Ég bjó í Culiacan og ég bjó í Mexíkóborg. Þetta eru meðal hættulegustu borga heims. Mér þykir afar vemmilegt að hlusta á þingmenn stjórnarflokkanna reyna að mála einhverja mynd af Íslandi, þar sem séu slíkir undirheimar að lögreglan þurfi vélbyssur. Miðað við vopnakaup lögreglunnar þá hefur einhver í hyggju að setja á fót ekki sérdeild, heldur lítin her.

Engin umræða hefur farið fram um málið og pólitísk stefna í þessa veru er ekki til staðar. Það hafa jú verið menn hér í gegn um tíðina sem mælt hafa fyrir vígbúnaði, en ekki man ég eftir neinum sem tekin hefur verið alvarlega. Og ekki veit ég hvers lags hugmyndir stjórnarliðar sem og ýmsir innan lögreglunnar gera sér um sinn starfsvettvang, en eftir öllum sólarmerkjum að dæma, þá ættu líklegast margir þeirra að hugleiða starf við eitthvað annað. Ekki ætlast ég til af lögreglumönnum að þeir séu alsendis óvopnaðir, en vélbyssur þurfa þeir ekki nema þá kannski sérsveitin.

Síðan bregðast stjórnarliðar við umræðu um málið með því að drulla yfir fjölmiðla og þá sérstaklega DV. Þessir sömu þingmenn sem halda að hér sé borgarastyrjöld, ætlast líka til að tekið sé mark á þeim og ófrægingaratlögu þeirra á hendur DV og öðrum miðlum, því gagnrýni þeirra einskorðast ekki við DV.

Lögreglustörf eru alls ekki fyrir alla og það er nú mín skoðun að þeir lögreglumenn sem telja sig þurfa að vera svo þungvopnaðir að ekkert minna dugi en vélbyssur, þessir menn ættu bara að kannast við taugaveiklun sína og finna sér starf við hæfi.

Það sama á við um nýja þingmenn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks sem verja vopnaeign lögreglunnar, þeir ættu að gera okkur þann greiða að fara frá. Segja af sér og finna sér störf sem reyna minna á raunsæi þeirra og upplýsingu. Það kallar vissulega á sterkar taugar að búa í samfélagi þar sem ofbeldi þrífst að staðaldri. En aðstæður hér á landi eru með því betra sem gerist og tilefni til taugaveiklunar eru af skornum skammti. Eðlilegast væri því að koma hluta þessa vopnabúrs í verð utan landsteinanna hið fyrsta.

Þessi móðursýki stjórnarliða er alin upp í nýjum þingmönnum af fólki eins og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra, sem hefur verið að þróa með sér síaukna hysteriu. Þetta er eitt af einkennum einræðisherra og harðstjóra. Þeir sjá óvini alls staðar.

Umræðan hefur ekki farið fram meðal borgaranna og það á ekki að vera geðþóttaákvörðun taugaveiklaðra manna hvort, hvenær eða hvernig þeir grípa til sjálfvirkra skotvopna. Það á ekki heldur að vera undir lögreglustjórum komið að taka slíkar ákvarðannir. Það á að vera ríkisins, alþingis. Það eru kjósendur sem ákveða eiga hvernig skuli staðið að löggæslu í landinu og síðan er það löggjafans að útfæra þær áhersur. Það er síðan lögreglumanna að starfa innan þess ramma sem alþingi setur þeim. Annað er óboðlegt.

 

Gunnar Waage

Gunnar Waage

- Gunnar Waage er blaðamaður og ritstjóri Sandkassans frá árinu 2013.

Hann er Trommari, Tónskáld og skólastjóri Trommuskólans, fyrrverandi deildarstjóri og einn af stofnendum Tónlistarháskóla G. Martell í Mexíkóborg. Hann lauk burtfararprófi frá McNally Smith College of Music, en duflar við kerfisfræði og er áhugamaður um bardagaíþróttir. Hann rýnir í þjóðfélagsmál og lætur sig flest varða.Hann er einstæður faðir, jafnréttissinni, fjölmenningarsinni og áhugamaður um velferð barna. Starfar við túlkun og þýðingar og fæst við spænskukennslu.


Hann er pistlahöfundur á Kvennablaðinu og var pistlahöfundur á DV en hætti skrifum á DV ásamt fleirum, í þeim tilgangi að sýna blaðamönnum og ritstjórn blaðsins samstöðu í kjölfar yfirtöku á félaginu í September 2014.
Gunnar Waage

Taugaveikluð lögregla

| Gunnar Waage |
About The Author
- - Gunnar Waage er blaðamaður og ritstjóri Sandkassans frá árinu 2013. Hann er Trommari, Tónskáld og skólastjóri Trommuskólans, fyrrverandi deildarstjóri og einn af stofnendum Tónlistarháskóla G. Martell í Mexíkóborg. Hann lauk burtfararprófi frá McNally Smith College of Music, en duflar við kerfisfræði og er áhugamaður um bardagaíþróttir. Hann rýnir í þjóðfélagsmál og lætur sig flest varða.Hann er einstæður faðir, jafnréttissinni, fjölmenningarsinni og áhugamaður um velferð barna. Starfar við túlkun og þýðingar og fæst við spænskukennslu. Hann er pistlahöfundur á Kvennablaðinu og var pistlahöfundur á DV en hætti skrifum á DV ásamt fleirum, í þeim tilgangi að sýna blaðamönnum og ritstjórn blaðsins samstöðu í kjölfar yfirtöku á félaginu í September 2014.