Stjórnmálaflokkur sem þrætir fyrir að vera rasistaflokkur en tekur samt yfirlýsta andstöðu gegn flóttamönnum og hælisleitendum stefnir nú hraðbyri á þing. Einn helsti áhrifamaður þessa flokks öðlaðist landsfrægð fyrir um áratug síðan fyrir að vilja ekki taka við nokkrum flóttakonum upp á Akranesi. Konurnar höfðu búið í flóttamannabúðum árum saman við skelfilegar lífsaðstæður.

 

Formaðurinn líkir sér við Marine Le Pen og talar fyrir því að Íslendingar taki upp Norsku leiðina gegn flóttamönnum og hælisleitendum. Noregur hefur sætt harðri gagnrýni frá mannréttindasamtökum fyrir ómannúðlega framkomu sína gagnvart fólki sem leitar þeirra ásjónu. Hennar helsta leið til að vekja athygli á sjálfri sér og flokk sínum er í gegnum viðtöl á Útvarpi Sögu. Stöð sem hefur verið skilgreind opinberlega sem hatursorðræðustöð.

 

Hún níðir niður fólk sem berst fyrir mannréttindum. Þegar hún er gagnrýnd hótar hún að kæra menn. Í síðasta viðtali sínu á Útvarpi Sögu talaði hún um að koma böndum yfir þá sem gagnrýna flokk hennar og þann viðbjóð sem þar er staðið fyrir. Hún myndi láta til sín taka við að fá fólk dæmt, kæmist hún í ríkisstjórn.

 

Samkvæmt öllum marktækum skoðanakönnunum ætla 9-11% Íslendinga að kjósa flokk þessa fólks yfir sig. Varla er hægt að kalla alla kjósendurna rasista en mörg þeirra hafa verið blekkt með ótrúlegu lýðskrumi til að styðja við flokkinn. Rasistaflokkar reiða sig iðulega á fylgi þeirra sem eru óupplýstir og skilja ekki hvað það skiptir miklu máli að hindra öfgamenn í að ná fótfestu í stjórnunarstöðum.

 

Í dag er sorgardagur í Þýskalandi. Rasistaflokkur hefur í fyrsta sinn verið kjörinn á þing frá lokum síðari heimstyrjaldar. Markmið Þjóðverja eftir lok nasismans hefur ávallt verið að koma í veg fyrir að álíka flokkur rísi aftur. Nú hafa varnarmúrar landsins gegn öfgaöflum fallið og afleiðingarnar munu verða skelfilegar bæði fyrir minnihlutahópa og orðspor landsins.

 

Eftir einn mánuð verða kosningar á Íslandi. Ætlum við að fylgja í fótspor Þjóðverja og kjósa álíka afl yfir okkur eða ætlum við að standa með lýðræði og mannréttindum?

 

Segjum nei við rasisma og segjum nei við Flokki Fólksins.

 

Rautt Spjald Í Stað Þingsæta

| Gunnar Hjartarson |
About The Author
-