Ég er komin með algert ógeð á því að það sé verið að verja ofbeldismenn þegar það er augljóst að þeir hafi brotið á öðrum. Hvort sem það er Hafþór a Íslandi, Bill Cosby í Bandaríkjunum eða Jian Ghomeshi í Kanada, sem eru allt dæmi um þjóðþekkta ofbeldismenn sem eru ákærðir eða sakaðir um ofbeldi á konum en einhvern veginn virðast þeir fá lítinn sem engan dóm og aðdáendur vilja örvæntingarfullir verja þá. Vissulega var það erfitt fyrir fólk að vera í afneitun með Cosby og Ghomeshi vegna fjölda fórnarlamba sem stigu fram, í máli Hafþórs hafa 5 konur stigið fram, áverka vottorð sýnd og vitni staðfest atburðarásir og ofbeldi.

Kannski er ég ógeðslega svartsýn en ég býst ekki við því að kæran sem lögð var fram muni veita þessum ofbeldismanni dóm eða hafa nokkur áhrif á feril hans, sem er jú allur byggður á líkamlegum styrk hans sem hann hefur einmitt notað sem vopn gagnvart þessum konum. Ég er komin með algert ógeð á því hvað kerfið á Íslandi samþykkir og hylmir ítrekað yfir ofbeldi þá sérstaklega ofbeldi gagnvart konum. Þeir einstaklingar sem ég þekki eða veit af sem hafa nauðgað konum hafa t.d aldrei verið dæmdir eða hljóta skamman tima i skilorðsbundnu fangelsi. Ég trúi því ekki að refsing eins og einangrun hafi læknandi áhrif á veikan einstakling og því finnst mér að þerapíur og alhliða sálræn aðstoð ætti að vera stefna fangelsa en hins vegar þurfa að vera skýr skilaboð að ef þú brýtur á öðrum þá þarftu að taka ábyrgð á því.

Nú er þetta mál nýtt og þessi maður er ekki dæmdur sekur en mér finnst það ansi ólíklegt að þessar 5 konur hafi hist saman ásamt vitnum og læknum til þess að fremja samsæri gegn þessum manni. Auk þess finnst mér það orðin margra alda þreytt klisja að kalla konur sem tala um ofbeldi geðveikar og peningasjúkar sem einmitt þessir menn, Hafþór, Cosby og Ghomeshi hafa allir gert þegar fórnarlömb þeirra stíga fram.

*Endurbirt með leyfi höfundar

Latest posts by Kristín Morthens (see all)

Samþykkt Ofbeldismenning

| Greinar |
About The Author
-