Á heimasíðu samtakanna Vakurs mætti halda miðað við uppsetninguna að hér væri á ferð enn eitt félag Sjálfstæðismanna. Merki samtakanna er keimlíkt kennimerki Sjálfstæðisflokksins. Þegar rýnt er svo í textann er hann ekki ólíkur málflutningi Sjálfstæðisflokksins en innihaldið er mun rasískra.

 

Um er að ræða félag sem ætlar sér að halda uppi rasískum málflutningi á Íslenskri grund og segist boða nýja og frumlega stefnu sem felur í sér varðveitingu Evrópskrar menningar. Sú stefna er í raun jafn ófrumleg og merki samtakanna. Stefnan á rætur sínar í gömlum og úreltum kynþáttafræðum. Markmiðið er að hverfa aftur til fortíðar í einmenningu.

 

Á síðunni er sagt að allir sem tengist samtökunum njóti nafnleyndar og enginn ætlar með nokkrum hætti að taka ábyrgð á þeim málflutningi sem viðhafður er í nafni samtakanna. Þrátt fyrir að engin krafa sé um að neinn leggi nafn sitt við samtökin eru inngangskröfurnar griðarlega strangar. Ætlast er til að væntanlegir meðlimir undirgangist námskeið til að vera teknir inn í hópinn.

 

“Í framkvæmdaráði Vakurs eru 9 meðlimir auk stjórnar. Allir sem náð hafa 18 ára aldri geta sótt um inngöngu í samtökin og gerst meðlimir að uppfylltum vissum skilyrðum. Umsækjandi þarf t.d. að ljúka Grunnnámskeið Vakurs I (Verklagsreglur um rafræn samskipti), II (Heilindi) og III (Orð í verki).”

 

 

Á síðunni er settur fram pýramídi eða valdastigi Vakurs þar sem stjórnin er í efsta þrepi og svo koll af kolli. Pýramídar af þessari gerð eru ekki óþekktir á meðal fasistaflokka og var Þýski Nasistaflokkurinn með tvær gerðir slíkra pýramída. Annars vegar valdaþrep flokksins og hinsvegar valdaþrep kynþátta. Þar voru aríarnir efstir en gyðingar og svartir lægstir. Vakur er ekki enn kominn með pýramída af þeirri gerð en hver veit hvað gerist í framtíðinni? Nasískar tilhneigingar þessara samtaka eru nú þegar orðnar ógnvekjandi.

 

Tengsl Vakurs við erlenda kynþáttahatara

Samtökin Vakur eru enn sem komið er fyrst og fremst þekkt fyrir að hafa skipulagt ráðstefnu Bandaríska kynþáttahatarans Robert Spencer á Grand Hóteli. Tengsl Spencer við skipulagða ný-nasista og fasista eru vel þekkt. Samtök þau sem hann er sjálfur í forsvari fyrir hafa svo verið flokkuð sem haturssamtök af bæði ADL og SPLC.

Fyrirlestur Spencer fór fram þann 11. Maí síðastliðinn þar sem um 500 rasistar mættu. Sá fjöldi er vissulega áhyggjuefni og hefði rasistasamkoma sem telur svo marga jafnvel hafa verið talin stór í mun stærri löndum. Mótmæli voru skipulögð gegn ráðstefnunni þar sem um 20 manns mættu til að mótmæla öfgum og ofstæki. Það verður að segjast eins og er að þar vantaði verulega upp á fjöldann en mótmælin fóru friðsamlega fram. Öryggisverðir Vakurs fóru aftur á móti mikinn gegn mótmælendum og sýndu af sér skelfilega framkomu eins og fasista er von og vísa.

Miklu púðri er eytt í það af hálfu Vakurs að níða niður mótmælendurnar á vefsíðu sinni. Fjölmargar myndbirtingar og skáldskapur einn um framferði þeirra gegn rasistunum. Sema Erla Serdar, sem skipulagði mótmælin, fær fúkyrðaflauminn yfir sig ásamt Óskari Steini ritara Samfylkingarinnar. Það unga fólk er að mati Vakurs rætnir lygarar en staðreynd málsins er sú að bæði vöruðu þau við hatursráðstefnunni á mjög málefnalegan hátt.

Of seint fyrir Vakur að boða nafnleysi núna

Í tengslum við komu Robert Spencer til landsins leituðu fjölmiðlar svara hjá talsmönnum Vakurs. Fyrst um sinn varð fátt um svör en þrýstingur á samtökin varð til þess að svæla rasistana sem standa að þeim út úr greni sínu. Helsti fjármagnari ráðstefnunnar var hinn hatursfulli Valdimar Jóhannesson, hægri hönd hans var Sigurfreyr Jónasson og við hlið þeirra stóð Þröstur Jónsson.

Fjölmargir þekktir ný-rasistar lögðu leið sína á ráðstefnuna. Má þar nefna Jón Val Jensson, Arndísi Ósk Hauksdóttur, Jón Magnússon, Gústaf Níelsson og Edith Alvarsdóttur svo nokkur nöfn séu nefnd. Þessu fólki var vel kunnugt um ný-nasísk og fasísk tengsl Spencer en létu það ekki stoppa sig. Útvarpshjúin á Sögu gerðu svo sitt til að auglýsa ráðstefnuna.

Vesældómur Vakurs að skýla sér á bakvið nafnleysi er því nokkuð sem mun ekki ganga. Alltof margir rasistar hafa þegar lagt nafn sitt við samtökin og munu þau ekki geta fyrrað sig ábyrgð af þeim.

Samtök um rasisma

Fjölmenningarsamfélag er samfélagsgerð þar sem fólk af mörgum litarháttum, trúm og þjóðernum býr saman. Evrópsk samfélög, ef frá eru skilin nokkur fátæk austantjaldslönd, eru byggð á fjölmenningarlegum gildum. Því skýtur það auðvitað skökku við þegar að samtök eins og Vakur segjast vilja standa vörð um Evrópska menningu með að hafna fjölmenningu.

Vakur eru samtök sem byggð eru á rasisma og það þýðir ekkert fyrir þá að víkja sér undan því. Stefna þeirra er bein árás á gildi okkar og á þá sem tilheyra minnihlutahópum. Slík ósvinna á ekkert erindi í samfélag okkar.

Vakur – Samtök Um Rasisma

| Gunnar Hjartarson |
About The Author
-