Upprunalegt eintak af siðareglum RUV hér

Siðareglur Ríkisútvarpsins

Formáli

Ríkisútvarpið er ein mikilvægasta menningar- og lýðræðisstofnun þjóðarinnar. Markmið þess er að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Þá hefur Ríkisútvarpið því mikilvæga hlutverki að gegna að viðhalda sameiginlegum gildum og vera vettvangur skoðanaskipta mismunandi hópa samfélagsins. Af þeim sökum er ábyrgð starfsfólks Ríkisútvarpsins mikil.

Í þeim tilgangi að stuðla að faglegum vinnubrögðum, draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og auka traust setur starfsfólk Ríkisútvarpsins sér siðareglur. Að auki gilda nákvæmari reglur um tiltekna þætti í starfseminni, s.s. vinnslu fréttaefnis o.fl.

Með reglum um málsmeðferð athugasemda og kvartana, sbr. 13. gr. laga nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, er einnig skapaður farvegur trausts og óhlutdrægni fyrir rökstuddar ásakanir um misbrest og stuðlað að því að leyst verði úr ágreiningi á málefnalegan hátt.

 1. Vinnubrögð og markmið

Starfsfólk Ríkisútvarpsins vinnur starf sitt á grundvelli laga um Ríkisútvarpið, þjónustusamnings við mennta- og menningarmálaráðuneyti og stefnu Ríkisútvarpsins á hverjum tíma.

Starfsfólk kappkostar að vera til fyrirmyndar um gæði og fagleg vinnubrögð, gegnir störfum sínum af metnaði, heiðarleika og virðingu og hefur í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi.

Starfsfólk sem sinnir umfjöllun um fréttir, fréttatengt efni eða dagskrárgerð sannreynir að heimildir séu réttar og að sanngirni sé gætt í framsetningu og efnistökum. Þetta á sérstaklega við þegar upplýsingar geta verið litaðar af persónulegum hagsmunum eða geta verið til þess fallnar að skaða aðra. Gildir þá einu hvort í hlut eiga einstaklingar, fyrirtæki, samtök, félög eða annað.

Starfsfólk leitast við að eiga greið og opin samskipti við almenning og hlusta af athygli á athugasemdir og ábendingar frá áhorfendum og hlustendum.

Starfsfólk stendur vörð um trúverðugleika stofnunarinnar. Staðreyndavillur og mistök, sem varða umfjöllun eða samskipti við almenning, eru undanbragðalaust leiðrétt eins fljótt og mögulegt er.

 1. Háttsemi og framkoma

Starfsfólk rýrir ekki trúverðugleika Ríkisútvarpsins með ámælisverðri framkomu, skeytingarleysi um lög eða virðingarleysi við mannhelgi og mannréttindi.

Starfsfólk virðir trúnað um málefni vinnustaðarins sem ætla má að trúnaður eigi að ríkja um í samskiptum innan og utan vinnustaðar, þ. á m. á samfélagsmiðlum.

Starfsfólk mismunar hvorki né hvetur til fordóma, til dæmis á grundvelli kynþáttar, kyns, kynferðis, kynhneigðar, kynvitundar, fötlunar, þjóðernis eða trúarbragða.

Starfsfólk sýnir gestum, viðmælendum og hagsmunaaðilum ætíð fyllstu kurteisi.

Starfsfólki ber að sýna fyllstu tillitssemi í viðkvæmum málum. Starfsfólk virðir friðhelgi einkalífsins í fréttum og dagskrárefni nema lýðræðishlutverk Ríkisútvarpsins og upplýsingaréttur almennings krefjist annars.

 1. Hagsmunatengsl og hagsmunaárekstrar

Starfsfólk gætir þess að vina-, hagsmuna- og skyldleikatengsl hafi ekki áhrif á störf þess sem hjá Ríkisútvarpinu eru unnin og ber að tilkynna næsta yfirmanni um hagsmuni sem geta haft áhrif á störf þess hjá félaginu.

Starfsfólk skal ávallt bera undir næsta yfirmann fyrirætlanir um störf utan Ríkisútvarpsins, þ. á m. þátttöku í auglýsingum, kynningar- eða almannatengslastarfi fyrir aðra.

Starfsfólk er ætíð á varðbergi gagnvart þeim sem kunna að reyna að hafa áhrif á dagskrá með óeðlilegum hætti og gagnvart óbeinum auglýsingum í dagskrá.

Starfsfólk, sem sinnir umfjöllun um fréttir, fréttatengt efni og dagskrárgerð tekur ekki opinberlega afstöðu í umræðu um pólítísk málefni eða umdeild mál í þjóðfélagsumræðunni, þ. á m. á samfélagsmiðlum.

Starfsfólk gætir að því að vera óháð stjórnmálalegum, hugmyndafræðilegum og efnahagslegum hagsmunum í efnismeðferð og ritstjórnarákvörðunum.

Starfsfólk hefur í huga að skyldur þess eru fyrst og fremst við almenning og gætir jafnræðis þegar tekin er afstaða til óska hagsmunahópa.

Starfsfólk þiggur ekki persónulega verðmætar gjafir vegna starfs síns.

 1. Samskipti á vinnustað

Starfsfólk kappkostar að gera Ríkisútvarpið að fyrirmyndarvinnustað þar sem samskipti eru hreinskilin en vinsamleg.

Starfsfólk er hvetjandi við samstarfsfólk sitt og leggur sig fram um að bjóða fram aðstoð.

Starfsfólk gagnrýnir með uppbyggilegum hætti og beinir ábendingum til þeirra er málið varðar. Hvers konar vanvirðing, einelti eða áreitni eru aldrei liðin.

 1. Eftirfylgni og viðbrögð við brotum á siðareglum

Hver starfsmaður er, í samræmi við stöðu sína og hlutverk, ábyrgur fyrir athöfnum sínum og gjörðum og gætir að því fyrir sitt leyti að farið sé eftir reglunum. Yfirmenn kynna starfsfólki reglur sem um starfið gilda og ganga á undan með góðu fordæmi.

Verði starfsmaður áskynja um ámælisvert athæfi skal hann vekja athygli næsta yfirmanns á atvikinu, sem ekki á sjálfur hagsmuna að gæta, eða annarra viðeigandi aðila. Starfsfólk geldur ekki fyrir ábendingar um brot á siðareglum eða fyrir að leita réttar síns telji það á sér brotið.

Siðanefnd Ríkisútvarpsins sker úr um hvort siðareglur stofnunarinnar hafa verið brotnar. Öllum er frjálst að senda siðanefnd erindi.

Siðanefnd starfar samkvæmt starfsreglum sem stjórn Ríkisútvarpsins staðfestir. Reglurnar lýsa meðferð mála fyrir nefndinni, meðal annars varðandi það hvernig nefndin aflar gagna og athugasemda málsaðila og hvernig hún upplýsir mál og birtir niðurstöður sínar. Tekið er mið af málsmeðferð fyrir dómstólum og opinberum stjórnvöldum sem ætlað er að tryggja óhlutdrægni og málefnalega umfjöllun.

Niðurstaða siðanefndar í máli er rökstudd og afdráttarlaus. Nefndin mælir ekki fyrir um viðurlög við brotum á siðareglum, en tekur afstöðu til alvarleika brotsins og hvort um endurtekið brot hafi verið að ræða.

Niðurstaða siðanefndar um brot á siðareglum er endanleg og verður ekki áfrýjað. Ef niðurstaða nefndarinnar bendir til þess að um sé að ræða brot í starfi í skilningi laga skal nefndin vekja athygli útvarpsstjóra á því. Ef um er að ræða ágreining eða brot á lagareglum, sem heyra undir aðila utan Ríkisútvarpsins, vísar nefndin málinu frá.

Reglur um siðanefnd Ríkisútvarpsins

 1. Almennt

Við Ríkisútvarpið starfar siðanefnd sem úrskurðar um hvort siðareglur Ríkisútvarpsins hafi verið brotnar. Siðanefnd tekur við skriflegum athugasemdum og kvörtunum um meint brot á siðareglum frá nafngreindum aðilum innan eða utan Ríkisútvarpsins. Nefndin tekur ekki mál til meðferðar að eigin frumkvæði.

Starf siðanefndar skal, eftir því sem við á, taka mið af meginreglum um óhlutdrægni og vandaða málsmeðferð, m.a. hvað varðar stöðu málsaðila og tillit til hagsmuna þeirra. Um meðferð mála sem miða að því að tryggja vandaða og málefnalega umfjöllun um hvert mál.

Til þess að tryggja hagsmuni málsaðila getur siðanefnd ákveðið að farið sé með málsgögn og niðurstöður einstakra kvartana sem trúnaðarmál. Siðanefnd getur einnig, ef sérstaklega stendur á, ákveðið að kærandi njóti nafnleyndar, enda sé sýnt að meðferð kvörtunarinnar geti að öðrum kosti bitnað á honum.

 1. Nefndarskipun

Útvarpsstjóri skipar formann siðanefndar. Hann skal uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara. Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins skipa einn nefndarmann og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands skipar einn nefndarmann. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Þegar fram kemur kæra fyrir brot á siðareglum getur nefndin að auki, eftir eðli máls, kallað til sérfróðan aðila til ráðgjafar og upplýsingar en viðkomandi hefur ekki atkvæðisrétt.

Skipunartími nefndarmanna er þrjú ár.

 1. Fundir

Erindi sem berast nefndinni eða nefndarformanni skulu send öllum nefndarmönnum. Formaður siðanefndar boðar til funda þegar þurfa þykir.

 1. Hæfi nefndarmanna

Nefndarmaður má ekki fjalla um kæru ef hann uppfyllir ekki hæfisskilyrði 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Verði ágreiningur um sérstakt hæfi nefndarmanns sker siðanefndin úr, sbr. 5. gr. stjórnsýslulaga.

 1. Málsgrundvöllur

Áður en siðanefnd tekur mál til umfjöllunar kannar hún hvort framkomin kæra snertir siðareglur Ríkisútvarpsins. Nefndin vísar frá kærum sem ekki varða siðareglurnar eða eru tilefnislausar. Þá getur nefndin vísað kærum frá, ef um er að ræða meint brot á lagareglum sem hægt er að bera undir úrskurð stjórnvalda eða dómstóla.

Berist siðanefnd kæra sem hún hyggst taka til umfjöllunar tilkynnir nefndin þeim sem kæran beinist að um hana og veitir honum frest til þess að lýsa viðhorfum sínum til hennar.

 1. Andmælaréttur

Áður en siðanefnd kemst að niðurstöðu um kæru skal málsaðili eiga þess kost að tjá sig um framkomna kæru, öll gögn sem aflað hefur verið og afstöðu annarra málsaðila ef þeim er til að dreifa.

 1. Niðurstaða

Niðurstaða siðanefndar í kærumáli skal vera rökstudd og afdráttarlaus um það hvort brotið hafi verið gegn siðareglum Ríkisútvarpsins. Geti nefndin ekki komist að skýrri niðurstöðu vegna skorts á upplýsingum um málsatvik, skal kærunni vísað frá. Geti nefndarmenn ekki orðið sammála um það hvort um brot sé að ræða, ræðst niðurstaðan af afstöðu þeirra tveggja nefndarmanna sem mynda meirihluta.

Siðanefnd mælir ekki fyrir um viðurlög við brotum sem hún kemst að niðurstöðu um en skal taka afstöðu til alvarleika brotsins og hvort telja megi að um endurtekið brot sé að ræða. Siðanefnd greinir brot í flokka eftir eðli þeirra:

a) ámælisvert

b) alvarlegt

c) mjög alvarlegt

 1. Birting niðurstöðu

Niðurstaða siðanefndar í kærumáli er skrifleg og tilkynnt málsaðilum bréflega. Niðurstöðu siðanefndar skal ávallt birta á vef Ríkisútvarpsins. Niðurstaðan er einnig send útvarpsstjóra til vitundar og varðveislu.

 1. Viðbrögð við niðurstöðu nefndarinnar

Niðurstaða siðanefndar um brot á siðareglum er endanleg og verður henni ekki áfrýjað. Ef niðurstaða nefndarinnar bendir til þess að um sé að ræða brot í starfi í skilningi laga skal nefndin vekja athygli útvarpsstjóra á því.

Siðareglur Ríkisútvarpsins

| Sandkassinn |
About The Author
- Ritstjórn