Tillaga að umbótum

Stofnun útlendinga- og innflytjendamála

Hér verður útskýrð í stuttu máli sú umbótatillaga sem felur í sér breytingar á skipulagi og stjórnsýslu
útlendinga- og innflytjendamála. Tillagan gerir ráð fyrir að verkefni verði sameinuð á lægra stjórnsýslustigi.
Sett verði á laggirnar sérstök stofnun með stjórn. Stjórn stofnunarinnar verði skipuð fulltrúum þeirra
ráðuneyta sem málaflokkar útlendinga- og innflytjendamála heyra undir samkvæmt núgildandi
verkaskiptingu milli ráðuneyta annars vegar og ríkis og sveitarfélaga hins vegar. Þá er gert ráð fyrir að
Samband íslenskra sveitarfélaga eigi fulltrúa í stjórn stofnunarinnar. Formaður stjórnar verður skipaður af
ráðherranefnd um samræmingu mála er varða fleiri en eitt ráðuneyti.

Með þessari nálgun er leitað nýrra leiða til að samhæfa og samstilla aðgerðir til úrlausnar margra
verkefna sem hafa mikið flækjustig, geta í senn verið fyrirsjáanleg og ófyrirsjáanleg og kalla á skjótar en
um leið vandaðar ákvarðanir í málefnum einstaklinga og fjölskyldna. Tillagan felur í sér formfestingu á
skipulagi um samhæfingu og samvinnu verkefna sem heyra undir mismunandi ráðuneyti, leysa þarf á
báðum stjórnsýslustigum, í mismunandi samfélagsgeirum og í samstarfi við alþjóðlegar stofnanir. Tillagan
endurspeglar ákveðinn veruleika í íslenskri stjórnsýslu sem birst hefur á undanförnum 25 árum með
aukinni dreifstýringu og aðkomu margra aðila frá mismunandi áttum að mótun og framkvæmd á stefnu
stjórnvalda. Tillagan á sér hins vegar samhljóm í þeim hugmyndum sem voru til umfjöllunar í skýrslu sem
kom út á árinu 2010 og unnin var að tilhlutan forsætisráðuneytisins til undirbúnings setningar nýrra laga
um Stjórnarráð Íslands (Nr. 115/2011)54.

Tillagan leitast við að ná markmiðum um skilvirkni, gæði og ábyrgð án þess að þar sé lagt til að
setja á stofn nýtt ráðuneyti, sameina ráðuneyti eða flytja málaflokka í heilu lagi frá einu ráðuneyti til
annars. Meginrökin fyrir því að svo er ekki lagt til hér eru þau að reglur um réttarstöðu útlendinga við
komu þeirra til landsins, dvöl og brottför fela í sér sérhæfða málsmeðferð við undirbúning og töku
stjórnvaldsákvarðana. Málsmeðferð í málefnum einstaklinga og þjónusta við þessa sömu einstaklinga fer
ekki vel saman sé hún höfð á einni hendi. Sú stjórnsýslulega staða sem í meðferð stjórnvaldsákvarðana
felst getur skapað árekstra og þar með ákveðinn þjónustuvanda á meðan og í framhaldi af ákvörðun.

Ástæðan er sú að málsmeðferð sem felur í sér ákvarðanir um örlög og afdrif einstaklinga og fjölskyldna
fer ekki saman við myndun þjónustusambands sem byggir á trausti milli innflytjanda og þjónustuaðila.
Traust í þjónustusamböndum er lykill að farsælu aðlögunarferli, hvort tveggja fyrir innflytjandann og
samfélagið í heild. Sú meðferð í málefnum einstaklinga og fjölskyldna sem byggir á að traust sé til
staðar í þjónustutengslum um lengri eða skemmri tíma er félagsleg þjónusta. Félagsleg þjónusta
byggir á sérhæfðri þekkingu sem er af öðrum toga og með aðra fræðilega skírskotun en sú sérhæfða
málsmeðferð sem ákvarðanir við komu, dvöl eða brottför byggir á. Af þessum sökum fer betur á því að
stjórnvaldsákvarðanir við komu, dvöl og brottför og síðar þjónustuákvarðanir við undirbúning að aðlögun
og í aðlögunarferlinu sjálfu, séu ekki á sömu hendi hvað varðar stefnumótun og pólitíska ábyrgð.
Flutningur á málaflokknum milli ráðuneyta myndi fela í sér að setja þyrfti upp sérþjónustu fyrir útlendinga
og innflytjendur á vegum þess ráðuneytis sem málaflokkurinn yrði fluttur til. Ef t.d. kæmi til flutnings á
verkefnum velferðarráðuneytisins til innanríkisráðuneytisins gæti slík uppbygging á sérhæfðri þjónustu
sem eingöngu miðaðist við aðlögun innflytjenda haft óheppileg ruðningsáhrif á það þjónustukerfi
sem fyrir er í litlu og fámennu sérfræðingasamfélagi. Þar yrði komið upp félagslegri þjónustu sem væri
eingöngu fyrir útlendinga og innflytjendur, þjónustukerfi sem myndi keppa við þá félagslegu þjónustu
sem fyrir er í sveitarfélögum í landinu um fagfólk. Þar að auki stríðir það gegn hugmyndafræðinni um
„eitt samfélag fyrir alla“ sem verið hefur leiðarljós í opinberri þjónustu á Íslandi um árabil, og þar með
einnig hugmyndinni um “integration” sem byggir í raun á sömu hugmyndafræði. Markmið aðlögunar er
það að útlendingar og innflytjendur geti nýtt sér almenna (mainstream) þjónustu í landinu.
Að lokum gerir tillagan ráð fyrir gagnsæi við framsal valds og ábyrgðar, hagkvæmni við meðferð á
opinberu fé um leið og þess er gætt að gæði og öryggi þjónustunnar við útlendinga og innflytjendur séu
sem best tryggð með því að standa vörð um þekkingu og reynslu starfsfólks.

Útlendingastofnun, flóttamannanefnd og innflytjendaráð lagt niður

Tillagan gerir ráð fyrir endurskipulagningu þess skipulags sem fyrir er og felur m.a. í sér að Útlendingastofnun
í núverandi mynd verður lögð niður. Núverandi starfsemi verður skipt upp í tvö svið sem falla undir nýja
stofnun, Stofnun útlendinga- og innflytjendamála. Flóttamannanefnd í núverandi mynd verður lögð niður
og verkefni hennar færð undir Stofnun útlendinga- og innflytjendamála. Þá verður dagleg stjórnun og
samhæfing verkefna sem nú eru á verksviði velferðarráðuneytisins og nánar er lýst í nýrri framkvæmdaáætlun
í málefnum innflytjenda fyrir árin 2016–2019 færð til þessarar nýju stofnunar.
Innflytjendaráð í núverandi mynd verður lagt niður og verkefnum þess komið fyrir á viðeigandi stigum
og sviðum þessarar nýju stofnunar. Með þessu er ábyrgð, umsýsla og umfangsmikið samstarf um margs konar verkefni sem áður voru leyst af hendi í tilfallandi ráðum og nefndum komið fyrir í stofnanaskipulagi.
Sú tillaga að koma skyldum verkefnum fyrir í stofnanaskipulagi gefur kost á samfellu í vinnu við verkefnin
og þar með uppbyggingu á stofnanaminni. Stofnanaminni varðveitir sérþekkingu, hæfni og færni sem
byggist upp yfir tíma. Slík uppsöfnuð reynsluþekking er nauðsynleg til að tryggja sem best skilvirkni og
gæði málsmeðferðar og þjónustu við einstaklinga og fjölskyldur sem eiga sér ólíka reynslu og bakgrunn.
Með þessari nálgun má byggja upp staðgóða þverfaglega reynslu í þjónustu við hælisleitendur og
flóttafólk, og veita viðeigandi viðtökur og þjónustu strax á fyrstu stigum hvers máls, hvort heldur sem
einstaklingar koma eftir eigin leiðum og sækja hér um alþjóðlega vernd eða í hópi flóttamannahópa sem
hingað koma í boði stjórnvalda. Viðeigandi og snemmtækar aðgerðir fyrirbyggja hugsanleg vandamál
sem oft koma ekki fram fyrr en hjá annarri eða þriðju kynslóð þeirra innflytjenda sem kjósa að búa til
frambúðar í nýjum heimkynnum.

Atvinnuréttindi útlendinga

Tillagan gerir ráð fyrir að atvinnumál útlendinga heyri áfram undir ráðuneyti vinnumála. Aftur á móti
mætti einfalda skörun og vinnslu innan kerfisins með því að líta til framkvæmdar t.d. í Noregi þar sem
aðeins ein löggjöf gildir almennt um útlendinga og rétt þeirra til dvalar í landinu og um atvinnuréttindi
þeirra. Þar er meginreglan að atvinnuleyfi fylgi almennt dvalarleyfi. Hins vegar eru frekari skilyrði sem
tengjast vinnumarkaði sett þegar um er að ræða dvalarleyfi sem grundvallast á atvinnu. Má þar nefna
skilyrði á borð við kvóta sérfræðinga sem settir eru af ráðuneyti atvinnumála og Vinnumálastofnun, í
samráði við fleiri ráðuneyti.

Ný nálgun: Tengslanet í opinberri stjórnsýslu

Sú tillaga sem hér er sett fram tekur mið af því að stefnumótun þeirra verkefna sem hér þarf að
leysa fellur undir þrjú ráðuneyti. Þá er unnið að afgreiðslu og úrlausn þessara verkefna með aðkomu
a) ríkisstofnana sem eru undirstofnanir þessara þriggja ráðuneyta, b) stofnana á vegum sveitarfélaga,
c) frjálsra félagasamtaka, d) fyrirtækja í einkarekstri, og að síðustu e) hagsmunasamtaka og aðila
vinnumarkaðarins. Þá tekur tillagan mið af því að verkefnin eru að stærstum hluta fjármögnuð með
almennum sköttum. Ákvörðun um fjárveitingar til þeirra er tekin af Alþingi við gerð fjárlaga hverju sinni
og ráðstöfun þess fjár ákvarðast af þeim ráðherra sem fer með þann hluta málaflokksins sem undir
ráðuneyti hans heyrir. Þá fellur hluti þess kostnaðar sem fylgir þessum verkefnum á þjónustustofnanir
sveitarfélaga sem taka þátt í verkefnum sem lúta að móttöku flóttamanna. Þessi nálgun er þekkt undir
heitinu tengslanet í opinberri stjórnsýslu (governance networks), sem stundum er vísað til sem „stýrinet“.
Stýrinet eru skilgreind sem all stöðugt, samhæft ferli samvinnu og samskipta, sem stefnumótandi aðilar,
m.a. frá hinu opinbera, einkageiranum og þriðja geiranum taka þátt í.

Þetta form opinberrar stjórnsýslu hefur þróast í framhaldi af aukinni dreifstýringu, útvistun verkefna
frá hinu opinbera til frjálsra félagasamtaka og fyrirtækja á markaði, og aukinnar alþjóðavæðingar.
Með alþjóðlegum skuldbindingum og aukinni beitingu stjórntækja af ólíkum toga, s.s. reglusetningar,
þjónustusamninga, styrkja og ávísana til greiðslu fyrir þjónustu, hefur orðið til skipulag sem hvorki fellur
undir skipulag stigveldisins þar sem boðvald ráðherra ríkir í opinberri stjórnsýslu né lögmál markaðarins.
Þetta nýja form opinberrar stjórnsýslu er svar við ákalli um skýra stefnu, markviss viðbrögð í tæka tíð,
þekkingu og úthald til að mæta verkefnum sem í senn eru bæði fyrirsjáanleg og ófyrirsjáanleg. Þetta eru
verkefni sem oft einkennast af háu flækjustigi, sum leysast aldrei alveg til fulls, heldur aðeins tímabundið
og geta komið upp aftur ýmist í nýrri mynd eða í formi bráðavanda sem kallar á tafarlaus og markviss
viðbrögð. Hér er það verkefnið sem er í forgrunni. Skipulag, stýring og dagleg stjórnun miðast við
að ná markmiðum sem stjórnvöld hafa markað um verkefnið í opinberri stefnumörkun til lengri og
skemmri tíma. Starfsfólk, hvar svo sem það kann að koma að verkefninu, þjónar verkefninu í umboði síns
yfirmanns sem ber ábyrgð gagnvart næsta yfirmanni, stjórn stofnunar, samtaka eða fyrirtækis.Í því tilviki sem starfsmenn eru opinberir starfsmenn endar ábyrgðin hjá viðkomandi ráðherra eða sveitarstjórn.

Skipulag og helstu verkefni Stofnunar útlendinga- og innflytjendamála

Hér fer á eftir nánari lýsing á skipulagi hinnar nýju stofnunar og hvernig ábyrgð og gagnsæi ábyrgðartengsla
er tryggt í þessu nýja skipulagi. Stofnun útlendinga- og innflytjendamála er stjórnsýslu- og skipulagsstofnun.
Nákvæm skilgreining og lýsing á einstökum verkefnum, verkþáttum, samstarfstengslum og starfslýsingum
verður látin bíða þar til síðar ef til nánari útfærslu kemur. Við hönnun þessa skipulags hefur verið tekið mið af skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2015, upplýsingum úr viðtölum við lykilstarfsfólk í þjónustu við
hælisleitendur og flóttafólk, og ábendingum á fundum með starfsfólki einstakra ríkisstofnana og með
fulltrúa Rauða kross Íslands.

Þá byggir hönnunin á ítarlegri verkefna- og tengslagreiningu á nýrri framkvæmdaáætlun í málefnum
innflytjenda fyrir árin 2016–2019. Áætlun ríkisstjórnar Íslands um aðgerðir gegn mansali 2013–2016
hefur ekki verið skoðuð sérstaklega með hliðsjón af hugsanlegum samlegðaráhrifum. Skoða þarf
nánar með verkefna- og tengslagreiningu hvort hugsanlega mætti ná fram styrkingu á viðbrögðum
í íslenskri stjórnsýslu við mansali, og uppbyggingu og varðveislu þekkingar og reynslu í því skyni
með samlegðaráhrifum sem mögulega mætti ná með samþættingu verkefna innan nýrrar stofnunar
útlendinga- og innflytjendamála. Þar sem fórnarlömb mansals á Íslandi eru nánast eingöngu útlendingar
væri rétt að útvíkka þá greiningu sem hér hefur verið gerð í þeim tilgangi að styrkja stofnanakerfið í
kringum málefni útlendinga almennt.

Stofnun útlendinga- og innflytjendamála

skipurit

A. Stjórn stofnunarinnar

Eins og komið hefur fram er sú starfsemi sem hér er sett saman í eina stofnun að stærstum hluta fjármögnuð
með almennum sköttum. Alþingi ákvarðar framlög til starfseminnar með fjárlögum ár hvert, en ráðstöfun
framlaga er á hendi ráðuneyta (hér innanríkis-, velferðar-, utanríkis- og menntamálaráðuneyti). Því er hér
gert ráð fyrir að ráðherrar þeirra ráðuneyta skipi fulltrúa í stjórn55 stofnunarinnar, sem fyrir þeirra hönd
fylgja því eftir a) að framlögum sé varið til þeirra verkefna sem eru í forgangi ráðherra og ríkisstjórnar
hverju sinni, b) að það sé gert með eins skilvirkum og hagkvæmum hætti og kostur er, c) að gæði
og öryggi málsmeðferðar og þjónustu séu tryggð og d) að starfsemin búi ávallt yfir og viðhaldi bestu
fáanlegu þekkingu á málefnum útlendinga og innflytjenda sem tiltæk er í landinu. Stjórn stofnunarinnar
verði skipuð fulltrúum þeirra ráðuneyta sem málaflokkar útlendinga- og innflytjendamála heyra undir
samkvæmt núgildandi verkaskiptingu milli ráðuneyta annars vegar og ríkis og sveitarfélaga hins vegar. Þá
er gert ráð fyrir að Samband íslenskra sveitarfélaga eigi fulltrúa í stjórn stofnunarinnar. Formaður stjórnar
verður skipaður af ráðherranefnd um málefni flóttafólks og innflytjenda í forsætisráðuneytinu.

B. Forstjóri og framkvæmdastjórn

B1. Forstjóri

Forstjóri stofnunarinnar verði skipaður af ráðherra samkvæmt tillögu stjórnar að undangenginni auglýsingu
og vali í samræmi við það sem almennt gerist við ráðningu forstöðumanna ríkisstofnana. Forstjóri ber
ábyrgð á allri starfsemi stofnunarinnar gagnvart stjórn hennar. Gera skal kröfu um háskólamenntun og
reynslu af stjórnun með mannaforráðum. Menntun þarf að vera á því sviði sem nýtist í starfinu og hæfir
viðfangsefni stofnunarinnar í víðum skilningi. Skipunartími og ráðningarkjör taki mið af ráðningarkjörum
forstöðumanna ríkisstofnana.

B2. Framkvæmdastjórn

Framkvæmdastjórn stofnunarinnar er samráðs- og upplýsingavettvangur forstjóra við skipulagningu,
samhæfingu og daglega stjórnun starfseminnar. Framkvæmdastjórn hefur það meginverkefni að
tryggja flæði og gæði upplýsinga og verkefna, greina og skilgreina vanda sem upp kemur og koma með
ábendingar og tillögur til lausnar. Hér er lagt til og talið eðlilegt að þeir sem hafa samninga við stofnunina,
svo sem Rauði krossinn, fulltrúar sveitarfélaga (félagsþjónustan) og fulltrúar hagsmunasamtaka sitji fundi
framkvæmdastjórnar sem áheyrnarfulltrúar. Nánari skilgreiningar á hlutverki, verkefnum og vinnulagi
framkvæmdastjórnar eru ekki útfærðar hér.C. Meginsvið og sviðsstjórar stofnunar

C1. Svið um málefni útlendinga og hælisleitenda: Helstu verkefni

Fyrir sviði um málefni útlendinga og hælisleitenda fer sviðsstjóri. Hann ber ábyrgð á skipulagi og daglegri
stjórnun sviðsins gagnvart forstjóra. Sú starfsemi sem þarna fer fram er nú á verksviði Útlendingastofnunar
og þannig að öllu leyti á ábyrgðarsviði innanríkisráðuneytisins, ef undan eru skilin þau verkefni
flóttamannanefndar sem í tillögunni hafa verið færð til sviðsins. Áætlun og ráðstöfun framlaga til reksturs
sviðsins tæki þannig mið af því.

C2. Þjónustusvið: Helstu verkefni

Fyrir þjónustusviði fer sviðsstjóri. Hann ber ábyrgð á skipulagi og daglegri stjórnun sviðsins gagnvart forstjóra.
Sú starfsemi sem er á verksviði þjónustusviðs fer nú að hluta til fram á vegum Útlendingastofnunar, þ.e.
móttökumiðstöð fyrir hælisleitendur og tengd verkefni, og að hluta til á vegum velferðarráðuneytisins,
þ.e. móttaka flóttamannahópa. Á þessu sviði hefst skipulögð samræming á móttöku og þjónustu við
flóttafólk sem miðar að því að skapa meiri jöfnuð í þjónustunni við flóttafólk sem komið hefur til landsins
með ólíkum hætti og fengið alþjóðlega vernd á Íslandi. Áætlun og ráðstöfun framlaga til reksturs sviðsins
tæki þannig mið af núverandi skiptingu verkefna milli þessara ráðuneyta.

C3. Svið um málefni innflytjenda, aðlögun og atvinnumál: Helstu verkefni

Fyrir sviði um málefni innflytjenda, aðlögun og atvinnumál fer sviðsstjóri. Hann ber ábyrgð á skipulagi
og daglegri stjórnun sviðsins gagnvart forstjóra. Stafsemi sviðsins einkennist af umfangsmikilli samráðs-og samhæfingarvinnu sem útheimtir skipulag á víðtækri samvinnu og upplýsingamiðlun til allra þeirra samstarfsaðila sem koma að framkvæmdaáætlun stjórnvalda í málefnum innflytjenda. Hér er gert ráð fyrir
flutningi á þeim starfsmönnum sem starfað hafa með Innflytjendaráði á vegum velferðarráðuneytisins
að málefnum innflytjenda frá velferðarráðuneytinu til nýrrar stofnunar. Þetta er gert til að tryggja
nálægð og náið samstarf um uppbyggingu þekkingar og stofnanaminnis og myndun sameiginlegrar
stofnanamenningar sem auðveldar móttöku og þjónustu við innflytjendur af ólíkum uppruna til lengri
tíma. Áætlun og ráðstöfun framlaga til reksturs sviðsins tæki þannig mið af núverandi skiptingu verkefna
milli þessara ráðuneyta.

D. Stoðsvið stofnunar

D1. Fjármál og rekstrarsvið

Deild fjármála og reksturs fer með öll fjármál stofnunarinnar. Hér má ná miklum samlegðaráhrifum
með því að haldið verði um fjárframlög, hugsanlegar sértekjur og rekstur þeirrar starfsemi sem lýtur
að málsmeðferð, afgreiðslu og samhæfingu á þjónustu við útlendinga og innflytjendur í einni deild.
Hér þarf að standa með gagnsæjum hætti skil á ráðstöfun fjárstreymis sem kemur til stofnunarinnar
frá mismunandi ráðuneytum, að mestu leyti innanríkis- og velferðarráðuneytinu. Þessi deild annast
samskipti við Ríkiskaup um samningagerð, bæði um kaup á þjónustu til reksturs stofnunarinnar sjálfrar
og um samningagerð og stjórnun þjónustusamninga við opinbera aðila, frjáls félagasamtök og fyrirtæki
sem annast þjónustu við útlendinga og innflytjendur á mismunandi stigum móttöku og aðlögunar.
Mikilvægt er að þeir samningar sem ekki eru gerðir fyrir milligöngu Ríkiskaupa verði á einni hendi, svo
byggja megi upp sérhæfða og öfluga samningagetu ríkisins í þessum málaflokki á einum stað.Þá má
með þessari sameiningu ná fram samlegðaráhrifum við skipulag og rekstur tölvu- og upplýsingatækni
og tryggja stjórnvöldum aðgengi að góðum tölfræðilegum upplýsingum. Tölfræði stofnunarinnar
þarf að taka mið af þörfum stjórnenda við rekstur og daglega stjórnun starfseminnar, svo og þörfum
stjórnvalda við stefnumótun og áætlanagerð til lengri tíma. Nýlega var ráðinn fjármála- og rekstrarstjóri Útlendingastofnunar. Hér væri því um að ræða styrkingu á þeirri deild sem þegar er til staðar. Fjármála- og
rekstrarstjóri sem vinnur náið með sviðsstjórum stofnunarinnar er ábyrgur fyrir fjárhagsáætlunum, rekstri
og rekstrarlegu uppgjöri stofnunarinnar gagnvart forstjóra. Áætlun og ráðstöfun framlaga til reksturs
deildarinnar gæti byggt á kostnaðargreiningu sem tæki mið af stærð fjárframlaga frá hverju ráðuneyti til
stofnunarinnar og mælingu sem tæki tillit til annarra þátta, svo sem mismunandi hugbúnaðarþörf eftir
starfsemi, flækjustigi bókhalds og uppgjörs o.fl.

D2. Mannauðsmál og skipulag túlkamála

Fyrir stoðdeild sem færi með mannauðsmál og skipulag túlkaþjónustu fer mannauðsstjóri sem er ábyrgur
í störfum sínum gagnvart forstjóra. Mannauðsstjóri vinnur í nánu samráði við sviðsstjóra meginsviða um
allt sem viðkemur skipulagi þekkingarstjórnunar innan stofnunarinnar. Hann undirbýr og heldur utan
um stjórnun verklags við ráðningar í störf á vegum stofnunarinnar. Kallað hefur verið eftir markvissara
skipulagi og stjórnun á túlkaþjónustu. Skipulag og stjórnun túlkaþjónustu þarf bæði að ná til þeirrar
kröfu sem gera þarf til menntunar og þjálfunar túlka og skipulags á túlkaþjónustunni sjálfri. Gildir þar
einu hvort túlkar starfi á eigin vegum, á vegum fyrirtækis eða opinberrar stofnunar. Túlkar veita þjónustu
sína oft við afar mismunandi aðstæður og standa frammi fyrir ólíkum viðfangsefnum í þjónustu við
útlendinga og innflytjendur. Sú áskorun felur í sér a) hæfni til að túlka erindi og samtal sem fram fer á
tilteknu tungumáli, b) nægilega þekkingu á stofnanamáli þeirrar starfsemi eða þjónustu sem túlkun tekur
til og c) hæfni til að mæta menningarlegum fjölbreytileika og siðferðilegum álitamálum sem upp kunna
að koma við túlkun í viðkvæmum og vandasömum málum. Áætlun og ráðstöfun framlaga til reksturs
deildarinnar gæti byggt á kostnaðargreiningu sem tæki mið af fjölda og tegund stöðugilda.

D3. Þjónusta Fjölmenningaseturs

Hér er ekki gert ráð fyrir því að Fjölmenningarsetur verði flutt frá Ísafirði til stofnunarinnar á höfuðborgarsvæðinu.
Heldur er lögð áhersla á að stofnunin hafi viðveru starfsmanns frá Fjölmenningarsetri
í hluta- eða fullu starfi. Þessi starfsmaður sinnir þeim verkefnum Fjölmenningarseturs sem kallar á bein
samskipti, aðkomu að eða þátttöku í verkefnum á vegum setursins víða um land, verkefnum sem
ekki er unnt að leysa af hendi með þjónustu á vefsíðu setursins. Þessi tillaga er m.a. sett fram vegna
margra ábendinga þar um meðal þjónustuaðila á landinu sem kalla eftir nánari og beinni aðkomu
Fjölmenningarseturs í einstaka verkefnum á þeirra vegum. Hér getur verið um að ræða verkefni á borð við
námskeiðahald og ráðgjöf og stuðningur, til að mynda við innflytjendur, við stofnanir og félagasamtök
og síðast en ekki síst ráðgjöf við sveitarfélög varðandi móttöku innflytjenda og flóttafólks. Áætlun og ráðstöfun framlaga til að mæta kostnaði við þetta starfshlutfall tæki þannig mið af núverandi skiptingu
verkefna milli þessara ráðuneyta.

D4. Gæðastjórnun

Þarfnast ekki útskýringar, en samlegðaráhrif á gæði og skilvirkni eru augljós og mæta kröfum um
gagnsæi í opinberri stjórnsýslu.

Útlendingastofnun, flóttamannanefnd og innflytjendaráð lagt niður.

| Sandkassinn |
About The Author
- Ritstjórn