Gunnar Hjartarsson skrifar –

15. Ágúst brá til stórtíðinda í Íslenskum stjórnmálum en þá héldu rasísk samtök mótmælafund fyrir utan Alþingishúsið. Þetta markar tímamót því þetta er í fyrsta skipti frá lokum síðari heimstyrjaldar sem flokkur á þessari bylgjulengd hefur komið saman opinberlega á almannafæri á Íslandi. [1]

Um 40-50 þjóðernissinnar voru þar samankomnir og mótmæltu þar helst hinum nýju útlendingalögum sem voru samþykkt í Júní og taka gildi í ársbyrjun 2017. [2] Töluvert fleiri, eða um 200-300 manns, mættu til að mótmæla öfgafólkinu sem á ótrúlegan hátt hefur túlkað lögin þannig að verið sé að galopna landamæri Íslands og telur að verið sé að útrýma Íslensku þjóðinni í núverandi mynd.

Hvergi í nýju lögunum kemur hins vegar fram að galopna eigi hér landamærin eins og meðlimir Þjóðfylkingarinnar halda fram en á síðu Alþingis segir eftirfarandi:

Helstu breytingar og nýjungar

Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar sem stuðla að aukinni þjónustu við útlendinga, sérstaklega umsækjendur um alþjóðlega vernd, erlenda sérfræðinga, námsmenn og rannsakendur. Leitast er við að gera skilyrði dvalarleyfa skýrari og lögð áhersla á að það dvalarleyfi, sem útlendingur sækir um, sé í samræmi við tilgang dvalar hans hér á landi.

Lagt er til að sett verði á laggirnar móttökumiðstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd þar sem leitast verði við að greina þá sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu og sérþarfir þeirra.
Áhersla er lögð á að bæta réttarstöðu barna, sérstaklega fylgdarlausra barna, sem sækja um vernd hér á landi.[3]

Á meðan Þjóðfylkingarfólk hrópaði hinar ýmsu rangfærslur um lögin, stóðu með skilti og veifuðu fánum samtakanna, mynduðu andstæðingar rasisma hring í kringum þau, táknrænt til þess að sýna stuðning með hælisleitendum og mótmæla hatri.

Það skal þó segjast eins og er að ein stúlka fór að vísu nokkuð yfir strikið er hún gekk úr hringnum og skemmdi skilti mótmælenda.

Einn meðlimur Þjóðfylkingarinnar kunni þessu athæfi afar illa og brást við með offorsi er hann tuskaði stúlkan all illilega til og hafði í frammi ógnandi framkomu gagnvart nokkrum þeirra er mótmæltu Þjóðfylkingunni.

Hinn ágæti maður Salmann Tamimi var einn þeirra er mótmæltu rasismanum á fundinum sögufræga þann 15. Ágúst. Um mánuði síðar á Salmann leið um Hamraborgina í Kópavogi og gefur sig á spjall við félaga sinn fyrir utan verslun Krónunnar. Þar kemur aðvífandi að honum sami maður og fór hamförum á Austurvelli, ásamt félaga sínum.

Mennirnir tveir vissu að Salmann hafði mótmælt Þjóðfylkingunni og hótuðu því að í næsta skipti sem mótmælt yrði gegn samtökunum þá myndu þeir beita mótmælendur ofbeldi. Því næst sýndu þeir Salmanni húðflúr af merkjum SS sveita nasista og sögðu “við erum valdið”.[4]

Á Facebook síðu Þjóðfylkingarinnar segir Helgi Helgason formaður flokksins eftirfarandi um frásögn Salmann Tamimi:

Burt séð frá því að ég legg ekki trúnað á þessa frásögn þá er það þannig að Íslenska þjóðfylkingin hafnar öllu ofbeldi sem og við höfnum hugmyndafræði fasista, nasista og Islamista.

Ung hörundsdökk Íslensk stúlka, Brynja Valdimarsdóttir, gerði nýlega heimatilbúna vísindalega könnum ásamt vini sínum, Braga Beinteinssyni, sem er ljós á hörund. Þau ákváðu bæði að sækja um aðild að Facebook síðu Þjóðfylkingar. Niðurstaðan var eins og við var búist. Brynju var hafnað en Braga var veittur aðgangur.[5]

Helgi Helgason formaður Íslensku Þjóðfylkingarinnar

Helgi Helgason formaður Íslensku Þjóðfylkingarinnar

Þessi niðurstaða skýrir sig að mestu leyti sjálf. Íslenska Þjóðfylkingin sækist eftir stuðningi frá einkum hvítu fólki þrátt fyrir yfirlýsingar þeirra um að vera ekki rasistar. Í yfirklóri Helga Helgasonar, formanns Þjóðfylkingarinnar, gagnvart niðurstöðu Brynju segir hann m.a.:

Það er stefna okkar að samþykkja ekki þá sem eiga ekki samleið með okkur í skoðunum. Það er mjög einfalt.

Má segja að Helga takist með þessum orðum ágætlega að skilgreina Þjóðfylkinguna sem fasistaflokk og rasistaflokk þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar um annað.

Í raun ætti að taka allar yfirlýsingar Þjóðfylkingarinnar með miklum fyrirfara enda eru mótsagnir þeirra margar. Raunar ekkert um margt frábrugðnir systurflokki sínum, Þjóðfylkingunni í Frakklandi. Þeir gefa sig út fyrir að vera flokkur fólksins en undir niðri kraumar viðbjóðurinn t.d. hefur stofnandi Frönsku Þjóðfylkingarinnar verið marg dæmdur fyrir rasisma og afneitun á helförinni.

Látið ekki blekkjast. Markmið Íslensku Þjóðfylkingarinnar er að klæða gamla úrelta martraðar hugmyndafræði í nýjan búning og reyna að véla fólk til þess að kjósa sama viðbjóð yfir sig og leitt hefur til mestu hörmunga mannkyns.

Eigum við að treysta úlfunum í þetta skiptið?

[1]http://stundin.is/pistill/ognin-sem-stafar-af-islensku-thjodfylkingunni/
[2]http://nutiminn.is/orskyring-eru-ny-utlendingalog-ad-fara-ad-tortima-islandi/
[3]http://www.althingi.is/thingstorf/listar-yfir-mal-a-yfirstandandi-thingi/samantektir-um-thingmal/?ltg=145&mnr=728
[4]http://stundin.is/frett/ognad-af-nasistum-vid-kronuna-er-thetta-framtid-is/
[5]https://www.facebook.com/brynja.valdimarsdottir/posts/10154866435061494

 

Úlfar í sauðagæru

| Greinar |
About The Author
- Ritstjórn