja vöru sína við kynþáttafordóma,“.

Mál af svipuðum toga

Árið 2007 kom upp svipað mál þegar bókaútgáfan Skrudda endurútgaf bókina um “10 litlu negrastrákana”. Kristín rannsakaði þá umræðu sem átti sér stað við útgáfu þeirrar bókar en þar komst hún að þeirri niðurstöðu að innfæddir Íslendingar skiptust í tvo hópa sem voru ósammála um skilaboð bókarinnar en innflytjendum á Íslandi þótti bókin lýsa fordómum.

Brot á lögum

Það að nota kynþáttaníðs orð gegn blökkumönnum sem nafn á vörutegund og að birta rasískt myndmál af svörtum dreng framan á pakkningum sælgætis telst til kynþáttahaturs og brotið fellur undir 233. gr .a. hegningarlaganna en þar segir:

“Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar eða trúarbragða sæti sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 2 árum.]”.

 Stöndum saman gegn rasisma

Þar sem við búum á Íslandi er þó ólíklegt að þessari hegningarlagagrein verði beitt af yfirvöldum gegn fyrirtækinu enda hefur aðeins einu sinni verið dæmt eftir greininni áður. Það sem ég vil þó hvetja alla til að gera er að hætta að versla sælgæti frá Kólus a.m.k. þar til þeir hafa hætt að nota “Sambó” vörumerkið, hætt að birta rasískt myndmál og biðja landsmenn afsökunar á öllum rasismanum sem hefur komið frá fyrirtækinu.

Heimildir:

http://www.visir.is/seldu-434-tonn-af-saelgaeti-til-atta-landa/article/2014140419311

https://en.wikipedia.org/wiki/The_Story_of_Little_Black_Sambo

https://en.wikipedia.org/wiki/Sambo_(racial_term)

http://www.visir.is/umbudir-utan-um-sambo-kremlakkris-fara-ofugt-ofan-i-folk/article/2016161019139

http://www.althingi.is/lagas/119/1940019.html

 

 

Rasísk orðanotkun og myndmál hjá Íslensku fyrirtæki

| Gunnar Hjartarson |
About The Author
-