Feðginin Haniye og Abrahim flúðu hingað til lands í vetur eftir að hafa lifað sem annars flokks borgarar í Íran en þau eru af Afgönskum ættum. Þau ferðuðust m.a. á milli Tyrklands og Grikklands á slöngubát. Haniye er einstök dugnaðarstúlka og hefur m.a. annast föður sinn sem er slasaður á fæti og styðst við hækjur. Hjálpar hún honum m.a. við innkaup og þrif heimilisins. Þess á milli sækir hún skóla í Keflavík.

 

Haniye ásamt Guðmundi Karli Karlssyni sem hefur stutt hana og föður hennar dyggilega

Hennar helsta ósk er að fá að vera áfram á Íslandi þar sem hér hafi hún tækifæri til að gera gott úr lífi sínu en það tækifæri hefur hún ekki í Afganistan þar sem hún tilheyrir minnihlutahópi sem býr við mjög skert mannréttindi.

Haniye er fædd árið 2005 og vegna fötlunar Abrahim er ljóst að þau þurfa á töluverðri aðstoð við rekstur heimilisins að halda. Þegar þau leituðu eftir aðstoð hjá Félagsþjónustu Reykjanesbæjar var þeim svarað að ef þeim líkaði þetta eitthvað illa (að fá enga aðstoð) þá gætu þau farið aftur til Afganistan. Þau viðbrögð og tilsvör félagsþjónustunnar eru til algjörrar skammar og þyrfti að rannsaka nánar.

Engu betri eru viðbrögð stjórnvalda við beiðni feðginanna um að fá hér alþjóðlega vernd. Þau fengu ekki áheyrn hjá Íslenskum yfirvöldum þrátt fyrir skýrt ákvæði 12 gr. 1 mgr. laga um samning Sameinuðu Þjóðanna um réttindi barna. Íslensk stjórnvöld vilja senda þau til Þýskalands en þaðan er fólk af Afgönskum uppruna sent umsvifalaust aftur til Afganistan hvort sem þau hafi búið þar áður eða ekki. Með því að verða þess valdandi að senda þau þangað eru Íslensk stjórnvöld að stefna þeim í stórhættu.

Sem siðmenntuð þjóð er það skylda okkar að taka mál allra sem hingað koma sem hælisleitendur til efnislegrar skoðunnar. Því miður þá standa stjórnvöld sig mjög illa í þeim efnum og brjóta á mannréttindum fólksins í hvívetna. Sem betur fer eru þó samtök og einstaklingar hér á landi sem styðja við bakið á þeim sem minnst mega sín. Þrátt fyrir stutta veru hér á landi eiga Haniye og Abrahim nú þegar sitt velgjörðarfólk sem vill að þau fái að búa á Íslandi og eiga hér mannsæmandi líf.

Það fólk hefur sett upp styrktarreikning til handa feðginunum sem og öðrum í þeirra sporum. Peningunum sem safnast verður varið til að tryggja fólkinu réttláta meðferð á Íslandi. Vert er að vekja athygli á því og hvetja alla sem geta til að ljá söfnuninni lið.

Reikningsnúmerið og kennitalan:
515-26-600217. Kt: 600217-0380

Styðjum við bakið á feðginum sem leita hér alþjóðlegrar verndar

| Gunnar Hjartarson |
About The Author
-