Á síðustu misserum hefur orðræðan gagnvart múslimum og innflytjendum harðnað og versnað. Almennt séð telur fólk sig ekki vera með fordóma heldur er það að tjá skoðun sína en ekki hatur eða andúð. Orðræðan í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París árið 2015, Belgíu 2016 og skotárásin á bar samkynhneigðra í Orlando í Bandaríkjunum fyrir nokkrum vikum, hefur versnað og byggir hún á hugmyndum um staðalímyndir, hugtakaparinu „við“ og „hinir“, og ný-kynþáttahyggju. Allir sem eru ekki sammála að múslimar séu hryðjuverkamenn og andstyggðar fólk, eru blindir af pólitískri rétthugsun.

Hryðjuverk eiga ALDREI rétt á sér, og það skiptir ENGU máli hver fremur þau. Þau eru ætíð skelfileg og ömurleg.

Hatur eða andúð á einum hóp getur leitt til ofbeldis gegn honum. Það hefur sagan kennt okkur. Þekktasta dæmið er auðvitað útrýmingin sem Gyðingar urðu fyrir ásamt Rómarfólki, samkynhneigðum o.fl. í þriðja ríki Hitlers.

En hvað þýða fyrrnefnd hugtök sem fræðimenn og aðrir nota og beita í greiningu á orðræðu gagnvart til að mynda múslimum. Margir telja sig hafa góða hugmynd um hvað þau þýða en hafa í raun litla sem enga hugmynd um hvorki hvernig eigi að nota þau og eða hvað þau tákna. Til að átta sig á hvað ný-kynþáttahyggja þýðir, er ágætt að byrja á að skilgreina kynþáttahyggju!

Kynþáttahyggja (e. racism) byggir, samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu á þeirri hugmynd að mannkyninu sé skipt upp í kynstofa sem mikill munur sé á. Hvað varðar ýmsa eiginleika á borð við greind, kynhneigð, glæpahneigð, húðlit og fleira.[1] Birtingarmynd kynþáttahyggju (sem sumir kalla rasisma) er fyrirlitning, þröngsýni, niðurlæging og ofbeldi gegn þeim sem eru öðruvísi, sérstaklega þegar hvítir menn eiga í hlut gegn þeim sem hafa dekkri húðlit og aðhyllast önnur trúarbrögð en kristni.[2] Engar rannsóknir hafa leitt í ljós að einn kynþáttur sé betri eða verri en annar. Þegar talað er um fordóma gagnvart múslimum eða þeim sem hafa aðra menningu en við á Vesturlöndum, kallast það ný-kynþáttahyggja (e. neo-racism) stundum kallað ný-rasismi eða menningarrasismi.

Ný-kynþáttahyggja er notuð til að varpa ljósi á viðhorf gagnvart mismunandi menningu og þjóðernislega þætti í stað kynstofna eða litarháttar. Menningarmunur er því notaður til að draga fram það sem aðgreinir hópa manna og það sem getur stuðlað að misrétti á milli þeirra. Einstaklingar sem eru taldir tilheyra tilteknum menningarheimi eru dæmdir með sama hætti og hin hefðbundna kynþáttahyggja gerði.[3]

Flestar staðalímyndir beinast að minnihlutahópum og þær staðhæfa um eðli þessara hópa, yfirleitt á neikvæðan hátt. Ef staðalímyndir um Indverja eru skoðaðar kemur í ljós að þeir eru sagðir annars vegar óvirkir og hlýðnir og hins vegar að þeir séu fyrirlitlegir og svikulir. Slíkar fyrirfram myndaðar skoðanir kallast yfirleitt kynþáttafordómar. Staðalímyndir geta líka verið jákvæðar. Gott dæmi um slíkt er indverski minnihlutinn í Bandaríkjunum sem er sagður vera til fyrirmyndar, þeir vinni mikið og vel og séu fjárhagslega sjálfstæðir.[4]

Hugtakið staðalímyndir er ýkt skoðun eða brenglaður sannleikur um einstakling eða hóp fólks. Þær alhæfa um þá, og gera ráð fyrir litlum eða engum einstaklingsmun eða félagslegum breytileika. Þær fara frá t.d. foreldri til barns, stjórnmálamanni til kjósenda, frá vini til vinar eða frá einum þegn samfélagsins til annars. Yfirleitt eru það minnihlutahópar sem verða fyrir því að alhæft er um þá út frá staðalímyndum, eða út frá kynferði, húðlit, trúarbrögðum o.fl. Sá sem er settur í ákveðinn flokk staðalímyndar er flokkaður í þann hóp sem hann tilheyrir með fyrirfram mótuðum skoðunum hvað varðar eiginleika, hegðunarmynstur eða viðhorf gagnvart hópnum.[5]

Staðalímyndir einfalda raunveruleikann og afneita fjölbreytileikanum og þær leggja því miður oft grunn að viðurkenndri orðræðu um til að mynda múslima og gefa um leið henni vald.[6]

Á Íslandi og í hinum vestrænu samfélögum hafa múslimar fengið stöðu „hins“. Þeir eru ólíkir „okkur“ og það er einmitt kjarni staðalímynda. Því miður tengja margir menningu múslima við ofbeldi, kvennakúgun og hryðjuverk. Múslimskar konur eru til dæmis ekki gerendur og skiptir þar mestu máli hvernig þær klæða sig og er hinn íslamski búningur oftast táknmynd fyrir slæma stöðu kvenna innan íslam.[7]

Kristín Loftsdóttir mannfræðingur hefur í rannsóknum sínum unnið með þá hugmynd að sjálfsmynd þjóða sé oftast sköpuð út frá sjálfsmynd annarra. Til að mynda hafi meðal annars Danir byggt sjálfsmynd sína á skilningi þeirra á Íslendingum. Þeir voru „við“ og Íslendingar voru „hinir“.[8] Á svipaðan hátt hafa fræðimenn eins og Edward Said vakið athygli á að á nýlendutímanum hafi líkamar fólks af afrískum uppruna verið notaðir til að útskýra menningarlegan og félagslegan mun á þeim og Evrópubúum. Félagsvísindum var beitt til að útskýra ólíka getu kynþátta og margir hagfræðingar notuðu dæmi um frumstætt framleiðslukerfi afrískra samfélaga til að útskýra vangetu þeirra til að framfleyta sér og réttlæta með því nýlendustefnuna. Hugtakaparið „við“ og „hinir“ hefur þannig löngum verið notað til að lýsa því hvernig við erum og um leið hvað við erum ekki. Allir þeir sem eru ekki „við“ hljóti að vera öðruvísi.[9]

Hugtakið pólitískur rétttrúnaður (e. political correctness) er mikið notað í orðræðu samtímans en þrátt fyrir það virðist skilgreining þess hvorki einföld né vera öllum skýr sem það nota. Hugtakið getur þýtt ýmislegt! Pólitískur rétttrúnaður getur verið gagnkvæm virðing fyrir skoðunum annarra og ákveðin leið til að yfirstíga ágreining. Það er til dæmis hugmynd sem flokkar ákveðna hópa sem fórnarlömb, sem þurfi vernd fyrir gagnrýni og er um leið ákveðið einræði á skoðunum í samfélaginu, þar sem sumar skoðanir eru ekki leyfilegar. Á níunda áratug síðustu aldar kom fram sú hugmynd að sumar skoðanir, hegðun og tjáning sem voru löglegar ættu að banna með lögum og refsa bæri fólki sem hegðaði sér ekki rétt. Framan af var hugtakið fremur talið hafa jákvæða skírskotun, það þýddi einfaldlega að samfélögin voru að þróast hvað varðar hugmyndina um umburðarlyndi og voru andstæð því að viðhalda tímabili fjandskapar, grimmdar og morða.[10] Hugmyndin um pólitískan rétttrúnað getur því haft töluverð áhrif á að bæla niður tjáningarfrelsið, sérstaklega á hinu pólitíska sviði, bæði hér heima og erlendis.[11]

Umræðan hér á landi um múslima snýst yfirleitt um það sem gæti gerst en ekki það sem hefur gerst. Raunveruleikinn skiptir minna máli en það sem mögulega gæti gerst. Hugmyndir þeirra sem eru á móti múslimum eða innflytjendum byggjast einmitt á þessum hugtökum sem eru skýrð hér að ofan og þeir sem samþykkja ekki slíkar skoðanir, eru blindir af pólitískum rétttrúnaði.[12]

 

[1] Eduardo Bonilla-Silva, „Rethinking racism: Toward a Structual interpretation“, bls. 466 og Jóhann M. Hauksson, Kynþáttahyggja, bls. 113.

[2] Etienne Balibar, „Is there a ´Neo-Racism´?“, bls. 17-18. 

[3] Kristín Loftsdóttir, „Skörun kynþáttafordóma og þjóðernishyggju“, bls. 375.

[4] Pierre Gottschlich, „Apu, Neela, and Amita Stereotypes of Indian Americans in Mainstream TV Shows in the United States“, bls. 279. 

[5] Pierre Gottschlich, „Apu, Neela, and Amita Stereotypes of Indian Americans in Mainstream TV Shows in the United States“, bls. 281 

[6] Björg Hjartardóttir, „Handan Staðalmynda. Um hlutverk kvenna í orðræðu um íslam“, bls. 114-115. 

[7] Björg Hjartardóttir, „Handan Staðalmynda. Um hlutverk kvenna í orðræðu um íslam“, bls. 115. 

[8] Kristín Loftsdóttir, „Bláir menn og eykonan Ísland“, bls. 21-22 og Jón Yngvi Jóhannsson, „Af reiðum Íslendingum“, bls. 135 og 138. 

[9] Kristín Loftsdóttir, „Bláir menn og eykonan Ísland“, bls. 22-23. 

[10] Alexander Neduva, Michael Kanevsky og Vladimir Lerner, „Perverse political correctness and personality traits“, bls. 146. 

[11] Edward Croft Dutton, „Political Correctness, Evangelicalism and student Rebellion at British Universities“, bls. 460. 

[12] Kristín Loftsdóttir, „Útlendingar, negrastrákar og hryðjuverkamenn. Kynþáttafordómar í íslenskum samtíma“, bls. 170. 

María S. Jóhönnudóttir

Höfundur er með B.A. próf í sagnfræði og Meistaragráðu í Sagnfræði frá Háskóla Íslands.

Latest posts by María S. Jóhönnudóttir (see all)

staðalímyndir – það sem gæti gerst – það sem hefur gerst

About The Author
- Höfundur er með B.A. próf í sagnfræði og Meistaragráðu í Sagnfræði frá Háskóla Íslands.