Svanur

Guðrúnarson

Myndlistamaður

Svanur Guðrúnarson

Í dag spannar vinátta okkar Svans Guðrúnarsonar um 30 ár, þó við höfum þekkst í hart nær 40 ár. Þegar ég fæ mér tattoo í dag þá fer ég helst til Svans. Svanur er það sem kallast í tattoo heiminum “light handed”. Sem þýðir að hann hefur mjög gott vald á vélinni, fer ekki dýpra en nauðsynlegt er með nálina. Þetta gerir það að verkum að tattoo gróa mjög hratt og sársaukinn er í algjöru lágmarki. Trúiði mér, það er munur á heavy handed vs light handed og það vita þeir sem hafa fengið sér þó nokkur tattoo hjá ólíkum artistum. En það eru fleiri kostir við að fara ekki djúpt með nálina en minni sársauki, sem einfaldlega felast í minni skaða á húðinni. Þetta þýðir einnig að endanlega verkið verður margfalt betra.

Þeir sem þekkja Svan vita líka að hann er einstaklega skemmtilegur maður, hann segir aldrei neitt sem hann þarf ekki að segja og hann sýnir fólki ætíð mikla virðingu og umhyggju. Þá er stund í stólnum hjá Svani jafnan annað og meira en að fá sér tattoo enda hrein forréttindi að ræða heimspeki við myndlistamanninn, persónuna og ævintýramanninn, Svan Guðrúnarson.

Svanur Guðrúnarson er einnig stjórnandi, Icelandic Tattoo Expo, sem er með stærri og merkari listviðburðum sem haldnir eru hér á landi ár hvert í byrjun September. Á morgun hefst þessi frábæra ráðstefna tattoo listamanna og kvenna í Súlnasal Hótel Sögu og stendur dagana 4-6 September. Icelandic Tattoo Expo 2015 er eins og fyrri daginn full af tattoolistafólki hvaðanæva úr heiminum, stílbrigði og tækni þessa fólks er mjög fjölbreytt og margir leggja leið sína á ráðstefnuna um helgina að fá sér tattoo. Þess ber að geta að tattoo eru ífið ódýrari á ráðstefnunni en aðra daga ársins á stofum. Hér má sjá lista yfir þáttakendur í ár.

GW: Nú er verið að fá þig til að dæma í keppnum erlendis ?

SG: Já þetta er búið að vera svona undanfarin 10 ár.

Svanur Guðrúnarson 4GW: Sem þú ert búin að vera að fara út að dæma?

SG: Nú var ég í Stokkhólmi, og Norrköping Swedish tattooist of the year. Og svo dæmdi ég á Kaupmannahafnarráðstefnunni í fyrra. Ég fór á mína fyrstu ráðstefnu 1998, þá bara til að sjá. Ég heillaðist alveg af þessu. 2002 tókum við þátt í fyrstu ráðstefnunni, það var í Dublin. 2005 byrjaði ég að fara sérstaklega til að dæma í keppnum og eftir það höfum við verið að fara nokkrum sinnum á ári. En þegar hrunið skall á 2008 kom smá stopp í þetta, það ár fórum við 10 ferðir. Ýmist að dæma, taka þátt eða bara að fara eða guestspotta.

GW: 2008 fóruð þið 10 sinnum út.

SG: Já þá var ég að vinna í Svíðþjóð, Kanada og Danmörku. Ég fór á námskeið út til Bandaríkjanna sama daginn og hrunið varð, og við vorum ekki einu sinni viss hvort maður gæti notað VISA kortið þarna úti. Ég fékk ekki gjaldeyri, ég fékk 50.000 kall sem ég gat skipt í gjaldeyri. Alex ætlaði að hitta mig, við ætluðum saman á þetta og vorum búnir að plotta það í heilt ár. Hann slasar sig og lendir á spítala. Allt í einu er ég bara einn í flugvélinni, hrunið komið, í flugvélinni (hlær). Og ég lenti í Boston og út á bílaleigu með VISA kortið mitt. Svo var maður að fara í hraðbanka og,,,,virkar þetta núna ?

GW: Og virkaði kortið ?

SG: Þetta slapp fyrir horn en þetta var óhugnanlegt.

GW: En nú er talsverður munur á að dæma eða að vera taka þátt eða keppa.

SG: Þegar maður er að taka þátt, þá er maður bara soldið í básnum sínum að vinna vinnuna sína. Og maður sér ekkert mikið af því sem fer fram. Maður sér kannski í Tattoo blaði eftir á, váá var verið að gera þetta á ráðstefnunni ? En ef maður er að dæma þá sér maður allt sem er að ske, svona rjómann af öllu, alveg up close. Það er náttúrulega ómetanlegt upp á að læra og verða betri. Svo er maður líka að möndla innan um alla og kynnist öllum. En ef maður er að vinna og sérstaklega ef maður er mjög busy þá bara allt í einu er ráðstefnan búin og maður kynntist engum og sá ekkert. Þannig að dæma var mér miklu meira virði. Sérstaklega í tengslum við að halda ráðstefnur hérna heima, þetta hefur allt verið undirbúningur fyrir það. Þú veist, að halda ráðstefnur hérna heima. Það var svona það sem allir voru að biðja mann um að gera. Svo gerði ég það náttúrulega fyrir rest.

GW: Og hvenær var fyrsta ráðstefnan hér heima, Expoið ?

11221774_779908478788753_6030224268555202229_nSG: 2011 og er búin að vera þrisvar. Nú er hún svo vinsæl af artistum erlendis. Ísland er svo mikið inn núna að það er rosaleg ásókn af artistum sem vilja koma, það eru 200 Tatto-artistar á biðlista sem vilja koma. Ráðstefnan er svo vel smíðuð upp á það að allir upplifa sig velkomna. Þetta byggist mikið á því að við erum góðir gestgjafar af því við vitum alveg hvað við erum að gera. Við erum búin að fara á svo margar ráðstefnur að við vitum alvega hvað maður kann að meta og hvað ekki. Þeir artistar sem hafa komið hafa verið mjög ánægðir og það hefur síðan spurst út. En ég er líka mjög old-school með það að ég er mjög tryggur þeim sem hafa staðið með mér.Þannig að þeir sem hafa verið áður þeir ganga alltaf fyrir. Alveg sama þótt það séu einhverjar stórstjörnur sem vilja komast að. Að þá læt ég alltaf fólkið mitt ganga fyrir sem stóðu með mér í upphafi. Af því mér finnst það rétt. Auðvitað er rosa freystandi oft þegar einhver stórstjarna vill koma, mann langar til þess en ég bara einfaldlega hef ekki pláss fyrir það. Og 50 artistar, 50 er einhver tala sem að virkar fyrir markaðinn hérna upp á að þeir séu allir með vinnu á ráðstefnunni. Ég gæti alveg sett upp 2-300 manna ráðstefnu alveg leikandi, þeir myndu allir sitja hérna og enginn myndi hafa neitt að gera og allir væru óhamingjusamir. Ég hef svo oft farið á svoleiðis ráðstefnu sjálfur. Þar sem að mótshaldararnir sitja bara í einhverju bakherbergi og telja peninga skilurðu. En svo er þessi ráðstefna bara búin því næsta ár vill enginn fara á hana. Það er bara svoleiðis.

GW: Og það er náttúrulega í þessu eins og í öllum freelance bransa að loyalty skiptir öllu máli.

SG: Ölli máli. Og fagmennska. Þannig að ég tek aldrei þátt í ráðstefnunni, það er bara ekki viðeigandi. En maður sér það á mörgum ráðstefnum að mótshaldararnir eru að gera það og eru að hala inn verðlaun og manni finnst það alltaf rosalega kjánalegt. Þetta viðgengst.

GW: (Hér skellihlæ ég), það er nú meira en kjánalegt, það er alveg svakalegt

SG: Þetta viðgengst, við eigum vin sem er með betrekkjaðann vegg af verðlaunum sem,,,

GW: Sem hann er búin að fá hjá sjálfum sér (ég hlæ enn þá meira), það er rosalegt J

SG: Og hann er samt rosalega einlægur og auðmjúkur og allt svoleiðis. En þarna er eitthvað siðferði sem að,,,

GW: Sumt fólk það bara hefur ekki þessa tilfinningu.

SG: Já við fáum alltaf dómara að utan til að það sé hlutleysi.

GW: Já það er mjög mikils virði að fá dómara erlendis frá og ekki hvað síst í þessu fámenni hér, það má eiginlega segja að annað sé alveg vonlaust. En svo við vendum nú okkar kvæði í kross,,,

Hvar lærðir þú ?

SG: Ég lærði í Svíþjóð, það var 1994. Ég fór út til dannmerkur og var að vinna sem kokkur, byrjaði að læra á þessari stofu hjá Gunna í Svíþjóð í mínum frítíma meðfram vinnuni í Danmörku. Þetta var ekki nema klukkutímaferðalag frá Köben. Hann átti stúdíó sem hét Black Moon í Köben. Og ég fékk að hanga með honum. Síðan kom að þeim tímapunkti að hann þurfti að loka því stúdíói og þá bauð hann mér að koma til sín full time og að vera meðeigandi í nýju stúdíói. Ég seldi svona búseturéttindi í Danmörku sem ég átti, fór yfir til Svíþjóðar og við opnuðum í Ystad. Það er svona sumarbær í Svíþjóð, alveg bilaðslega mikið að ske þar á sumrin og ofsalega fallegt þar, svo er þetta steindautt á veturna, íbúum fækkar rosalega og margar búðir eru bara opnar á sumrin. Við opnuðum í byrjun Desember og í byrjun Janúar þá var kastað molotov-kokteil inn um gluggann og allt brann til kaldra kola.

GW: Þetta hefur verið sannkölluð eldskírn

SG: já. Og við vorum svo nýjir að við vorum ekkert tryggðir, þannig að Gunni fór út úr þessu og ég sat þarna einn eftir með lítið barn og útlendingur. Hélt húsnæðinu. Sankaði að mér drasli og fór að vinna, ég var að þvælast til Danmerkur að tattúvera þar og bara úti um allt og á nokkrum mánuðum þá var ég búin að opna þetta stúdíó aftur og rak það síðan í 2 ár. Síðan lokaði ég stofunni og kom með allt dótið í heilu lagi til Íslands. Þannig að það eina sem mig vantaði hér heima var bara vinnuhúsnæði. Þetta var svo easy. Ég var búin að opna eftir 6 mánuði hérna heima.

Svanur Guðrúnarson 6

GW: Og þá með Sessu strax ?

SG: Nei Sessa kom bara sem kúnni fljótlega eftir að ég opnaði til að fá tattoo.

GW: Þar með var teningunum kastað (Hér skelli ég upp úr)

SG: Og hún kom aftur og hún er búin að vera hér síðan.

GW: Búin að vera hér síðan, Sessa kom að fá sér tattoo og,

SG: já hennar fyrsta tattoo og það er alltaf að verða svakalegra, hún er með miklu meira tattoo en ég sko. En ég var að gata með þessu, svo þegar Sessa kemur inn í þetta þá tók hún alveg yfir þann hluta. Ég gat ekkert verið þarna einn, hún var þarna með mér og það breytti algjörlega landslaginu í sambandi við götunina. Þetta var eitthvað sem ég gerði svona meðfram tattoo vinnunni af því að markaðurinn kallaði á það. Mig langaði að einbeita mér að tattooinu en Sessa tók tók þetta föstum tökum, fór á námskeið til Þýskalands og lagði í þetta gríðarlegan metnað. Við erum svo gott team, þannig að við rekum bara stofuna sem lítið fjölskyldufyrirtæki. Þetta starfsfólk sem við höfum verið með, við höfum ekki verið með marga en Jón Þór hefur náttúrulega verið hjá okkur í 7 ár, Carlos var hjá okkur í tvö ár og Málfríður er búin að hjá okkur í hvað, 2 ár. Þau hafa verið ekki svo mikið starfskraftar heldur meira svona eins og við séum bara lítil fjölskylda. Erum stundum saman og allir jafnir.

GW: Á sínum tíma þegar þú fórst að læra, þá var ekkert auðvelt að fá meistara.

SG: Ekki á þeim árum. Og þetta var eina leiðin til að læra þetta þá, að fara og læra þetta hjá einhverjum.Helgi gamli hann reddaði mér (Helgi Tattoo).

GW: Já og þú komst að í gegn um Helga ?

SG: Það var í gegn um Helga. Hann hjálpaði mér rosalega mikið og stóð alltaf við bakið á mér. Og þegar ég kom hérna heim þá henti hann alltaf upp fyrir mig stól og leyfði mér að vinna hjá sér og svona. Hann reyndist mér alveg svakalega vel.

GW: Hann var ofsalega góður karl hann Helgi.

SG: Hann var rosalega góður karl.

GW: Lærðirðu eitthvað hjá honum líka eða,,

SG: Maður fylgdist með honum og maður lærði af honum en ég get ekki sagt að ég hafi lært hjá honum. Hann er algjör frumkvöðull hérna heima.

GW: Hann er það.

SG: Og það sem hann er að gera á þessum árum, þá var náttúrulega ekkert internet og hann djöflaðist út alveg mörgum sinnum á ári. Var bara auðmjúkur inni á einhverjum stofum, þú veist, má ég bara fylgjast með og eitthvað skilurðu. Kom svo heim og kunni eitthvað smá meira en hann kunnu áður en hann fór í þessa utanlandsferð. Hann hafði líka rosa mikið fyrir þessu. Barn síns tíma náttúrulega en ég sé 20 ára gömul verk eftir Helga og ég hugsa með mér, ég myndi óska þess að mín vinna myndi líta svona vel út eftir 20 ár því að tæknilega var karlinn alveg rosalega vel staðsettur.

GW: Já þetta er eins og þú hefur talað um með tattooið mitt sem er orðið upp undir 30 ára gamalt. Það sem ég man bara með Helga er að hann var mjög góður náungi sko, hann var mjög góður við mig alla tíð.

Svanur Guðrúnarson 7

En þú hefur alltaf verið í myndlist. Alveg síðan þú varst krakki.

SG: Já alveg síðan ég var barn.

GW: Og ég man eftir þér löngu fyrir þann tíma þegar þú byrjaðir að teikna þá man ég eftir þér teiknandi alls kyns hluti:

SG: Það hefur alltaf fylgt mér.

GW: Það hefur alltaf fylgt þér.

SG: Það gefur mér einhverja ró alveg frá því að ég var lítið barn. Alveg eins og þú og tónlistin.

GW: Já þetta er eitthvað sem að þú velur ekkert þetta bara er þarna.

SG: Þetta bara er þarna.

GW: Ég man að þú varst að vinna með airbrush.

SG: Já ég geri það enn þá.

GW: Svo hefur þú málað

SG: Já

GW: Hvað notar þú þegar þú málar?

SG: Ég var að mála með olíu, en mér finnst hitt skemmtilegra, það sem er svona meira instant. Ég hef prófað akríl en ég er ekki góður í því. Sessa er ógeðslega góð í því. En mér finnst æði að vinna með airbrush.

GW: Já þú notar mikið airbrush

SG: Já í dag.

GW: En fórstu einhverntíman að læra teikningu eða ?

SG: Ég var í barnadeild Myndlistaskólans og ég tók öldunginn, listasvið í kvöldskóla.

GW: En það hefur náttúrulega verið ómetanlegur vettvangur að vera í barnadeild Myndlistaskólans.

SG: Já það var geðveikt. Ég hélt síðan mína fyrstu myndlistasýningu í Stúdentakjallaranum þegar ég var 19 ára.

52615_1591462754589_5809164_o

GW: En ef við tölum nú aðeins um stíl, nú eru náttúrulega margir Tattoo-stílar og það eru þessir stílar sem allir eru að tala um eins og Black & Grey og,,

SG: Og colour, New School og Old School, Traditional og Neo-Traditional, Tribal, Japanese, Japanese er bæði trational og New Wave,

GW: Hvar finnst þér þú vera sem stílisti, ég veit náttúrulega að þú ert alveg alhliða en hvað finnst þér skemmtilegast að gera ?

SG: Í dag finnst mér skemmtilegast að gera japanese. Ég rokka rosalega mikið á milli því að Ísland er náttúrulega svo lítill markaður. Það er ekkert hægt eins og úti að setjast bara niður og segja hérna er stíllinn sem ég ætla að vinna og verða bara ógeðslega góður í honum. Það er svona lúxus sem við bara höfum ekki hérna vegna smæðarinnar. En þrátt fyrir að það sé alltaf að bætast í hópinn, þá er jafnframt kúnnahópurinn miklu betur upplýstur.

GW: Fólk veit meira hvað það vill.

SG: Já af því þetta er orðið svo mainstream og ég held að netið hafi breytt rosa miklu. Fyrir 10 árum þá var eiginlega ekkert hægt að selja fólki neitt annað en það sem það var að sjá einhvern með á sér í sundi. Það var eiginlega ekkert hægt að selja fólki skilurðu, japanese. Ég byrjaði á að teikna japanese og hengja upp á veggi í von um að einhver myndi bíta á agnið. En í dag er ég að gera í hverri viku japanese. Ég vinn alveg með alla stíla en maður veit að maður á eftir að hitta þessa manneskju eftir 20 ár og þetta lítur vel út. Þetta situr rétt á henni, þetta var planað á hana í upphafi eftir flæði líkamsbyggingarinnar. En önnur Taattoo þau eru jafnvel bara tilvonandi cover up í framtíðinni.

GW: Já sem þú veist að kemur til með að þurfa laga einhverntíman.

SG: Já, og í dag þá segi ég stundum bara nei, ég geri það, það er svona lúxus sem ég get veitt mér af því ég er búin að vera lengi. Ef ég veit að ég mun kannski ekki skila einhverju 100% frá mér eða ég veit að eitthvað er ekki góð hugmynd, þetta kemur til með að eldast illa.Þá er rosalega gott að geta sagt nei. En svo eru sumir stílar jafnvel sem eru í tísku sem að ég efast um að viðkomandi verði rosalega ánægður með eftir 10 ár. Til dæmis mikil notkun á gráum lit.

GW: En nú er talsvert verið að nota gráan lit ?

SG: Af því það er svo flott á mynd. Internetið hefur nefnilega kosti og galla. Kostirnir eru þeir að fólk er rosalega vel upplýst. Gallinn er að myndirnar eru allar nýstungnar og búin að fá jafnvel andlitslyftingu í fotoshop eða í einhverjum filterum. Þetta er það sem fólk er alltaf með fyrir augunum og langar í. En þú sérð aldrei myndir af þessu ársgömlu, þetta eru alltaf nýstungnar fullkomnar myndir og það getur verið villandi. Þau eru rosalega falleg nýstungin. Það er ekki fyrr en eftir svona 1-2 ár að þá fær þessi grái litur á sig svona ljósgrænan blæ. Það eru samt margir sem gera þetta og kannski vegna þess að þeir lærðu ekki fagið úr þessum old school grunni. Komu kannski inn í þetta seinna og eru kannski meira með internetið sem sinn, svona eins og þegar þú byrjar að tromma eða flúra þá eru alltaf einhverjir 5-6 sem þú fylgist með og trúir á. En þeir eru ekki með neitt svoleiðis, bara netið og eitthvert flóð af hugmyndum.

GW Ég held ég geti sagt að öll mín Tattoo, ég hef komið með einhverja hugmynd alltaf, til artistans. En síðan hef ég viljað að artistinn sjá um að lenda málinu. Þannig að ég veit ekkert endilega alveg hvað ég er að fara að fá sko. Og einhvernvegin þá finnst mér skemmtilegast að gera það þannig. Og mér finnst það eiginlega mesta vitið af því að ég veit bara að artistinn er margfalt þróaðri í hugsun hvað þetta varðar heldur en ég og ég segi fyrir mig að þessi verk sem að þú hefur gert á mig ég hefði aldrei getað fengið svona góðar hugmyndir. Þú veist. En finnst þér, hvað myndir þú segja að það sé stór hluti af fólki sem kemur, það er bara með ákveðið, það mætir með myndina, segir bara ég vil bara fá þessa mynd á mig. Og ég vil fá hana þarna ?

SG: Gæti verið svona 70%.

GW: Og restin er svona fólk sem að kemur og vinnur með artistanum ?

SG: Það er alltaf meira og meira. Það er rosa gott samt að vera með þetta í bland. Hitt er svo mikil heimavinna.

GW: Hitt yrði bara burnout kannski ?

SG: Já. Mér finnst líka rosa gaman að gera New School og Neo-traditional. Eitthvað svona sem er bold og eldist vel. Það eru þessir þrír stílar, Japanese, New school og Neo-traditional, þeir eru byggðir á sama grunni.

GW: Það eru kraftmiklar útlínur ?

SG: , það er flæði, Það eru ekkert endilega alltaf kraftmiklar útlínur sko, það eru útlínur sem halda utan um ytra byrðið. En innan verkanna eru útlínur oft í lit og fíngerðari. En þessir þrír stílar höfða mest til mín.

GW: Ertu á þeirri skoðun að stílar eins old school og American Traditional muni áfram dafna og lifa?

SG: Já þetta er grunnurinn soldið að hinu, old school er tæknin sem var notuð í Evrópu og í Bandaríkjunum. Þá höfðu menn bara aðgang að 4 litum. Síðan skeður það að einn frægasti old school artistinn okkar, Sailor Jerry, að hann fer til Japan. Kynnist japönskum Artistum og fer að vinna með þeim og kemur til baka með tæknina þeirra og fer að blanda henni sama við old school. Og þar fer bolti að rúlla sem að hefur skilað okkur þangað sem við erum í dag. Hann var algjör frumkvöðull þessi karl. Þetta er bara stuttu eftir seinni heimstyrjöld. Kannski upp úr 1950. Það er verið að halda sýningu í New York sem að við kemur Tattoo. Og hann var svona einfari, vildi ekkert blanda geði við aðra flúrara og svona. Þetta var á þessum árum þegar allir lummuðu bara á sínum leyndarmálum og enginn vildi deila með öðrum. Og hann er fenginn til að senda nokkrar myndir. Hann tekur einhverjar ljósmyndir, pakkar niður í umslag og sendir til New York. Og það verður allt vitlaust og það vilja allir komast til hans að læra og hann endar á því að hleypa einum að sér sem heitir Don Ed Hardy. Hann lærir sem sagt hjá Sailor Jerry og kynnist japönsku contöktunum sem Sailor Jerry bætti við þekkingu sína hjá. Sailor Jerry bjó í Pearl Harbor á Hawai, en þessi John Ed Hardy hefur haldið flagginu á lofti og breytti flórunni í Bandaríkjunum úr Old school yfir í meira Traditional og Japanese.

GW: Var hann að gera stórar myndir eins og whole body verk ?

GS: Ja Sailor Jerry gerði mjög mikið hann var alveg langt á undan sinni samtíð. Hann fer til Japan þrátt fyrir að hafa hatað Japani rosalega mikið vegna þess að hann var í stríðinu. Barðist við þá. Og þeir sprengdu upp Pearl Harbor og allt þetta skilurðu. En hann kyngdi því og fór þangað af því hann þráði að verða betri en hann var og hann var alltaf í þessari leit. Hann var snillingur bara á mörgum sviðum. Það hafa margir siglt á hans flaggi.

GW: En nú er tattoo-Expoið að byrja og það er löngu orðið fullbókað af artistum.

SG: Já já,

Expo

GW: Og ég er ekki viss um hvort að allir átti sig á því hvað það er rosalega gaman að fara á Expoið. Það er alveg hryllilega skemmtilegt. Ég komst ekki núna síðast en ég kom þar áður og fékk tattoo náttúrulega. En síðan fannst mér bara erfitt að slíta mig frá Expoinu enda er ráðstefnan heila helgi, af því mér fannst bara svo hryllilega gaman. Það er einhvernvegin alveg ómótstæðilegt að labba þarna um og skoða til dæmis portofolioin hjá artistunum, fylgjast með þeim vinna, skoða og pæla og þetta er einhvern vegin alveg einstök stemning.

SG: Það er líka þannig valið inn í þetta að það eru allir rosalega vinalegir og líbó. Það er engin svona einhver rokkstjarna eða, það eru allir bara niðri á jörðinni og vinalegt andrúmsloft.

GW: Enda er þetta mikið af færu fólki og það er nú bara oftar en ekki þannig að mjög fært fólk, er mjög fínt fólk að vera nálægt líka. Það eru yfirleitt mun minni einhver egó-vandamál, eftir því sem fólk er færara.

SG: Mér finnst það.

GW: Og það sem er svo skemmtilegt er þessi breidd, þarna eru 50 listamenn á einni hæð, þeir eru í rauninni allir gjörólíkir. Þannig að þetta er eins og að fara á 50 litlar myndlistasýningar.

Eftirlit með besta móti

En þú ert mikill talsmaður og lýsir jafnan ánægju yfir eftirliti Landlæknisembættisins með starfandi Tattoo-stofum hér á landi.

SG: Já það er mjög gott, rosalega gott. Það er betra en á hinum norðurlöndunum.

GW: Þannig að í raun og veru er miklu meira eftirlit með þessari starfsgrein hér á landi heldur en fólk kannski áttar sig á. Þetta er í raun mun tryggara heldur en kannski sumir myndi halda.

SG: Já svona eins tryggt og það getur orðið eftirlitið með stofunum.

GW: Svo eru náttúrulega alltaf einhverjir sem starfa utan eftirlits og í raun og veru engin veit að eru að starfa. Þeir eru svona eitthvað að leika sér í heimahúsum og jafnvel að bjóða þá þjónustu fyrir lítin pening kannski.

SG: Við viljum vera undir eftirliti og við höldum líka uppi eftirliti með sjálfum okkur. Við fylgjumst vel með því sem er að ske í sambandi við litina og þær rannsóknir sem eru gerðar. Það eru bara örfáar tegundir af litum sem njóta náðar fyrir augum Evrópusambandsins. Við erum eingöngu að nota þá. Við notum eingöngu það besta sem býðst og þá er ég að tala um allar stofurnar. Við tölum saman og við erum með lokaða facebook síðu þar sem allar fréttir og allt sem er að gerast í faginu í heiminum, við deilum þessum upplýsingum með hvor öðrum. Þannig að við erum að sýna þessu aðhald eins mikið og við getum sjálfir. Það er líka oft gott að fá utanaðkomandi aðila til að kíkja yfir öxlina á sér, og passa upp á að maður sé að gera hlutina rétt. Hið opinbera er að standa sig mjög vel hérna, í Danmörku og Svíþjóð er þetta ekki svona og flúrararnir þar myndu gjarnan vilja það. Hérna er þetta það lítið og stofurnar það fáar að það er hægt að gera þetta mjög vel. Þarna er Landlæknisembættið alveg til fyrirmyndar.

Gunnar Waage

Gunnar Waage

- Gunnar Waage er blaðamaður og ritstjóri Sandkassans frá árinu 2013.

Hann er Trommari, Tónskáld og skólastjóri Trommuskólans, fyrrverandi deildarstjóri og einn af stofnendum Tónlistarháskóla G. Martell í Mexíkóborg. Hann lauk burtfararprófi frá McNally Smith College of Music, en duflar við kerfisfræði og er áhugamaður um bardagaíþróttir. Hann rýnir í þjóðfélagsmál og lætur sig flest varða.Hann er einstæður faðir, jafnréttissinni, fjölmenningarsinni og áhugamaður um velferð barna. Starfar við túlkun og þýðingar og fæst við spænskukennslu.


Hann er pistlahöfundur á Kvennablaðinu og var pistlahöfundur á DV en hætti skrifum á DV ásamt fleirum, í þeim tilgangi að sýna blaðamönnum og ritstjórn blaðsins samstöðu í kjölfar yfirtöku á félaginu í September 2014.
Gunnar Waage

Svanur Tattoo – Meistari í nærmynd

| Viðtalið |
About The Author
- - Gunnar Waage er blaðamaður og ritstjóri Sandkassans frá árinu 2013. Hann er Trommari, Tónskáld og skólastjóri Trommuskólans, fyrrverandi deildarstjóri og einn af stofnendum Tónlistarháskóla G. Martell í Mexíkóborg. Hann lauk burtfararprófi frá McNally Smith College of Music, en duflar við kerfisfræði og er áhugamaður um bardagaíþróttir. Hann rýnir í þjóðfélagsmál og lætur sig flest varða.Hann er einstæður faðir, jafnréttissinni, fjölmenningarsinni og áhugamaður um velferð barna. Starfar við túlkun og þýðingar og fæst við spænskukennslu. Hann er pistlahöfundur á Kvennablaðinu og var pistlahöfundur á DV en hætti skrifum á DV ásamt fleirum, í þeim tilgangi að sýna blaðamönnum og ritstjórn blaðsins samstöðu í kjölfar yfirtöku á félaginu í September 2014.