Ekki er ég sérlega hrifin af ummælum Oddnýar G. Harðardóttur fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar á 1. Maí degi Verkalýðsins:

“Yfirskriftin á baráttufundi á 1. maí Við viljum samfélagið okkar aftur! minnir mig óþægilega á Make America great again. Þetta er yfirskriftin á baráttufundi á 1. maí þar sem m.a. formaður VR, Ellen Calmon frá ÖBÍ og Gunnar Smári stofnandi Sósialistaflokksins flytja ræður.
Viðbót: Ég fagna auðvitað öllum þeim sem berjast fyrir jöfnuði og réttlæti. Það er bara yfirskriftin sem kallar fram þessi hughrif.”

Það er eðlilegt að stofnun nýs flokks fái yfir sig rýni og gagnrýni. Biturleiki Oddnýar er einnig um margt skiljanlegur. Á undanförnum árum hafa sprottið upp alls kyns flokkar sem hafa neitað að skilgreina sig til hægri eða vinstri og í aðdraganda síðustu þingkosninga fengust Píratar sem dæmi ekki til að skilgreina sig til vinstri. Björt Framtíð vildi skilgreina sig sem hreinan miðjuflokk en reyndist vera mjög til hægri þegar til kastanna kom. Viðreisn einnig sögðust sjálf vera miðjuflokkur þótt varla hafi margir tekið mark á því.

Að sjálfsögðu er það ekki flokkurinn á endanum sem staðsetur sig á þessum kvarða heldur kjósendur og það hefur í sjálfu sér enga þýðingu fyrir flokk að segjast vera hafinn yfir slíkar skilgreiningar. Þetta er einfaldlega viss aðferð sem við notum til að staðsetja stjórnmálaöfl á kortinu. Það er ekki heldur Íslenska þjóðfylkingin, Systurflokkur National Front, flokks Marine Le Pen í Frakklandi, sem staðsetur sig í þessu mengi. Það gera kjósendur.

Aftur að orðum Oddnýar þá má segja að allt síðasta ár í aðdraganda kosninga hafi Píratar farið illa með alla hugsanlega samstöðu á vinstri væng stjórnmálanna. Talsmenn Pírata ofmentnuðust og neituðu að skilgreina sig í liði með Samfylkingunni og Vinstri Grænum og má segja að þetta háttalag Pírata hafi unnið stjórnarandstöðunni gríðarlegt tjón, í raun orðið henni að falli í kosningunum.

Á móti kemur að Samfylkingin þráaðist við að gera hreint í sínum húsum, prófkjör voru haldin ekki samkvæmt góðum og gildum reglum Samfylkingarinnar sjálfrar og í vissum tilfellum voru niðurstöður ýmist hundsaðar, eða reglur flokksins um prófkjör hundsaðar. Niðurstaðan var svo til engin endurnýjun ef frá er talin nýr formaður sem lofar góðu. En yfir heildina litið þá létu flokksmenn tækifærið ganga úr greipum sér til að endurnýja framboðslistana með nýjum og róttækum viðhorfum og stefnu.

Það má vera að margir telji hið Norræna Velferðarmódel hafa brugðist okkur, hér ríkir spilling og sjálftaka sem aldrei fyrr. Stjórnmálamenn sitja einfaldlega áfram í stólunum þrátt fyrir að verða uppvísir að peningaþvætti eða að hafa makað krókinn í viðskiptum meðan þeir sitja á þingi eins og Bjarni Benediktsson. 30% kjósenda virðast fyllilega sáttir við að þeirra flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn sé spilltur og kjósa hann samt. En allt þetta bendir þó einungis til þess að hið Norræna Velferðarkerfi sé á útleið, í öllu falli vanrækt & í svelti, mögulega hverfandi.

En ég fæ ekki séð að nýr Sósíalistaflokkur sé svarið við þessu. Hitt er annað mál að tilkoma flokksins getur verið til góða. Aðrir flokkar á vinstri vængnum munu þurfa að taka upp stefnumál þessa nýja flokks að einhverju marki til að þessi nýstofnaði flokkur taki ekki frá þeim fylgi og þetta er jákvætt. Enda eru bæði Vinstri Grænir og Samfylking búnir að fjarlægjast uppruna sinn verulega á meðan Píratar hafa neitað að skilgreina sig til vinstri ergo sem málsvara alþýðunnar. Allir þessir flokkar þurfa spark í afturendann og Sósíalistaflokkur gæti vel náð að koma því til leiðar.

Það sem skiptir þó mestu á þessu kjörtímabili er að vinstri flokkarnir myndi með sér breiða fylkingu sem taki til sín raunverulegt fylgi í næstu kosningum. Til þess að þetta geti gerst verða Píratar að skilgreina sig sem málsvara fólksins ergo til vinstri við miðju.

Fjölmiðlafólk virðist hafa talsvert horn í síðu Gunnars Smára Egilssonar í tengslum við gjaldþrot Fréttatímans. Það mál er náttúrulega ekki í beinum tengslum við stofnun þessa flokks. Fyrir það fyrsta er engin sérstök ástæða til að ganga út frá því sem vísu að Gunnar Smári muni leiða flokkinn enda kjósa menn sér nú jafnan formann á fyrsta landsfundi. Þá fellur það ekki heldur endilega undir hlutlæga fréttamennsku að blanda gjaldþroti Fréttatímans í miklum mæli inn í stofnun þessa flokks í hvert skipti sem að vikið er að málefnum er varða stofnun flokksins, til þess eru fréttamenn bara að sjálfsögðu of tengdir málefnum er tengjast vangoldnum launagreiðslum til þeirra félagsmanna í Blaðamannafélaginu. Þannig að svo að góðrar siðsemi sé gætt þá þætti mér að fréttamenn mættu stilla þeim áherslum í hóf í umfjöllun sinni um flokkinn.

Ég vil fyrst og fremst sjá hverjar áherslur hins nýja Sósíalistaflokks verða, ekki hvað síst í innflytjendamálum. En fyrir fram þykir mér ekki vera nein forsenda en sem komið er að mála flokkinn og Gunnar Smára Egilsson sem popúlista & lýðskrumara. Málefnin og kynnt ítarleg stefna á prenti, sem er öllum aðgengileg, ekki einungis fagurgali í munnlegri geymd hjá einstaka flokksmönnum, þetta eru þeir hlutir sem kjósendur í dag bera virðingu fyrir og munu aðhyllast, hver svo sem persónan er.

Gunnar Waage

Gunnar Waage

- Gunnar Waage er blaðamaður og ritstjóri Sandkassans frá árinu 2013.

Hann er Trommari, Tónskáld og skólastjóri Trommuskólans, fyrrverandi deildarstjóri og einn af stofnendum Tónlistarháskóla G. Martell í Mexíkóborg. Hann lauk burtfararprófi frá McNally Smith College of Music, en duflar við kerfisfræði og er áhugamaður um bardagaíþróttir. Hann rýnir í þjóðfélagsmál og lætur sig flest varða.Hann er einstæður faðir, jafnréttissinni, fjölmenningarsinni og áhugamaður um velferð barna. Starfar við túlkun og þýðingar og fæst við spænskukennslu.


Hann er pistlahöfundur á Kvennablaðinu og var pistlahöfundur á DV en hætti skrifum á DV ásamt fleirum, í þeim tilgangi að sýna blaðamönnum og ritstjórn blaðsins samstöðu í kjölfar yfirtöku á félaginu í September 2014.
Gunnar Waage

Sósíalistaflokkur Íslands

| Gunnar Waage |
About The Author
- - Gunnar Waage er blaðamaður og ritstjóri Sandkassans frá árinu 2013. Hann er Trommari, Tónskáld og skólastjóri Trommuskólans, fyrrverandi deildarstjóri og einn af stofnendum Tónlistarháskóla G. Martell í Mexíkóborg. Hann lauk burtfararprófi frá McNally Smith College of Music, en duflar við kerfisfræði og er áhugamaður um bardagaíþróttir. Hann rýnir í þjóðfélagsmál og lætur sig flest varða.Hann er einstæður faðir, jafnréttissinni, fjölmenningarsinni og áhugamaður um velferð barna. Starfar við túlkun og þýðingar og fæst við spænskukennslu. Hann er pistlahöfundur á Kvennablaðinu og var pistlahöfundur á DV en hætti skrifum á DV ásamt fleirum, í þeim tilgangi að sýna blaðamönnum og ritstjórn blaðsins samstöðu í kjölfar yfirtöku á félaginu í September 2014.