1383484_726774794002639_266721544_n

Siggi Karls fer svipaða slóð og hans samtíðarmenn erlendis, 65 ára gamall fetar hann ekki í fótspor þeirra trommuleikara sem hafa fært sig úr rokkinu yfir í mýkri tónlist þegar þeir komast á vissan aldur, léttan jazz eða mjúka popptónlist. Þvert á móti þá er Siggi að spila progressive rokktónlist með HQ2 (Genesis Hópnum).Hann er að spila sama powerhouse trommuleikinn og hann er þekktur fyrir. Hljómsveitin fyllti Salinn í Kópavogi (tvívegis) í Febrúar síðastliðnum. Nú heldur sveitin hljómleika næstkomandi laugardag í Háskólabíó með tónlist Genesis og Peter Gabriel. Hljómleikarnir hefjast kl. 19.30. Nánari upplýsingar um hljómleikana má finna á midi.is

 

GW: Tilefni þessa viðtals er Genesis hópurinn sem heitir í dag H2O.

SK: Í fyrra þegar við komum fram í Salnum þá hétum við Genesis-Hópurinn. Síðan vildum við bara hafa nafn sem gæti náð yfir hvað sem er. Ekki binda okkur bara við Genesis. H2O varð fyrir valinu, vatnið góða.

GW: Akkúrat, þannig að þið hafið jafnvel hugsað ykkur að taka eitthvað fleira efni en Genesis ?

SK: Ég hugsa eitt verkefni í einu, þetta er ærið verkefni.

GW: Þetta er stórt og þetta er talsverður viðbúnaður sem þið eruð með, talsvert af fólki sem er í þessu bandi.

SK: Í dag er þetta þessi gamli hópur, að frátöldum Sebastian og Natalie, og inn komu Þór Breiðfjörð og Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir og Jónína Aradóttir, öflugur hópur.

GW: Síðan eruð þið með þverflautuleikara

SK: Já, Don Eddie, hann spilar líka á hljómborð, saxófón og tólfstrengjagítar

GW: Já þannig að hann hleypur í ýmislegt

SK: já

GW: Og það væri náttúrulega erfitt að flytja þetta Peter Gabriel/Genesis stuff öðruvísi en að vera með þverflautuleikara, það er að segja Genesis fram til 1973 þegar Peter Gabriel hættir.

SK: Já sérstaklega í þessu gamla stuffi . Fourth of fifth, það er flauta þar, og hann spilar á“ In the cage“ á saxofón, hljómborð og flautu minnir mig. Við ráðumst í þessi stóru verk.

1496637_10202336531847938_1999555926_nGW: Þetta eru ansi löng stykki oft.

SK: Já og töff spilamennska.

GW: Já. Talsverð dynamík líka

SK: Já mikil dynamík.Við studdum okkur við útgáfuna af 2007 túrnum .

GW: Já sem var svona reunion túr var það ekki?

SK: Jú. Bandið alveg ótrúlega gott og þar tóku þeir svona medley af „In the Cage“, instrumental. Sem við gerum líka. Það er ca. 15 mínútna spilamennska og mikið að gerast.

GW: Og nú er þetta allt spilað af Phil Collins, Chester Thompson kemur ekkert inn í þetta þarna, hann er ekki kominn.

SK: Nei hann kemur seinna, þegar að Peter fer út og Phil fer fram á sviðið, þá náttúrulega vantar trommara. Og síðan hefur hann bara verið þarna. Feykilega skemmtilegur trymbill.

GW: Mjög, ég hef alltaf verið mjög hrifinn af Chester Thompson og hlustaði á hann með Zappa. Svona einn af þessum trommuleikurum sem maður hefði viljað heyra meira um og svona vita meira um.

SK: Já. Ofboðslega stabíll og fer ekkert út fyrir það sem hann er búin að setja sér. En hann spilar með hjartanu. Það eru alveg rosalega mikil gæði sem koma frá honum. Ég veit að hann rúllar upp hverju sem er. Þetta er bara það sem við heyrum með Genesis, svo er hann að gera eitthvað annað inn á milli.

GW: Og þetta er í annað skiptið sem að hann er með öðrum trommara í bandi vegna þess að þegar hann er með Frank Zappa þá er hann með Ralph Humphrey og þeir eru tveir. Þannig að hann er búin að gera þetta áður þegar hann kemur í Genesis. Þá hafði Phil Collins heyrt hann spila með Weather Report í London.

En svona burt séð frá þessu nú er þetta mjög mikil dýnamík í þessu og þessi tónlist fer alveg niður úr öllu og upp úr öllu í styrkleika. Og þetta er kannski eitt af því sem hefur svolítið glatast í svona commercial tónlist í seinni tíð.

SK: Já það má bara ekki vera andartaksþögn, það þarf allt að vera á útkeyrslu. Sérstaklega í nútíma raftónlist og öðru slíku. Svo er í raun raftónlist það nýjasta, annað er alltaf að endurtaka sig finnst mér. Það er verið að experimenta með ný sánd og þar eru líka mjög flinkir menn og konur að experimenta ýmislegt . En það eru miklar endurtekningar. En á Prog tímanum var mikið verið að fara ótroðnar slóðir.

GW: Já í dag er þetta náttúrulega orðin svo mikill iðnaður.

SK: Já það er það.

GW: Og margt af því sem á þessum árum var nýsköpun, í dag er þetta bara orðin iðnaður.

SK: Já, á Peter Gabriel plötunni „SO“ sem við flytjum einnig á þessum konsert þá eru afríkönsk áhrif, þar njótum við Jói Hjörleifs okkur aldeilis, frábær trommari og tónlistamaður, hann Jói.

GW: Það er Manu Katché sem spilaði það.

SK: Já og okkur fannst að það gæti verið gaman að vera með annan slagverksmann í þeim hluta og við ákváðum að hafa Jóa Hjörleifs með í þeim hluta.

GW: Já já. Ég man eftir að Peter Gabriel talaði um eftir þennan Genesis tíma að hann hefði verið orðin svolítið þreyttur á þvi, honum hefði fundist Genesis tónlistin vera of mikið trökkuð, eða of mikið layered, þannig að þegar hann fóf sinn feril, að þá hafi hann farið meira út í svona feel oriented músik. Þetta var það sem hann sagði hvort sem það var endilega raunveruleikinn.

SK: Já já, það getur vel verið. En þetta voru skapandi tónlistarmenn, þeir voru allir að semja tónlist og það kannski fer ekki alltaf saman. Svona margir stórir hausar meina ég. Það verða árekstrar óhjákvæmilega.

GW: Við vorum að enda við að fylgjast með svona árekstri í Dream Theater, en þeir strákar tala alltaf mikið um Genesis og þegar þeir eru að taka tribute þá er Genesis eitt af þeim böndum sem þeir eru að taka tónlist frá. Þetta er náttúrulega svo ofboðslega mikil vinna og manni finnst stundum svona verið að gera ansi mikið drama úr því, það ætti í sjálfu sér ekki að vera neitt óeðlilegt við það að einhver sem er búin að vinna á sama vinnustað í 5 eða 10 ár, að hann eða hún vilji kannski breyta til. En það er svona í músikinni tilhneiging til að gera úr þessu eitthvað rosalegt drama.

En ef við tölum trommurnar sem þú ert með, hvernig sett ertu með núna ?

1016553_789173711096080_1401899644_nSK: Ég er með Sonor 2007. Toms eru 8-10-12-14-16, svo er það 5 ½ snare og bassatromman er soldið spes, 22×19 held ég frekar en 20.

GW: Ok

SK: Ég man aldrei svona tölur.

GW: Nei akkúrat þú ert eins og ég með það.

SK: Svo er ég með settið á rack þannig að það hangir ekkert utan á bassatrommunni. Þetta er grand sett. Og ekki spyrja mig um cymbalana. (við skellihlægjum). Ég er með 5 og ég man ekkert hvað þeir heita.

GW: Nei þú ert ekki svona græjuóður maður sem ert með framleiðslunúmmerin og allt,,,

SK: Það er nefnilega svo fyndið að ég hef aldrei einhvernvegin verið í þeirri deild

GW: Ekki ég heldur.

SK: En það eru margir trommarar í kring um mann sem bara vita allt, og svo eru þeir á netinu og þá er kannski mynd af mér á einhverju setti og ég segi einhverja endemis vitleysu um eitthvað allt annað sett, þá kemur Dóri Lár. inn og leiðréttir mig fimlega (hlær)dudududu

GW: Já já hann er nú eins og tannlæknir (skellihlægjum báðir).

SK: Ég segi bara takk Dóri minn. En það er alltaf eitt sett sem mér þykir mjög vænt um, það er fyrsta Ludvig settið mitt. Ég er náttúrulega einn af þeim sem var mjög hrifin af Gunnari Jökli. Það var bara eins og að fara inn í masterclass að horfa á hann spila. Það var líka gaman að horfa á hann nefnilega. Hann hafði ekkert fyrir þessu. En hann var að spila alveg dásamlega vel. Og hann var mest steady trommari sem ég hef nokkurn tíman séð.

GW: Það er með hann að þú bara berð saman upptökurnar með honum síðan 1970, hann er bara alveg outstanding hvað hann er þéttur,

SK: Outstanding ! Hann var 14 ára að spila í London. Og hann er bara unglingur þegar hann er orðin stærsta nafnið í London sem trommari. Hann og Mitch Mitchel voru að æfa saman double beat. Og ég er alveg viss um að Gunni hafi verið að kenna Mitch Mitchell double beatið. Ég segi svona.

GW: Já hann er hústrommari á Marquee.

SK: Já

GW: Og hann spilar með bara meira og minna öllum þarna.

SK: Já já. Hann er náttúrlega mest með The Syn. Og það var alveg sorglegt, hann var orðin illa blankur , var eiginlega hálf sveltandi. Og heima biðu hans gull og grænir skógar. Þannig að hann valdi það og maður skilur það. En það munar nokkrum mánuðum að hann færi inn í Yes sem að við vitum að varð eitt af stærstu böndum allra tíma.

GW: Mér fannst þetta alveg skelfilegt hvernig var komið fram við hann.

SK: Ja það var vegna þess að hann var veikur, hann var sjúklingur og það var svo auðvelt að sjá það. Maðurinn var ekki sá sami og hann hafði verið.

GW: Það vissu það allir.

SK: Og hann var að nýta sér það hann Eiríkur á svívirðilegan hátt. Það er skömm fyrir Rás tvö og þennan mann (Eirík Jónsson) að birta þetta. Þessi mesti snillingur okkar þegar hann var upp á sitt besta. Og skilur eftir sig fullt af góðum hlutum. Og það getur engin komið í veg fyrir það að menn veikist.

GW: Já ég man þegar ég sá þetta ég var alveg ofboðslega reiður og mér fannst þetta vera svona tiltölulega ómerkilegur fjölmiðlamaður að ritikúla stórmerkilegan listamann.

SK: Já já.

GW: Og bara af því að hann gat það.

SK: Þetta hefur alltaf setið í mér eftir þetta, ég var náttúrlulega samtíðamaður hans. Við spiluðum á sömu útihátíðunum. Hann var farin að virða mig sem trommara, mig dreymdi aldrei um það að ég skildi getað spilað á einhverju leveli við hann. Þegar ég sá þennan mann spila þá bara trúði ég því ekki.

1779776_10202382854085965_1851739453_nGW: En þú ert fæddur 1950, þannig að þú ert að koma upp á hippatímabilinu.

SK: Já, ég er 68 kynslóðin.

GW: Hvenær og hvernig kom það til að þú byrjaðir að spila á trommur ?

SK: Það var alltaf tónlist á mínu heimili, pabbi var hljóðfæraleikari og hann vildi endilega að ég lærði á hljóðfæri þannig að 8 ára gamall þá byrjaði ég að læra á blásturshljóðfæri. Ég byrjaði nú á þverflautu, síðan á Tenorhorn, síðan fór ég af því yfir í trompet. Þegar Bítlarnir komu þá kom ekkert annað til greina en annað hvort gítar eða trommur. Sævar Árnason sem er gítaristi og stjúpfaðir Bjarkar,

GW: Já já mjög góður vinur minn.

SK: Já við vorum saman allan sólarhringinn, áttum heima á sitt hvorri hæðinni í Silfurtúni, stofnuðum hljómsveitina „Action“.

GW: Já akkúrat.

SK: Og það var æft alveg eins mikið og við gátum. Og síðan komum við fram nokkrum sinnum og út úr Action varð Opus 4. Sem varð eitthvað þekktari. Með tvíburabræðrunum Hirti Blöndal og Lárusi Blöndal. Eftir það fór ég að spila svolítið blues, það voru blues kvöld hérna. Bluesinn var rosalega vinsæll, Maggi Eiríks var að hætta í Pónik og vildi bara ekki sjá annað en blues. Og það voru voða skemmtileg kvöld. Menn voru bara að uppgötva sjálfa sig og hina. Síðan er það að það er stofnuð hljómsveit sem átti bara að koma fram einu sinni í Glaumbæ, það voru blásarar og svolítið funk. Soul tónlist. Ég man ekkert eftir hvernig þetta kom til en ég var bara fengin til að spila. Og mér tókst vel upp, ég man það. Þarna voru allir tónlistarmenn dagsins, Trúbrot , Ævintýri og allir sem skiptu máli í bransanum. Og ég man eftir að ég sá Kalla Sighvats hlaupa yfir gólfið og segja eitthvað við einhvern. Og ég frétti það síðar að hann sagði: „Ég er alveg viss um að þessi maður á eftir að verða trommari í Ævintýri eftir 3 vikur“. Og það stóðst.

GW: Ok

SK: Þeir komu bara fljótlega eftir þessa helgi. En ég verð að koma því á framfæri að Action og Bendix voru erkióvinir. Bendix með Bjögga sem söngvara. Bendix í Hafnarfirði og Action í Silfurtúni í Garðabæ. Við spiluðum einu sinni saman í Alþýðuhúsinu í Hafnarfirði. Söngvarinn okkar kunni enga texta. Hann bullaði bara. (Við skellum upp úr)

GW: hahaha eins og margir,,,

SK: En ekki Björgvin Halldórsson hann bullaði aldrei. Hahaha. Bjöggi var úti í sal og gæinn var alveg á nálum , og Bjöggi var alveg meiriháttar töffari, svo stendur hann upp og það var ekki mjög margt í húsinu, gengur í hægðum sínum að hátalaranum leggur vinstra eyrað að hátalaranum og hlustar á bullið.

GW: Að taka söngvarann ykkar á taugum (við erum komnir í hálfgert hláturskast).

SK: Þetta var alveg stórkostlegt. Ég hitti hann skömmu síðar í sjoppu, ég var ofboðslega feiminn, og hann töffarinn: „Siggi, spilarðu á trommur?“ sagði hann í hæðnislegum tón, með sígarettuna í annari hendinni. Bara að reyna að gera lítið úr mér fyrir framan hina.

(ég hlæ og hlæ). Já honum fannst ég svo glataður hahaha.

GW: hahahahaa já þú hefur lent í þeirri deildinni hjá Bjögga hahaha

SK: Já já. Svo gerist það að við sjáumst ekkert í 2 ár. Svo kem ég í autition fyrir framan Ævintýri og Bjögga. Og hann var mjög skeptískur. Ég spilaði nokkur lög með þeim, svo fóru þeir afsíðis, til að ákveða hvort ég ætti að vera eða ekki. Þá kom Bjöggi fram: „spilaðu eitthvað“,þá hugsaði ég, ég skal sko láta hann fá það. Ég man ég bara trylltist á settinu. Svo veit ég ekki hvort það hafði áhrif en hann var erfiður. En svo urðum við góðir vinir og meiriháttar gaman að vera með honum. Við náðum svo vel saman því að það var svo mikið action hjá mér og orka. Og við tókum oft frasa saman, ég spilaði á móti söngnum, þú veist þetta var svona happening, hippafílingur. Það var voða gaman.

GW: Kannski það sem manni finnst oft vanta í tónlist í dag, það er svona þessi leikgleði og að menn séu soldið að tala saman.

SK: Já þetta er dálítið njörvað.

GW: Já þetta er allt orðið voðalega alvarlegt mál. En svo ertu mjög aðsópsmikill stúdíótrommari, hvað heldurðu að þú sért búin að spila á mörgum plötum ?

SK: Þegar hann Jóhann G. Var með plötusölu hérna úti á Horni árið 1980,þá var hann með allt íslenskar plötur. Þá kallar hann í mig og segir Siggi: „Veldu plöturnar sem þú hefur spilað á“. Það voru 80.

GW: 80 plötur.

1656431_10202382848885835_224910579_nSK: Já, og kannski fleiri ég veit það ekki. Þetta var ekki langt tímabil. Ég kem heim með „Change“ 1976. Þá byrjaði ég að spila mest inn á plötur. Ég hafði spilað með Svanfríði „Whats hidden there“og eitthvað með Ævintýri og náttúrulega Change. En sessionin byrjuðu mikið með Gunna Þórðar.

GW: Ég held það hafi verið 1978 þá er ég 14 ára, þá er ég staddur upp í control í Hljóðrita þar sem þú varst einmitt að spila.

SK: Já ég spilaði mjög mikið með Gunna (Þórðar) og síðan Didda Fiðlu.

GW: Já þetta voru producerar sem voru að gera ansi mikið. Bæði Gunni og Diddi. Nú síðan kemur náttúrulega súpergrúppan, Friðrik.

SK: Já hahahaha ég hélt þú værir að meina allt aðra súpergrúppu. Hahha það þarf ekki að nefna hana Brunaliðið (hlær). Það var svona í léttari kantinum.

GW: Já það var svona súper dans grúppa 😉

SK: Já já eitthvað, sem allir elskuðu mjög mikið í mjög stuttan tíma

(Við skellihlægjum báðir).

GW: Hún var ofboðslega vinlæl.

SK: Já já hún var það, ég hef aldrei spilað á öðru eins sveitaballi eins og í Borg í Grímsnesi með Brunaliðinu. Það svitnuðu veggirnir. Það bara lak svitinn af aumingja veggjunum. Hahahaha. Og það gátu aldrei allir verið inni, enda skipti það engu máli fólk var bara að drekka sitt „Sínalkó.“

GW: Já en svo er það Friðrik,

SK: Mér fannst við vera svolítið misskildir,

GW: Tryggvi segir þetta líka.

SK: Já

GW: Honum finnst að þið hafið verið misskildir og að pönkararnir hafi ekki fílað ykkur.

SK: Fílað okkur ?

GW: Já að þið hafið ekki verið teknir sem pönkarar

SK: Nei alls ekki, „skallapopparar !!“

GW: Já það var það sem hann sagði

SK: Rúmlega þrítugir, pældu í því

GW: Þá voruð þið kallaðir skallapopparar.

SK: Þetta var náttúrulega bara af því að við vorum það færir. Þetta var viss minnimáttarkennd út í bandið. Enda mátti tónlistin ekki „sánda“hrein eða vel.

GW: En ég man bara ég fór að sjá ykkur í Sigtúni og það situr í mér en þann daginn í dag. „Í Kirkju“, það lag er í raun algjör þrykkja og það er ekki langt síðan ég hlustaði á það síðast. Algjör þrykkja bara trommuleikurinn í því lagi. Alveg æðislegur.

SK: Já , takk fyrir það, en þetta er einfaldur taktur.

GW: Nei þetta er ekki flókið en þetta er bara svo vel gert.

SK: Já já það er þessi þungi í þessu sem að þarf að vera.

Í kirkju – Friðryk

Friðryk – Í kirkju

GW: Bíddu hverjir voru aftur fleiri, það varst þú, Tryggvi (Hubner) ?

SK: Pálmi (Gunnars) og Pétur Hjaltested. Við vorum bara 4. Það er svo gaman að hafa svona fáa spilara þá verða menn að vera soldið góðir.

GW: Já það verður miklu meira lifandi.

SK: Og Tryggvi var stundum svo brilliant, alveg meiriháttar.

GW: Hann er náttúrulega algjör eðall.

SK: Það varð eitthvert happening á Neskaupstað eitt sinn, þar sem að kom svo mikið frá honum, þar var hann svo magical, verst að eiga ekki upptökur af svona.

GW: Tryggvi Hubner er náttúrulega alveg einstakt talent.

SK: Já hann er það. Við höfum talað um að koma saman og það segja allir já endilega, svo skeður ekki neitt hahaha.En ég hugsa að þetta band myndi fjúka saman á no time.

GW: Já já Friðrik myndi gera það.

SK: Já ég er í góðu formi, ég ætla bara að segja það. Pálmi er alltaf að spila.Tryggvi er alltaf að spila og Pétur. Ég meina, telja í !!

1544569_760737560606362_600101339_nGW: En það er eitt sem mér hefur alltaf fundist mjög eftirtektarvert við þig. Málið er að þú getur hlustað á einhvern spila standard beat. Standard grúv. En þegar þú gerir það, sama grúvið, þá sándar það öðruvísi. Þú veist þú getur fengið 20 manns til að spila það og það sándar eins hjá þeim öllum,en þegar þú spilar það þá sándar það öðruvísi. Og það er ekki hægt að benda fingri á það af hverju það er. Það er bara þannig.

SK: Ég held að einn maður hafi uppgötvað það.Og þetta hefur verið minnimáttarkennd hjá mér.Það er að snerilhöggið hjá mér. Það er broti á eftir.

GW: ok

SK: Hann Óskar Guðjónsson, sagðist hafa unun af því að hlusta á mig, hann sé búin að stúdera þetta og segir að það séu fáir í heiminum sem séu með snerilhöggið aðeins á eftir. Þetta er bara broti á eftir. Þá togast takturinn aftur.Það gæti verið það ég veit það ekki.

GW: Það er annað sem er með þig að þú ert physical sterkur trymbill.

SK: Já ég er það.

GW: Ertu það frá náttúrunnar hendi eða er það eitthvað sem þú hefur unnið í líka ?

SK: Nei, ég var bara svona fljótlega.

GW: Já þú ert með þennan sterka áslátt frá náttúrunnar hendi

SK: Já

GW: Já og ég var að kíkja á eitthvað með þér og þetta hefur ekkert breyst.

SK: Í fyrri hlutanum í Genesis prógramminu, þar eru 2 lög sem bara mega ekki vera saman því þá stend ég bara á öndinni, ég þyrfti að vera í meiri líkamsþjálfun.

GW: En þú hefur verið það er það ekki ?

SK: Jájájá en núna bara þessa mánuðina þá hef ég ekki sinnt því nógu vel .

GW: Já þetta eru þau mál sem maður byrjar að takast á við við vissan aldur.Ég var einhvern tíman að tala við Pétur Östlund í símann og hef verið um fertugt þá en er að verða fimmtugur núna. Og ég var eitthvað að kvarta yfir að ég væri að togna, festast hér og verkir þar og, þá sagði hann, „bíddu hvað ertu orðin gamall?“, ég er að verða fertugur núna sagði ég. Þá sagði hann „já þú ert akkúrat á þessum aldri þar sem þú þarft að byrja að passa þig, fara varlega“.

SK: Er Pétur ekki sjötugur.

GW: Jú hann er komin yfir sjötugt. En ég hafði rosalega gaman af að uppgötva hann í kring um 1980, þá var hann í svo ofboðslega skemmtilegu formi. Gaman að þú skyldir tala um Gunnar Jökul þarna áðan.

SK: Það voru þeir tveir sem höfðu mest áhrif á mig. Ég sá Hljóma með Pétri Östlund það var alveg upplifun. Trommusóló í 20. mínútur þetta var bara rosalegt.

GW: Heyrðu talandi um það, þú varst alltaf sólisti, þú tókst heilmikil trommusóló. Hvernig er það tekurðu sóló núna ?

SK: Ég gerði það á síðustu tónleikum. Ég gerði það með Svanfríði þá flutti ég verk sem að mér þykir svolítið vænt um með teppi undir, undirspili sem ég spilaði ofan á.

GW: Já yfir vamp, það er skemmtilegt

SK: Já já það heppnaðist mjög vel en ég ákvað að gera það ekki núna.

GW: Svo er þetta náttúrulega ansi mikill trommuleikur í þessari tónlist.

SK: Já þetta er bara eins og eitt trommusóló ef maður tekur það saman. Það er mikið að gerast í þessari tónlist. Mér fannst þetta alveg nóg.

GW: Svo er það nú oft að trommusóló gerast bara,,,

SK: já já

GW: Sko alveg eins og að þú ert einn af mínum áhrifavöldum þegar að ég er að koma upp, þú, Geiri Óskars og fleiri, Pétur Östlund. Síðan talar þú um Pétur Östlund og Gunnar Jökul Hákonarson sérstaklega. En hverjir voru það úti í heimi sem vöktu mestan áhuga hjá þér á þessum árum ?

SK: Já, það var náttúrulega bakarinn, Ginger Baker.Hann var algjör sprengja og Cream hafði gríðarleg áhrif á mig . Þetta voru topparnir á þessum tíma. En ég hlustaði mikið á Weather Report, og fusion, alvöru fusion, miklar talningar og gríðarlega flott sánd, svona flottustu sánd þess tíma. Billy Cobham var einnig sérstaklega hátt skrifaður hjá mér.

GW: Hann var náttúrulega algjör sprengja líka,

SK: Algjör. Aftur ámóti var Jim Keltner einn af þessu fáguðu session trommurum sem ég dáðist mjög að.

GW: Jim Keltner gaman að þú skulir minnast á hann því hann er einn af mínum uppáhaldstrommuleikurum.

SK: Já þetta Ameríska rokk blues fusion eða hvað á að kalla það. Það voru til dæmis trommararnir í Allman Brothers Band, þeir voru algjör klassi. Samspilið hjá þeim var alveg dásamlegt. Þetta var eins og ein vél. En samt heyrði maður að þetta voru tveir trommarar. Það hafði mikil áhrif.

GW: Gestur Guðna vinur minn hafði mjög gaman af Almann Brothers.

SK: Og Steve Gadd, dásamlegur. Vinnie Colaiuta,maður getur talið upp endalaust.

GW: Síðan er það merkilegt hve miklir listamenn þetta eru í Genesis hver í sínu lagi, ég hef notað talsvert bassaleikarann Percy Jones í þeirri tónlist sem ég er að semja, en Percy aftur hefur starfað með Phil Collins í fusion bandinu Brand X. Það band sýnir síðan bara hve miklir tónlistarmenn þetta eru í Genesis hver og einn. Og hvað Phil Collins er mikið creative force.

SK: Hann er alveg rosalegur bæði sem trommari og sem listamaður.

GW: Já og sem trommari þá er hans stíll eiginlega engu öðru líkur.

SK: Nei, ég vil nú nefna Phil Collins því hann er einn af mínum topptrommurum, ég hef stúderað hann mikið. Hann er alveg stórkostlegur trymbill. Það er bara mikil sorg að vita af því að hann geti ekki spilað meira. Hann er með klemmda taug í hálsi og það er búið að gera aðgerð á honum. Hann lamaðist alveg fram í fingurgóma, hann var farin að þreytast mikið á tónleikum. Hann er líka búin að vera í mjög erfðiðri stöðu með sjálfan sig, hann fór í mikið þunglyndi og allt það. Manni finnst það nú bara skiljanlegt eftir svona glæsilegan feril. Þó hann geti sungið þá eru trommurnar greinilega svona mikið atriði fyrir hann.

GW: Mér finnst svona hans stílíska innkoma vera með því merkilegra í sögu trommuleiks.

SK: Mér finnst hún bara snilld.

Gunnar Waage

Gunnar Waage

- Gunnar Waage er blaðamaður og ritstjóri Sandkassans frá árinu 2013.

Hann er Trommari, Tónskáld og skólastjóri Trommuskólans, fyrrverandi deildarstjóri og einn af stofnendum Tónlistarháskóla G. Martell í Mexíkóborg. Hann lauk burtfararprófi frá McNally Smith College of Music, en duflar við kerfisfræði og er áhugamaður um bardagaíþróttir. Hann rýnir í þjóðfélagsmál og lætur sig flest varða.Hann er einstæður faðir, jafnréttissinni, fjölmenningarsinni og áhugamaður um velferð barna. Starfar við túlkun og þýðingar og fæst við spænskukennslu.


Hann er pistlahöfundur á Kvennablaðinu og var pistlahöfundur á DV en hætti skrifum á DV ásamt fleirum, í þeim tilgangi að sýna blaðamönnum og ritstjórn blaðsins samstöðu í kjölfar yfirtöku á félaginu í September 2014.
Gunnar Waage

Siggi Karls – HQ2 – Genesis Hópurinn

| Viðtalið |
About The Author
- - Gunnar Waage er blaðamaður og ritstjóri Sandkassans frá árinu 2013. Hann er Trommari, Tónskáld og skólastjóri Trommuskólans, fyrrverandi deildarstjóri og einn af stofnendum Tónlistarháskóla G. Martell í Mexíkóborg. Hann lauk burtfararprófi frá McNally Smith College of Music, en duflar við kerfisfræði og er áhugamaður um bardagaíþróttir. Hann rýnir í þjóðfélagsmál og lætur sig flest varða.Hann er einstæður faðir, jafnréttissinni, fjölmenningarsinni og áhugamaður um velferð barna. Starfar við túlkun og þýðingar og fæst við spænskukennslu. Hann er pistlahöfundur á Kvennablaðinu og var pistlahöfundur á DV en hætti skrifum á DV ásamt fleirum, í þeim tilgangi að sýna blaðamönnum og ritstjórn blaðsins samstöðu í kjölfar yfirtöku á félaginu í September 2014.