Za’atri camp for Syrian refugees in Jordan

Nú ganga ýmsar fordómakenndar og rangar sögur um flóttafólk frá Sýrlandi sem fólk étur upp hvert eftir öðru án þess að hafa fyrir því að skoða málið af einhverju viti sjálft, enda myndi slík skoðun væntanlega fela í sér endurskoðun á rótgrónum fordómum, og það finnst víst sumum mjög óþægilegt að þurfa að ganga í gegnum.

Ein saga er sú að það sé eitthvað svakalegt flóð af flóttafólki eingöngu til Evrópu en að ríkin í kringum Sýrland taki almennt ekki á móti því. Það er alrangt og er til marks um að fólkið sem lætur þessa sögu ganga hefur ekki hugmynd um hvað er að gerast á þessum landsvæðum, enda finnur það engan veginn fyrir því persónulega. Það eru rosaleg forréttindi að geta hangið heima fyrir á netinu og étið upp tröllasögur þaðan af ástandi sem maður blessunarlega finnur engan veginn fyrir sjálfur. Hið rétta er að um 95% alls flóttafólksins sem hefur yfirgefið Sýrland (fyrir utan allt fólkið sem er á vergangi innan Sýrlands) er í Tyrklandi, Líbanon, Jórdaníu, Egyptalandi eða Írak (https://www.amnesty.org/en/latest/news/2015/09/syrias-refugee-crisis-in-numbers/). Fólkið sem kemur til Evrópu er ekki nema brot af heildinni, ekki flóð sem stefnir hingað sérstaklega og eingöngu. Krísan í Sýrlandi er á gríðarlegum skala og nágrannaríkin bera miklu meiri byrðar vegna hennar en nokkurt Evrópuríki.

Önnur er sú að þetta sé nú bara alls ekki fólk sem er að flýja einhverjar hörmungar af því að það er ekki grindhorað, ekki klætt í einhverja larfa og sé jafnvel í sumum tilfellum með farsíma við hönd. Ég veit eiginlega ekki hvernig er best að svara þessu öðruvísi en að segja bara einfaldlega að þetta er rugl. Fólk sem hugsar svona er alveg greinilega fólk sem hefur almennt ekki fyrir því að hugsa mikið um aðstæður annarra og hefur engan áhuga á að setja sig í spor þess.

Það er eitt að hafa hinar og þessar skoðanir á því hvað Ísland getur og á að taka við mörgu flóttafólki. Allt gott og blessað með það býst ég við – en fordómafullt raus og skortur á samhygð hjá allt of mörgum samlöndum mínum fær mig til að skammast mín fyrir hönd þjóðarinnar allrar.

Halldór Auðar Svansson

Halldór Auðar Svansson

Tölvunarfræðingur.
Hugsjónanjörður.
Borgarfulltrúi Pírata.
Formaður stjórnkerfis- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar.
Zen-lærlingur.
Halldór Auðar Svansson

Svakalegt flóð af flóttafólki

| Halldór Auðar Svansson |
About The Author
- Tölvunarfræðingur. Hugsjónanjörður. Borgarfulltrúi Pírata. Formaður stjórnkerfis- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar. Zen-lærlingur.