4958_1158009383837_4483515_n    Sigurjón Þórðarson, fyrrverandi alþingismaður og núverandi framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Norðurlands Vestra. Hann stundar einnig kennslu í líffræði við fjölbraut Norðurlands Vestra.

Sigurjón er sundmaður góður og hefur meðal annars synt Drangeyjarsundið. Á alþingi vakti Sigurjón athygli fyrir yfirvegun og sterkar röksemdir. En fyrst og fremst þekkjum við Sigurjón Þórðarson sem mann jafnaðarhugsjónar og réttlætis. Sandkassinn tók þennan barráttumann tali í húsnæði Dögunnar við Grensásveg.

 

GW: Ef þú horfir svona yfir borðið í dag, á leiðinni hingað þá komst ég ekki hjá því að hugsa að þessi fjórflokkur sem við köllum oft, hvort sé komið á þegjandi samkomulag milli þeirra allra, að ræða ekki fiskveiðistjórnunarmálin ?

 

AR-960322613

Á alþingi fyrir Norðvest. 2003-2007 f. Frjálslynda.

: Það má segja að fjórflokkurinn sé ekkert að raska meginhagsmunum í samfélaginu. Þá vil ég telja líka með Bjarta Framtíð. Þetta er eitt af okkar grundvallarmálum, hvað varðar samkeppni og nýliðun í undirstöðuatvinnugreininni og verðmætasköpun er náttúrulega fiskveiðarnar. Það er ekkert hægt að líta fram hjá því ef að farið er yfir hagtölur. Og þeir sem telja sig jafnvel vera varðmenn frelsisins í viðskiptum, þeir eru að velta fyrir sér hvar rauðvínið er selt. En ekki hvort að fiskur og sala eða meðferð hans lúti markaðslögmálum.

 

Hræðslan er það mikil við að hreyfa mikið við þessu að menn láta það bara kjurt liggja.Ég held að það sé kannski meginvandinn. Svo höfum við í stað þess að taka á þessum kerfum, séríslenskum kerfum, frá hruni, sem að náttúrulega blasti alveg við þegar ég var á þingi að stefndi í óefni með, verðtryggingu, skuldasöfnun, sjávarútvegskerfið og fleira. En í stað þess að menn hefðu kjark í að taka á því og vinda ofan af því, að þá nýttu menn alla sína krafta í að endurreisa þessi kerfi. Ég held að það sé það sem að stendur upp úr hvað varðar verk vinstri stjórnarinnar, hvað hún var misheppnuð. Hún stóð einmitt vörð um þetta, færði Moggann aftur í hendurnar á útgerðarmönnum, endurreisti Morgunblaðið, útgerðirnar. Á meðan að heimilin voru sett í salt. 110% leið.

 

Lítið breyttist eftir hrun

 

GW: Og þessi furðulegi viðsnúningur í þessu helsta eða einu helsta stefnumáli þessarar stjórnar, það urðu engar breytingar á þessu fiskveiðistjórnunarkerfi.

: Og engin breyting á stjórnarskrá.

GW: Nei.

: Og því miður þá breyttist lítið. Nú ákváðu þeir sem ætluðu að verja vafaatkvæði sínu fyrir sig og heimilin, að taka tilboði Framsóknarflokksins. Og það virðist því miður sem að Framsóknarflokkurinn sé algerlega búin að gleyma að afnema verðtrygginguna.

GW: Já það er orðið algert minnistap í því efni.

: Og það sem átti að taka á að illræmdir vogunarsjóðir, hrægammasjóðir eins og þeir voru nefndir. Að þeir ættu að sjá um að leiðrétta skuldir landsmanna, það virðist hafa verið tekið af skattfé almennings og helst launafólks, því það er alveg ljóst að það er verið að aflétta sköttum af þeim sem hafa miklar eignir.  Auðlegðarskatturinn hefur lækkað eða verið lagður af og sömuleiðis er verið að létta álögum af útgerðum. Hvað leiðréttinguna varðar, þá þykir mér líklegast að þeir sem að skulduðu hvað mest þeir muni fá einna mesta niðurfellingu, en það er ekki endilega fólkið sem stendur hvað verst. Hér er fólk sem er kannski komið út á götuna og búið að missa húsnæðið og á hvorki skuldir né eignir. Þetta mun mögulega ýta undir samfélagslegt misrétti.

 

AR-102050066Við sjáum það líka að verkalýðshreyfingin sem maður bjóst við að yrði í brjóstvörn fyrir fólkið, þá hafa lífeyrissjóðirnir tekið þátt í þessum leik. Nú er ljóst að húsnæðisþátturinn er erfiður á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega fyrir fólk sem er með meðal og millitekjur. Að ráða við verðið á  leiguhúsnæði. Í staðin fyrir að lífeyrissjóðirnir væru að einhverju leyti að koma til móts við fólk, þá virðast þeir taka þátt í því að komast yfir eignir og leigja á hárri leigu. Þannig að þetta hefur snúist upp í andhverfu sína. Manni finnst nokkuð sérstakt líka að í stað þess að menn séu að spyrja sig spurninga þá eigi að bæta í. Að hækka iðgjöldin úr 12% í 15% af heildarlaunum. Þannig að það verður lítið eftir fyrir launafólk.

 

GW: Nú held ég að flestir álíti það ekki spurningu um hvort heldur hvenær Sigurjón komi aftur á þing?

: Ja það er alls óvíst hvort ég verði í framboði á ný.

GW: Það er ekki sjálfgefið ?

: Nei það er alls ekki sjálfgefið.

 

Fiskveiðistjórnunarmálin

 

GW: Nú má eiginlega segja að þið í Frjálslynda Flokknum á sínum tíma, þið í rauninni lyftuð grettistaki í þessu gjafakvótamáli og að vekja það mál til umræðu og til vitundar almennings. Og þið voruð eiginlega óþreytandi, það verður að segjast, þið voruð óþreytandi við að hamra þetta mál inn í vitund þjóðarinnar. Og vantar ekki slíkt afl í dag sem er tilbúið að gefast ekki upp með þetta gríðarlega hagsmunamál þjóðarinnar?

: Ég veit ekki hvort að aflið vanti. Það eru ákveðnir þættir, við sjáum að fjölmiðlarnir þeir sem eiga að sjá um opna umræðu. Þeir hafa pottlok á þessu, það er reynt að þagga þessa umræðu niður. Morgunblaðið er t.d. í eigu LÍÚ, sem hefur nú reyndar reynt að fara í einhverja andlitsupplyftingu, eigum við ekki að segja fegrunaraðgerð, með nýjum samtökum. Og ég held að það verði nú fljótt sem að botoxið hjá þeim samtökum renni eitthvað til og gamla Grýla komi í ljós. En þeir hafa bara eignast fjölmiðil. Það er mjög erfitt að fá upplýsta umræðu um þessi mál í ríkisfjölmiðlinum. Það er helst á Útvarpi Sögu þar sem þessi umræða kemur mest upp á yfirborðið. Þá sér maður að þegar hlustendur geta hringt inn að almenningur er aðvitað með ákveðna réttlætisvitund og sér alveg þróunina og vitleysuna í þessu kerfi.

GW: Ég eiginlega þekki bara engan sem gerir það ekki, maður hittir alls konar fólk og ég bara hitti engan sem ekki er á þeirri skoðun að þetta kerfi sé ómögulegt.

: Já já enda erum við að veiða svona helmingi minna en við veiddum áður í þorski og það sama má segja um ýsuna, við erum meira að segja að veiða þriðjunginn af því sem við veiddun fyrir örfáum árum og það eru engin rök fyrir þessu.

GW: Þannig að það er ekki einungis þetta gjafakvótakerfi sem við köllum og framsalið, heldur er það líka fiskveiðistjórnunin sjálf sem er í ólagi.

: Lífræðilega stjórnunin er alveg galin.

GW: Og hvað veldur því, af því nú eru þetta vísindamenn sem eiga að heita að vera að stjórna þessu alla vega ?

: Að mínu viti þá var tekin skakkur póll í hæðina hvað varðar stofnvistfræði. Menn trúðu því að stór hrygningarstofn gæfi mikla nýliðun, en reynslan hefur sýnt að svo er ekki. Heldur að þetta sé eins og fata og ef að ekki er fyrir í fötunni stór stofn, að þá sé mögulega pláss fyrir fleiri í fötunni. Þannig að það er miklu frekar öfugt samband á milli hrygningarstofns og stofnstærðar og nýliðunnar.Þetta er bara það sem ég kenni í vistfræði og þetta er það sem gengur í öllum vistfræðipælingum, það er ris og svo er hnig. Það rís upp stofn, þá þrengir um, það verður minna fóður, sjúkdómar ná sér frekar á strik, snýkjudýr og annað. Og þá hnígur stofninn. Svona gengur þetta koll af kolli. Og menn verða kannski að gæta að því að þessir kraftar eru miklu öflugri í dýrastofni þar sem hver og einn einstaklingur getur gefið af sér margar milljónir eggja. Til að stofn sé í jafnvægi og hver og ein hrygna hrygnir að meðaltali 5 milljónum eggjum, þá farast 4.999.998 áður en afkæmin ná að hrygna. Til að hrygningastofn geti vaxið um 50% þá drepast allir nema 3 áður en afkvæmin ná að hrygna. Gróflega séð má ætla að menn fái frekar mikla nýliðun ef að það er hellt úr fötunni.

GW: Ef að stofninn er í við minni ?

Drangeyjarsund 14. ágúst 2 klukkust og 5 mín Drangeyjarsund minni

Sigurjón tekur við viðurkenningu fyrir Drangeyjarsund

: Já þá má kannski búast við að hann rísi upp á ný. En auðvitað er þetta alltaf þannig að það er ekki á vísan að róa í þessu. En samt sem áður þá höfum við verið að veiða núna miklu minna en við höfum að jafnaði gert áður.

GW: Þora menn ekki að gera einhverjar tilraunir með þetta innan einhverra marka sem myndi ekki stúta stofnunum hérna ?

: Það hefur verið gerð tilraun, til dæmis í Færeyjum, þar sem að hefur alltaf verið veitt umfram ráðleggingar. Menn hafa veitt makríl umfram þessa ráðgjöf á síðustu árum. Og hvað hefur gerst, höfum við misst af Makrílnum eða hefur hann ekki komið ? Við höfum veitt Makríl gríðarlega umfram ráðgjöf. Auðvitað mun koma að því að stofninn mun hníga á ný, það er alveg ljóst.

GW: Nú vorum við ekki með nákvæmar upplýsingar um stofnstærðina á tímabili. Við náttúrulega áttum í þessum deilum við Norðmenn og Evrópusambandið og allt það. En ert þú á því að við höfum verið að fara langt fram úr því sem við vissum á þeim tíma um stofnstærðina?

: Stofnstærðarmælingar á Makríl eru mjög ónákvæmar vægast sagt. En það var samt sem áður gefin út ráðgjöf frá Alþjóðahafrannsóknarstofnun og það var veitt langt umfram hana. Samt óx stofninn. Það gerðist ekki neitt. Niðurstaðan er að veiðin í sjálfu sér er ekki það sem ákvarðar stofnstærðina.

Frá árinu 2007 minnir mig, þá hefur ýsuveiðin minnkað og er hún nú 25% af því sem hún var fyrir árið 2007 minnir mig það hafi verið frekar en 2006. 25-30% af því. Það er ekki hægt að segja að ekki hafi verið farið eftir ráðgjöfinni. Samt sem áður þá fæst ekki þessi stöðugleiki eða aukning sem boðuð er. Þannig að ráðgjöfin er ekki að virka. Það er einn handleggur á þessu. Síðan er það kvótinn og hvernig menn einangra hann. Og það má segja að þeir sem eru handhafar kvótans, þeir hafa ekki þorað að ýta við þessari umræðu, þeir vilja eiga sitt mengi fyrir sig og ekki hleypa öðrum í það. Þeir eru ekkert endilega áfjáðir í að stækka kökuna og hleypa fleirum inn.

GW: Þeir vilja í sjálfu sér sem minnsta umræðu.

 

Bein tenging við afkomu fólks

Já það er að einhverju leyti skiljanlegt að fólk setji ekki samasemmerkið, þegar að keyptir fræðimenn í háskólanum, eru kannski að halda öðru fram. Eru kannski að halda því fram að þetta sé hagkvæmt fyrir alla.

 

: Það sem þarf að leggja áherslu á er þetta. Þeir sem starfa hjá sveitarfélagi, hjá ríki, jafnvel í byggingariðnaði,  í sjávarbyggðunum sjálfum. Þeir setja oft ekki samasemmerki milli þess sem er að gerast á höfninni og sinnar afkomu. Þessi tengsl milli afkomu fólks og þess sem er að gerast á bryggjunni verða augljósari eftir því sem bæjarfélögin eru minni. Það er alveg ljóst að fólk sem vinnur inni á stofnunum eða starfar í hinni og þessari þjónustu hér í Reykjavík, það setur ekki samasemmerki milli þess sem er að gerast í sjávarútveginum, þar sem menn eru að moka til sín þúsundum milljarða í eigin vasa, og þeirra eigin afkomu. Menn eru með á teikniborðinu núna einbýlishús sem kosta hátt í milljarð, ég hef frétt af því. Á sama tíma og það er jafnvel verið að bera fólk út úr húsnæði í Breiðholtinu.

GW: Þetta er mjög sorgleg þróun.

: Já það er að einhverju leyti skiljanlegt að fólk setji ekki samasemmerkið, þegar að keyptir fræðimenn í háskólanum, eru kannski að halda öðru fram. Eru kannski að halda því fram að þetta sé hagkvæmt fyrir alla. Þrátt fyrir að aflinn sé helmingi minni en hann var áður.Og þrátt fyrir að útborguð laun í fiskvinnslu séu bara rétt um 200.000 kallinn.

GW: Hvað myndir þú segja að margir fræðimenn svona yfir heildina, séu fyrst og fremst teknókratar sem að taka bara að sér þau verk sem þeim bjóðast. Hve stór hluti háskólamanna myndir þú segja að væru svona hugsjónamenn, fólk sem er ekki tilbúið að taka að sér hvað sem er, hefur þú einhverntíma hugleitt það ?

: Nei við erum náttúrulega öll háð hendinni sem fóðrar okkur. En samt finnst mér það koma úr hörðustu átt, þegar að þeir sem eiga að hafa svigrúmið til akademískrar og gagnrýnnar hugsunar, að þeir eru jafnvel komnir í að berja umræðuna niður. Þá dettur mér nú bara í hug dósentinn upp í háskóla sem fór í mál við útgerðarmanninn. Vegna þess að útgerðarmaðurinn gagnrýndi skýrslu sem dósentinn gaf út og benti á að dósentinn væri kostaður af LÍÚ. Það var rétt að hann var kostaður af LÍÚ en nú var dósentinn að einhverju leyti komin beint úr reikningi hjá þeim og gat þess vegna unnið málið. Það er mjög sérstakt að háskólinn sem stofnun skuli láta þetta viðgangast.

GW: Já og að útgerðin skuli hafa svona umtalsverð ítök innan háskólans.

: Það er náttúrulega alveg ljóst að háskóli sem að boðar samkeppni, framboð og eftirspurn, að það komi þá skýrslur um það að samráð olíufélaganna skipti ekki mjög miklu máli. Síðan kemur skýrsla frá Hagfræðideild Háskólans um það að það sé ekki mikið atriði að fiskur fari á markað.
Við skellum upp úr

: Svo er jafnvel farið í herferð um landið. Þegar var umræða hjá vinstri stjórninni um að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu. Þá var Ragnar Árnason mættur í þá herferð með LÍÚ um landið gegn þessari umræðu. Þá lét nú forstjóri Síldarvinnslunnar fræg orð falla á fundi þar sem hann hálfpartinn grét og kom held ég með mynd af börnunum sínum og spurði hvað yrði um þau.
Við skellum aftur upp úr

Það hefur nú kannski farið minna fyrir áhyggjum hjá honum yfir því hvað yrði á Djúpavogi eða á Flateyri eða öllum þessum stöðum sem hafa meira eða minna verið lagðir í eyði. En burt séð frá þessu þá eru allir að tapa á kerfinu, fyrsta verkið fyrir þá sem vilja breyta þessu kerfi, er auðvitað að setja fisk á markað.

GW: Já ég held að það séu flestir sammála um þetta.

 

Að setja fisk á markað

 

: Ekki formaður Samfylkingarinnar, ekki formaður Sjálfstæðisflokksins og ekki formaður Framsóknarflokksins. Og ekki formaður Bjartrar Framtíðar. Og alls ekki formaður Vinstri Grænna og ég skil það mjög vel því Vinstri Grænir eru ekkert hrifnir að frjálsum markaði og þeir hafa sín rök fyrir þvi.

GW: En þetta með Bjarta Framtíð er merkilegt, er þetta bara Framsóknargenið í Bjartri Framtíð ?

: Nei ég held þetta sé miklu frekar spilað inn á svona einhvern góðan fílíng. Þú ert ekki að raska neinum hagsmunum, gefur eitthvað í skyn, en um leið og þú ferð ekki gegn neinum sterkum hagsmunum þá færðu ekki nein sterk öfl á móti þér. Þá svífur þú svona áfram og þetta gengur svona.Og ég hef nú heyrt í áhrifamönnum innan Sjálfstæðisflokksins um að þeir séu farnir að líta hýru auga til þess að þegar allt loft verði farið úr Framsóknarflokknum og það er nánast á góðri leið með það skilst mér, formaðurinn er nú ekki með mikin trúverðugleika eins og er. Þá eru menn farnir að horfa hýru auga til þess að Björt Framtíð geti þá haldið Sjálfstæðisflokknum við völd.

GW: Hefur ekki alltaf staðið til hjá Sjálfstæðismönnum að fleygja Framsókn af baki fyrr eða síðar ?

: Nei ekkert endilega, þarna er ekki stór ágreiningur.Það er ekki mikil umræða um það í Valhöll að setja allan fisk á markað og að gera þetta að gagnsæu kerfi, nei. Það eru kannski þessi rauðvínsmál sem menn deila um. En ég held að flokkarnir séu meira eða minna sammála. Þá á ég kannski ekki við fótgönguliðaflokkana, heldur þá sem eru í efstu lögunum.

 

Velferðarkerfið í vanda

 

GW: En það er alveg ljóst að við erum með hlutfallslega stórt velferðarkerfi miðað við fólksfjölda. Sem að þýðir náttúrulega það að þetta er dýrt. Og ef að ríkið hefur ekki tekjur til þess að halda þessu kerfi uppi, sem að virðist nú vera töluvert vandamál eins og er og hefur líklega alltaf verið vandamál. Þá er það náttúrulega alveg grætilegt ef að við náum ekki að breyta þessu fiskveiðistjórnunarkerfi.

: Ég er reyndar ekkert viss um að við séum með svo gott velferðarkerfi.  Það er ekki þannig og það er bara ekki farið nógu vel með peningana hérna.  Hér virðast bara verðmætin gluðast út úr höndunum á stjórnvöldum.

GW: Þannig að við erum með allar þessar stofnannir en þær eru ekki að,,,,

: Já ég er að segja að fjármunirnir eru ekki að nýtast almenningi og það er ekki verið að forgangsraða rétt, það er alveg ljóst.
Þannig að vandamálið er ekki tekjurnar, heldur forgangsröðunin. Hvernig við skiptum þeim (tekjunum). Og kerfin, við erum með kerfi sóunar.

GW: Sóunarkerfi.

: já og einokun á mjög mörgum sviðum. Ég held að eins og í sjávarútveginum, þá verði menn að fá markaðslögmálin inn, fá gagnsærra kerfi í landbúnaðinn. Vefja ofan af því kerfi og gríðarlegum fjármagnskostnaði, hann er ekkert í líkingu við það sem þekkist á byggðu Bóli annars staðar. Við erum að horfa á lága verðbólgu en þá er ekkert verið að tala um það að afnema verðtrygginguna. Nú var verið að tala um að það væri ekki hægt fyrr en búið væri að ná verðbólgunni niður. Nú er verðbólgan komin niður, samt er verðtryggingin áfram.

GW: Þetta er merkilegur viðsnúningur hjá Sigmundi, nú segir hann að verðtryggingin sé svo lág að það sé ekki ástæða til að taka verðtrygginguna af. Er hann að gefa þau skilaboð að meðan hann sé til staðar að þá verði verðbólgan svona lág og þess vegna sé ekki ástæða til að,,,,,,aaahahahaha

: Ja málið er bara að í nágrannalöndum okkar erum við að tala um vexti í kring um 2-3% sem að bjóðast almenningi. Hér er fólki boðið upp á 4-5% vexti, plús verðtryggingu.Það er himin og haf þarna á milli. Ég held að þetta snúist bara um það að menn hafi ekki kraftinn í þetta.

 

Gunnar Waage

Gunnar Waage

- Gunnar Waage er blaðamaður og ritstjóri Sandkassans frá árinu 2013.

Hann er Trommari, Tónskáld og skólastjóri Trommuskólans, fyrrverandi deildarstjóri og einn af stofnendum Tónlistarháskóla G. Martell í Mexíkóborg. Hann lauk burtfararprófi frá McNally Smith College of Music, en duflar við kerfisfræði og er áhugamaður um bardagaíþróttir. Hann rýnir í þjóðfélagsmál og lætur sig flest varða.Hann er einstæður faðir, jafnréttissinni, fjölmenningarsinni og áhugamaður um velferð barna. Starfar við túlkun og þýðingar og fæst við spænskukennslu.


Hann er pistlahöfundur á Kvennablaðinu og var pistlahöfundur á DV en hætti skrifum á DV ásamt fleirum, í þeim tilgangi að sýna blaðamönnum og ritstjórn blaðsins samstöðu í kjölfar yfirtöku á félaginu í September 2014.
Gunnar Waage

Viðtal við Sigurjón Þórðarson

| Viðtalið |
About The Author
- - Gunnar Waage er blaðamaður og ritstjóri Sandkassans frá árinu 2013. Hann er Trommari, Tónskáld og skólastjóri Trommuskólans, fyrrverandi deildarstjóri og einn af stofnendum Tónlistarháskóla G. Martell í Mexíkóborg. Hann lauk burtfararprófi frá McNally Smith College of Music, en duflar við kerfisfræði og er áhugamaður um bardagaíþróttir. Hann rýnir í þjóðfélagsmál og lætur sig flest varða.Hann er einstæður faðir, jafnréttissinni, fjölmenningarsinni og áhugamaður um velferð barna. Starfar við túlkun og þýðingar og fæst við spænskukennslu. Hann er pistlahöfundur á Kvennablaðinu og var pistlahöfundur á DV en hætti skrifum á DV ásamt fleirum, í þeim tilgangi að sýna blaðamönnum og ritstjórn blaðsins samstöðu í kjölfar yfirtöku á félaginu í September 2014.