Valur Arnarson skrifar:

Ég skrifaði færslu hér á blogginu mínu árið 2014, þar sem ég hvatti til þess að tekið yrði vel á móti þeim múslimum sem hingað flyttust búferlum. Hvatinn af færslunni voru gríðarlegir fordómar sem ég varð var við hér í garð þessa annars geðþekka minnihlutahóps. Færslan er hér fyrir þá sem vilja lesa:

http://valur-arnarson.blog.is/blog/valur-arnarson/entry/1402996/

Fordómar eru þegar margir eru dæmdir út frá fáum og fá minnihópar gjarnan að kenna á þeim meðulum. Sá minnihlutahópur sem verður hvað mest fyrir barðinu á þessu, hér um þessar mundir, eru múslimar. Það ástand hefur ekki lagast á þeim þremur árum frá því að ég skrifaði færsluna. Ef einhverjir vitleysingar út í heimi fremja hryðjuverk í nafni Guðs, þá verður orðræðan oft þannig að allir eru settir undir sömu sök.

Þeir sem stunda þannig orðræðu telja sig vera í yfirburðarstöðu vegna fyrirliggjandi orsakasamhengis. Maður las trúarrit, maðurinn framdi hryðjuverk og nú eru margir látnir.

Fyrir það fyrsta, þá þarf ekki trú til að hryðjuverk eigi sér stað, það þekkjum við á sögunni og eru nærtækustu dæmin hvítir Evrópubúar (RAF) sem frömdu hryðjuverk í nafni kommúnismans. Þarna er því orsakasamhengið strax orðið laskað og málflutningurinn vafasamur.

Það sem er þó vandræðalegast, er þegar siðferðisviðmið Kóransins eru gerð að orsakavaldi. Þannig málflutningur er jafnvel stundaður af kristnum trúmönnum sem telja sitt trúarrit búa yfir siðferðislegum yfirburðum, sem séu þess eðlis að engin leið sé fyrir þá sjálfa að ganga á glapastigu hryðjuverkanna. Ef Kóraninn kennir siðferðisleg rangindi, þá gerir hebreska Biblían það nefnilega líka.

Bæði ritin lýsa Guði sem tuktar þjóð sína og þegna. Bæði ritin lýsa Guði sem krefst skilyrðislausrar undirgefni og eru lýsingar á hefndum oft svæsnar svo ekki sé fastar að orði kveðið. Við þessu höfum við trúmennirnir yfirleitt svar, og er það á þessa leið:

Guð verður ekki gerður ábyrgur fyrir vali sínu á réttu og röngu, aðeins maðurinn er undir því lögmáli. Það sem við skynjum sem það illa í heiminum, er afleiðing syndar okkar, óhlýðni mannsins við Guð og boðorð hans. Guð verður ekki gerður ábyrgur vegna þess að hann stendur ofar sköpun sinni, mannlegum skilningi og gildismati – annars væri hann ekki Guð.

Þessi frasi, eða valkvæða gæska Guðs, hlýtur því líka að eiga við um Guð Kóransins. Trúarrit þau sem hafa verið hér til umfjöllunar, innihalda einnig margan jákvæðan og kærleiksríkan boðskap. Grunnurinn er í báðum tilfellum, náungakærleikur og sátt í samfélagi mannanna. Það er því rökrétt sem blasir við okkur að langflestir múslimar kjósa að lifa í friði og kærleika, rétt eins og ég sjálfur.

Grein þessi birtist upphaflega á vefsvæði höfundar

Settir undir sömu sök

| Greinar |
About The Author
- Ritstjórn