heart02

Við skiljum ekki ástand húsa

Í umræðunni um heilbrigðismál ægir öllu saman – nema heilbrigðisþjónustu, þjónustu sem snýst um sjúklinga og fjölskyldur þeirra. Okkur er kennt að treysta fólki í hvítum sloppum, þau geta bjargað lífi þegar heilsan bregst. Undanfarin misseri birtast allskonar læknar og tala um húsnæði sem hefur fengið óviðunandi viðhald og okkur eru sýndar afleiðingar langvarandi vanrækslu. Okkur eru sýndar myndir af myglu í glugga, okkur voru sýndar myndir af sama glugga í fyrra, við fáum enga skýringu á því hversvegna ekki er búið að gera við hann. Þessi gluggi er í Gamla spítalanum sem er friðuð bygging. Við skiljum ekki hversvegna viðgerðirnar taka svona langan tíma eða hversvegna þessari byggingu er ekki sýndur meiri sómi eða að viðhaldi er ekki sinnt.

Við skiljum ekki skipulagið

Fréttirnar eru svo flóknar. Legurýmum er fækkað, þó svo að það virðist ekki vera pláss fyrir neinn lengur á spítalanum. Það er búið að breyta sjúkrastofum í læknaskrifstofur. Sjúklingar liggja á göngum spítalans, okkur er sagt að sjúklingar dvelji í kústaskápum og kaffistofum, tækjageymslum og skúmaskotum. Það hafa líka borist fréttir um allskonar framkvæmdir, endurbætur og tilfæringar á deildum:Til að létta á álagi vegna ‘fráflæðissjúklinga’ voru sjúklingar fluttir frá Landakoti á Vífilstaði. Aðstaða í Kópavogi var byggð upp fyrir líknardeild og þaðan fluttist líka starfsemin frá Landakoti. Á Landakoti er heilsugæsla Seltjarnarness tímabundið á meðan húsnæðið vestur á Nesi er lagfært. Aðstaða á geðdeildum hefur verið bætt með því að færa hana til eða með breytingum á deildum, þar sem fjölbýlum er breytt í einbýli og starfsemi þeirra leggst af á meðan endurbætur fara fram. Við skiljum ekki allar þessar tilfæringar.

Við skiljum ekki fjölmiðla

Það fer enginn í verkfall nema í neyð, verkfall lækna er þannig skipulagt að það hefur áhrif á hvert fagsvið í stuttum lotum í þeim tilgangi að hafa sem minnst áhrif á starfsemina. Við skiljum það. Fréttirnar sem við fáum eru hjartnæmar sögur um sjúklinga, sem þurfa að bíða eftir nýjum aðgerðardegi aftur og aftur, dag eftir dag. Óvissan er þungur baggi ofan á veikindin sjálf sem eru kannski óskilgreind í marga daga. Að ekki sé talað um angist foreldra með veik börn sem ekki fá þá þjónustu sem þau þarfnast. Skilaboðin felast í því að engin veit hvað er að eða hvenær hægt verður að komast í aðgerð eða lækna fólk. Við skiljum ekki þennan fréttaflutning.

Við skiljum ekki 18. bygginguna

Það er ekki nokkur leið að skilja hvernig 18. byggingin á Hringbrautarlóðinni á að leysa allann þennan vanda. Kröfum um betri kjör og fjármögnun nýrrar byggingar er blandað saman. Við skiljum ekki hvernig svo ólíkar kröfur geta haldist í hendur, hvernig ný bygging getur bætt kjör lækna.

Við skiljum ekki forgangsröðun fjármuna

Í september var spítalinn komin rúmar 800 milljónir framúr fjárlögum sínum – það var ekki frétt. Fjármunum var forgangsraðað í fyrra, hvert prósent sem fjárlög LSH hækkuðu voru 1-4 heilbrigðisstofnanir landsbyggðarinnar lagðar af – það var ekki frétt. Það var heldur ekki frétt þegar það var ákveðið að það væru aðeins tveir spítalar á landinu, annar í Reykjavík – hinn á Akureyri. Við fáum fréttir af fæðingum á bílastæðum, í björgunarbílum og flugvélum – en engar um það þegar heilbrigðiskerfinu var breytt.

Við skiljum ekki ráðamenn og þjóð þeirra

Það er talað um þjóðarsátt um heilbrigðiskerfið. Þjóðin sem kallar á sátt um heilbrigðiskerfið er í háværu samtali við ráðamenn með aðstoð fjölmiðla – almúginn horfir á og óttast. Sú þjóð sem er búin að endurskipuleggja heilbrigðiskerfið okkar, án okkar vitundar vill fá enn eina bygginguna með enn einu láni fyrir komandi kynslóðir. Það gleymdist aðeins eitt, sjúklingarnir sem heilbrigðisþjónustan snýst um. Það er svo margt, svo ótal margt sem við ekki skiljum.

Guðrún Bryndís Karlsdóttir

Sjúkraliði og verkfræðingur með meistaragráðu í Umhverfis- og Byggingarverkfræði, en sérsvið hennar er sjúkrahússkipulag.

Latest posts by Guðrún Bryndís Karlsdóttir (see all)

Við skiljum ekki……

About The Author
- Sjúkraliði og verkfræðingur með meistaragráðu í Umhverfis- og Byggingarverkfræði, en sérsvið hennar er sjúkrahússkipulag.