Ég fjallaði um Siðareglur Ríkisútvarpsins í gær á ekki ósvipuðum nótum og fleiri miðlar hafa gert. Nú er komið á daginn að starfsmenn RUV sömdu siðareglurnar sjálfir og að eigin frumkvæði og að stjórn RUV kom ekki að málinu á nokkurn hátt. Vera má að upplýsingar hafi verið settar fram með fremur óformlegum hætti hvað þetta varðar, þ.e.a.s. tilurð og uppruna plaggsins ekki getið.

Eftir sem áður, hver svo sem gengur þessum siðareglum í föðurstað, þá er afstaða mín sú sama.

Ég spyr aftur hvort ekki sé ástæða til að tilgreina sérstaklega í 3. grein þessara siðareglna að reglurnar eigi jafnt við um stjórnarmenn RUV eins og aðra starfsmenn ?

Ef að meiningin er að vera með siðareglu sem meinar starfsmönnum að tjá sig um hin ýmsu mál á opinberum vettvangi, þ.m.t. á samskiptamiðlum, þá ætti jafnt yfir alla starfsmenn stofnunarinnar að ganga í því efni.

Þá skiptir engu þótt Helgi Seljan hafi sagt að verið væri að gera of mikið úr þessu máli, engin hafi bannað honum að skrifa á facebook eða að öðru leyti reynt að skrúfa niður í sér. Eftir stendur þessi siðaregla sem hægt er að grípa til:

Starfsfólk, sem sinnir umfjöllun um fréttir, fréttatengt efni og dagskrárgerð tekur ekki opinberlega afstöðu í umræðu um pólítísk málefni eða umdeild mál í þjóðfélagsumræðunni, þ. á m. á samfélagsmiðlum.

Ég spyr þá hvernig eftirfarandi hluti 3. greinar geti gengið þegar að stjórn RUV er skipuð pólitískt? Pólitískt útvarpsráð er síðan efni í mikla rekistefnu út af fyrir sig en er þó ekki viðfangsefni þessa pistils.

“Starfsfólk gætir þess að vina-, hagsmuna- og skyldleikatengsl hafi ekki áhrif á störf þess sem hjá Ríkisútvarpinu eru unnin og ber að tilkynna næsta yfirmanni um hagsmuni sem geta haft áhrif á störf þess hjá félaginu.”

“Starfsfólk gætir að því að vera óháð stjórnmálalegum, hugmyndafræðilegum og efnahagslegum hagsmunum í efnismeðferð og ritstjórnarákvörðunum.”

Þegar að horft er yfir hópinn sem situr í stjórn RUV, þá stenst stjórnin á engan hátt þessar reglur. Stjórnarformaður RUV sem situr fyrir Framsóknarflokkinn hefur á undanförnum árum gagnrýnt RUV harðlega á opinberum vettvangi fyrir pólitíska slagsíðu. Hvernig getur slíkur maður setið sem stjórnarformaður þegar að ljóst er að málflutningur hans kemur beint innan úr Framsóknarflokki ?

Annar stjórnarmaður einnig á vegum Framsóknarflokksins, Kristinn H. Gissurarson, hefur einnig verið hávær á opinberum vettvangi vegna dagskrárgerðar RUV sem hann vill meina að sé áróðurskennd.

Eftirfarandi texti er úr grein Guðlaugs G. Sverrissonar, núverandi stjórnarformanns RUV, það verður að segjast að álit hans á stofnuninni er ekki ýkja hátt. Sjá einnig nýlegar facebook færslur Guðlaugs

Forsætisráðherra virðist vera í sigtinu hjá RÚV ekki síður en forsetinn. Minnist einhver þess að stofnunin hafi nokkurn tíma kallað til fólk á nýársdag til að setja út á áramótaávörp Jóhönnu Sigurðardóttur? Að vísu var Jóhanna sjálf kölluð í fréttaviðtal nú á gamlaársdag til að segja álit sitt á eftirmanni sínum en það er önnur saga. Á nýársdag var Gylfi Arnbjörnsson fenginn til að veita efnivið í frétt undir fyrirsögninni „Undrast orð forsætisráðherra“. Það sem Gylfi undraðist var að ráðherrann hefði talað um að það þyrfti að bæta kjör þeirra lægst launuðu. Gylfi var að vísu sammála forsætisráðherra en fannst að ríkið hefði átt að gera meira til að bæta fyrir að verkalýðshreyfingunni skyldi ekki hafa tekist að semja um meiri kauphækkun fyrir þá lægst launuðu en raun varð.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum sem áhuga hefur á fréttum að flestir fjölmiðlar eltast meira við ráðherra núverandi ríkisstjórnar en forverana, en ekki hvað síst forsætisráðherrann. Ekki er langt síðan RÚV gerði frétt sem kom eins og skrattinn úr sauðarleggnum og átti að sýna að forsætisráðherra hefði ætlað að fara aðra leið við skuldaleiðréttingu en raun varð. Þegar viðtalsbúturinn sem fréttin byggðist á, sem var úr þættinum formannssætið, sem skar sig úr í aðdraganda kosninga vegna þess hve fréttamennirnir gengu hart fram gegn núverandi forsætisráðherra umfram aðra formenn, kom í ljós að fréttamaðurinn hafði haft rangt eftir.

Þá liggur annar stjórnarmaður Framsóknamanna, Kristinn H. Gissurarson, ekki á skoðunum sínum er hann kallar atriði Reykjavíkurdætra í þætti hjá Gísla Marteini “klámsýningu” 

Sagði Kristinn Dagur það einkennilegt að hann sem sjónvarpsmaður væri úti í bæ að lýsa eindregnum pólitískum skoðunum sínum.

Þegar hann var inntur eftir því hvort það væri hlutverk stjórnar RUV að hafa afskipti af dagskrárgerð og fréttaflutningi, hvort það væri í þeirra valdi að grípa í taumana og jafnvel koma Gísla Marteini frá, eða draga til ábyrgðar eins og það er orðað, sagði Kristinn að svo væri að vísu ekki en stjórnin gæti hins vegar rekið útvarpsstjórann. sjá frétt á vísir.is

Gunnar Waage

Gunnar Waage

- Gunnar Waage er blaðamaður og ritstjóri Sandkassans frá árinu 2013.

Hann er Trommari, Tónskáld og skólastjóri Trommuskólans, fyrrverandi deildarstjóri og einn af stofnendum Tónlistarháskóla G. Martell í Mexíkóborg. Hann lauk burtfararprófi frá McNally Smith College of Music, en duflar við kerfisfræði og er áhugamaður um bardagaíþróttir. Hann rýnir í þjóðfélagsmál og lætur sig flest varða.Hann er einstæður faðir, jafnréttissinni, fjölmenningarsinni og áhugamaður um velferð barna. Starfar við túlkun og þýðingar og fæst við spænskukennslu.


Hann er pistlahöfundur á Kvennablaðinu og var pistlahöfundur á DV en hætti skrifum á DV ásamt fleirum, í þeim tilgangi að sýna blaðamönnum og ritstjórn blaðsins samstöðu í kjölfar yfirtöku á félaginu í September 2014.
Gunnar Waage

Stjórn Ríkisútvarpsins

| Gunnar Waage |
About The Author
- - Gunnar Waage er blaðamaður og ritstjóri Sandkassans frá árinu 2013. Hann er Trommari, Tónskáld og skólastjóri Trommuskólans, fyrrverandi deildarstjóri og einn af stofnendum Tónlistarháskóla G. Martell í Mexíkóborg. Hann lauk burtfararprófi frá McNally Smith College of Music, en duflar við kerfisfræði og er áhugamaður um bardagaíþróttir. Hann rýnir í þjóðfélagsmál og lætur sig flest varða.Hann er einstæður faðir, jafnréttissinni, fjölmenningarsinni og áhugamaður um velferð barna. Starfar við túlkun og þýðingar og fæst við spænskukennslu. Hann er pistlahöfundur á Kvennablaðinu og var pistlahöfundur á DV en hætti skrifum á DV ásamt fleirum, í þeim tilgangi að sýna blaðamönnum og ritstjórn blaðsins samstöðu í kjölfar yfirtöku á félaginu í September 2014.