Bloggarinn Teitur Atlason er hættur að skrifa pistla á DV. Í kveðjupistli Teits segir eftirfarandi:

Trúverðugleikinn hefur tapast vegna þess einhverjum sem hugnaðist ekki efnistök DV, halda að hægt væri að troða tappa ofan í umræðuna með því að kaupa blaðið. Skipa svo strengjabrúður sem ritstjóra og ná þannig að hindra eðlilega umfjöllun um allskonar mál  

Blaðið var keypt til að  þagga niður umfjöllun.  Svo einfalt er það nú.

Tilgangurinn er svo auðvitað sagður vera annar og áréttað um “dagsins önn” og “létt og leikandi” og “nauðsynleg rödd”, “amstur dagsins” og allt þetta merkingarlausa frasa-bull.  Í rauninni á að búa til blað sem fjallar um krúttlega kettlinga, nágrannaerjur í fátæks fólks og vinnustaðahrekki vinsælla fjölmiðlamanna.  

Þetta gerist ekki strax, en það gerist.  

Hér er allt á skjön.  Trúverðugleiki tapast. Annarlegur ásetningur er tekin við af eðlilegri forvitni og upplýsingaskyldu.  Hótunartilburðir gagnvart óþægum blaðamönnum er hafið og vantraust allsráðandi.  

Það sem er svolítið skrýtið í öllu þessu eyðileggingarstarfi  liggur einhver fullvissa eyðilegginganna að plottið muni ganga upp!  Að almenningur fatti ekki hvað er á seyði!  Það finnst mér frétt í sjálfu sér.  Það er afar sérkennilegt svo ekki sé tekið sterkar til orða að stjórnendur fjölmiðils séu jafn innilega sannfærðir um heimsku lesenda sinna og raun ber vitni.

Nú skal ég alveg trúa því að þetta hefði verið hægt allt fram undir tíunda áratuginn.   Þá var aðgangur almennings að fjölmiðlum mjög takmarkaður og passað upp á að hver sem er gæti ekki látið skoðun sína í ljós.  Þessir tímar eru sem betur fer að baki en daunninn úr þessum ruslahaug Styrmisáranna virðist að vísu kveikja minningar og tregafulla þrá eftir “gömlu góðu tímum” – þegar Ísland var “einfalt og skiljanlegt”.

Í dag hafa allir aðgang að samfélagsumræðunni og óþægileg mál sem varða valdhafa eru í seilingarfjarlægð frá hverjum þeim sem hefur áhuga og nennu að skoða þau og komast að niðurstöðu.

Samfélagsmiðlar hafa bylt neytendamálum og fréttum.  Reyni verslun að svindla á viðskiptavinum sínum fara fréttir af því eins og eldur um samfélagsmiðlasenuna.  Reyni fjölmiðill að ljúga að lesendum sínum gerist hið sama og skaðinn af lyginni er orðin margfalt meiri en mögulegur ávinningur ef lygin hefið sloppið í gegn.  

Geldingartilraun á DV mun mistakast.  Tvennt gæti gerst.  

DV gæti orðið eins og Morgunblaðið sem er rekið af ríku fólki sem á allt sitt undir að eitthvað pólitískt úthlutunarkerfi haldi.  Mogginn hefur engan trúverðugleika og ritstjórinn er skelfingarmaður sem hefur kostað hvert mannsbarn á Íslandi meira en miljón krónur vegna afglapa þegar hann var seðlabankastjóri.  Trúverðugleiki Moggans hefur ekki tapast vegna ills umtals eða “öfund áróðursmanna”.  Trúverðugleiki Moggans er ofan í salerninu því eðlilegt flæði og prinsipp blaðamennskunnar eru virt að vettugi.  Þar á bæ er einfallega ekki stunduð blaðamennska heldur eitthvað annað.

DV undir oki auðdóna og ritstjóra-aula mun auðvitað tapa peningum, en dæmin sýna að eigendur blaðsins líta á slíkt tap sem réttlætanlegan fórnarkostnað.  Mogginn er ágætis dæmi því til staðfestingar.  Hagsmunirnir eru ekki hjá blaðinu og lesendum þess.  Þeir eru annarsstaðar.

Í öðru lagi gæti DV bara farið á hausinn. Það hefur reyndar gerst áður en þá var nákvæmlega sama staða uppi á DV.  Blaðið var keypt í annarlegum tilgangi, trúverðugleiki tapaðist og þar með tekjur og allt fór fjandans til.

Ég nenni ekki að vera hluti af þessu auðdóna – DV og þetta er síðasta bloggið sem birtist eftir mig hérna.  Mér sárnar við tilhugsunina um starfsfólkið sem þarf að vinna undir vitgrönnum kjánum og ég held að enginn haldi út svoleiðis áþján til lengdar.  Þá verður skipt út fyrir unglinga úr réttri ungliðahreyfingu með búttaðar kinnar, furðulegar hárgreiðslur og lyktarvandamál. Þau munum skrifa  um krúttlega kettlinga, undur íslenskar náttúru, nýjasta vinnustaðahrekk Loga Bergmann og óumdeilanleg bragðgæði íslenskra landbúnaðarvara.

Ég nenni ekki að vera hluti af svoleiðis apparati og segi bless við DV.

 

 

 

 

Teitur Atlason hættir á DV

| Samantekt |
About The Author
- Ritstjórn