DV greinir frá ákvörðun borgarstjórnar frá 16. desember síðastliðnum um að efna til hugmyndasamkeppni í tengslum við þátttöku Reykjavíkurborgar í verkefninu Intercultural Cities. Aðalvinkillinn er að fulltrúar Framsóknar og flugvallarvina sátu hjá meðan aðrir greiddu með en það er nú kannski ekki aðalatriðið heldur ætla ég að nota tækifærið til að árétta aðeins af hverju var ákveðið að fara út í þessa samkeppni. Þar sem það var ég sem hélt framsöguræðuna um málið er ég í ágætri stöðu til að útskýra það (áhugasamir geta annars horft á umræðuna sem hefst í kringum 28:30 hér).

Á enskunni er intercultural annað hugtak og aðferðafræði en multicultural. Hið síðara hefur verið þýtt yfir á íslensku sem fjölmenning og það hugtak þekkir fólk orðið vel. Munurinn á þessu tvennu er að intercultural-nálgunin gengur gagngert út á að stuðla að samskiptum milli ólíkra menningarhópa og að byggja upp ákveðin sameiginleg gildi um leið og fjölbreytileikanum er fagnað. Þannig er reynt að forðast algjöra menningarlega afstæðishyggju og unnið eftir ákveðinni aðferðafræði sem ætlað er að byggja upp heilbrigt fjölmenningarsamfélag.

Eða eins og segir á ensku Wikipediasíðunni um hugtakið:

Interculturalism has arisen in response to criticisms of existing policies of multiculturalism, such as criticisms that such policies had failed to create inclusion of different cultures within society, but instead have divided society by legitimizing segregated separate communities that have isolated themselves and accentuated their specificity. It is based on the recognition of both differences and similarities between cultures. It has addressed the risk of the creation of absolute relativism within postmodernity and in multiculturalism.

Í borgarstjórn þann 21. október var tekin fyrir fyrsta skýrslan um stöðu Reykjavíkurborgar samkvæmt þessari nálgun og þar er verk að vinna, kannski fyrst og fremst af því að nálgunin er ný og ekki hefur verið unnið eftir nákvæmlega þessum tékklista áður. Það fæst sennilegast betri mynd af því hvernig borgin stendur sig eftir því sem á líður og staðan er tekin aftur. Það sem flækir þetta hins vegar aðeins er að hér á Íslandi höfum við verið að notast við fjölmenningarhugtakið lengi og þó að við tengjum það kannski að einhverju leyti við það sem intercultural-hugtakið stendur fyrir eru þetta engu að síður tvö mismunandi hugtök í enskunni. Full ástæða er til að láta á það reyna að finna íslenskt heiti yfir hugtakið eða þá hið minnsta taka umræðu í samfélaginu um þetta hugtak og þessi málefni almennt. Kannski fólk sé sátt við að notast bara áfram við fjölmenningarhugtakið með þeim skilningi að það geti náð yfir eitthvað svipað og intercultural (og einhverjir nota fjölmenningu yfir intercultural nú þegar) en það kemur ekki almennilega í ljós fyrr en eftir umræðuna.

Samkeppni til að finna þýðingu á hugtakinu og slagorð fyrir verkefnið gefur hvata og tilefni til að fólk velti þessum málum fyrir sér og ræði sín á milli – mun meiri en ef embættismenn taka sig til og finna eitthvað hugtak og slagorð sem fólk er síðan matað á.

Eitt af málum málanna í stjórnmálum dagsins í dag er jú hvernig virkja má fólk til samráðs og samtals og það fer ansi vel á því miðað við umræðu síðustu daga að taka snúning á fjölmenningunni, sem mér finnst full ástæða til að minna á að snýst um mun meira en innflytjendur þar sem við erum núorðið öll ansi fjölmenningarleg; lifum og hrærumst í erlendum straumum og þar eru innflytjendur eiginlega ekki aðaláhrifavaldurinn heldur frekar alþjóðavæðingin og samskiptatæknin. Í þessari umræðu hefur mjög sýnt sig hversu mikið við þurfum á nálgunum að halda sem brúa bilið milli ólíkra samfélagshópa og styrkja þann sameiginlega grunn sem við stöndum á. Það gerist ekki öðruvísi en að fólk tali saman og sýni hvert öðru virðingu og skilning, um leið og staðið er vörð um stjórnarskrárvarin réttindi okkar allra – og ekki síst að fólk í áhrifastöðum gangi þar fram með góðu fordæmi (en ekki fordómum).

Það er vissulega rétt að hugmyndin er óútfærð og kostnaðarmat liggur því ekki fyrir en ekki er fyrirséð að kostnaðurinn verði hár, og hann mun rúmast innan fjárhagsramma mannréttindasviðs þannig að borgarstjórn hefur með þessu ekki samþykkt nokkra aukafjárveitingu ofan á rammann. Útfærslan er einmitt líka opin til umræðu fyrst út í það er farið – allt með það að markmiði að vekja athygli á verkefninu og gefa öllum hlutdeild í því, ekki bara þeim sem eru innan borgarkerfisins.

Halldór Auðar Svansson

Halldór Auðar Svansson

Tölvunarfræðingur.
Hugsjónanjörður.
Borgarfulltrúi Pírata.
Formaður stjórnkerfis- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar.
Zen-lærlingur.
Halldór Auðar Svansson

Samkeppni um Intercultural Cities

| Halldór Auðar Svansson |
About The Author
- Tölvunarfræðingur. Hugsjónanjörður. Borgarfulltrúi Pírata. Formaður stjórnkerfis- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar. Zen-lærlingur.